15.11.1972
Neðri deild: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

79. mál, hafnalög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir þau orð hæstv. samgrh., að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, sem væntanlega verður samgn., hraði eftir föngum störfum sínum og afgreiði þetta frv. fljótlega, þannig að stefnt verði að því, eins og mér skildist á hæstv. ráðh., að þetta frv. verði orðið að lögum, áður en endanleg afgreiðsla fjárl. fer fram. Þetta er auðvitað mjög mikið og flókið frv., en það skiptir miklu, að búið er að leggja það áður fyrir Alþ., síðasta þing. Þó að það hafi ekki orðið meira en að sýna það og hafa þar 1. umr. um málið, — ég held, að það hafi verið í Ed., — þá á það að greiða fyrir. Og sömuleiðis í sambandi við umsagnir um frv., þá hafa samtök sveitarfélaga og þó alveg sérstaklega Hafnasamband sveitarfélaga tekið þetta frv., eins og það var lagt fyrir síðasta þing, til yfirvegunar, og þar voru lagðar fram hvorki meira né minna en í 30 greinum aths. við frv., sem á að vera tiltölulega létt og auðvelt verk fyrir n. að athuga og sjá, hvað hægt er að taka til greina af þeim aths., sem þar koma fram.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., var þetta frv. samið af n., sem fyrrv. samgrh. skipaði, og núv. samgrh, skipaði svo til viðbótar. Nefnd þessi lauk störfum, að mig minnir, í febrúarmánuði s.l., og náðist fullt samkomulag um það frv., sem hæstv. ríkisstj. og samgrh. lögðu fram hér seint á síðasta þingi með örlítilli breytingu, sem ekki skiptir höfuðmáli að mínum dómi.

Mér er bæði ljúft og skylt að taka það fram, að í starfi þessarar n. reyndum við í fyrsta lagi að taka tillit til þeirra erfiðu fjárhagsástæðna, sem eru orðnar hjá mörgum höfnum á landinu, og jafnframt að taka tillit til. að það eru takmörk sett fyrir því, hvað ríkissjóður getur tekið á sig þunga bagga í einu. En þegar litið er á það alvarlega ástand í fjármálum flestra hafna, sem hafa staðið í framkvæmdum á undanförnum árum, að afborganir og vextir af lánum þeirra eru að mjög verulegu leyti þeim ofviða með öllu og hafa að sumu leyti lent á ríkissjóði, þá er auðvitað ekki um annað að ræða heldur en játa staðreyndir, að hér hefur orðið mjög mikil breyting, frá því að síðustu hafnalög voru sett. N. sú, sem samdi frv. að núgildandi hafnal., taldi, að ef till. hennar næðu fram að ganga, væri sköpuð viðunandi lausn á fjárhagsvanda hafnanna. En við umr. um það frv. hér á hv. Alþ. var fellt niður svonefnt hafnabótasjóðsgjald, sem átti að vera fastur tekjuliður fyrir hafnabótasjóð, og það var áætlað, að sjóðnum dygðu á þeim tíma um 12 millj. kr. árlegar tekjur, en þessi lög voru sett seint á þingi 1967. Það kom hins vegar fljótlega í ljós, að fjárhagserfiðleikar hafnanna urðu miklu meiri en útlit var fyrir, þegar lögin voru sett, m.a. vegna þess, að hafnabótasjóðsgjaldið var fellt niður og enginn tekjustofn annar kom í þess stað. Hitt ber líka að geta um, að það hafa orðið svo örar breytingar í sambandi við byggingu hafna, að þær hafa margfaldazt svo í verði, frá því að þau hafnalög voru sett, að þeir, sem þá unnu að undirbúningi þessarar lagasetningar, gerðu sér engan veginn grein fyrir því, hvað þessar breytingar yrðu örar og hve hafnarframkvæmdir almennt væru dýr mannvirki, svo að það má segja í þessu sambandi, að það sé eðlilegt, að hafnirnar séu komnar í mikinn og erfiðan fjárhagsvanda, eins og kom skýrt fram hjá hæstv. ráðh. og sömuleiðis kemur skýrt fram bæði í aths. og grg. með þessu frv., ásamt töflum og upplýsingum, sem fyrir liggja. En þær upplýsingar, sem fyrir liggja, eru engan veginn tæmandi. Þær eru miðaðar við það, sem var, þegar var unnið að undirbúningi þessa frv. Erfiðleikar hafnanna taka á sig nýjar myndir, og þær hafnir, sem hafa fram á árið 1970 þurft að leggja mest að sér í greiðslu afborgana og vaxta og hæstv. ráðh. gerði að umræðuefni, þær sem voru hæstar 1970, eru kannske ekki í árslok 1972 þær hæstu. Það breytist ár frá ári, eftir því sem hafnir hafa lagt í framkvæmdir. Þegar við göngum frá þessum upplýsingum 1971, byggjum við á árinu 1970. Síðan eru komnar nýjar og tilkomumeiri afborganir hjá mörgum litlum byggðarlögum, þannig að sú upphæð, sem hæstv. ráðh. gat um og vitnaði í þessa töflu, getur í einstökum tilfellum verið orðin miklu hærri.

Hver sanngjarn maður hlýtur að sjá það og skilja og viðurkenna, að ef svona á að ganga til, þá er aðstöðumunurinn gífurlegur, eftir því hvar fólkið býr á landinu. Við skulum taka t.d. lítinn stað eins og Bakkafjörð, sem 1970 á að greiða í fastar samningsbundnar afborganir og vexti af hafnarlánum sínum 4683 kr. á hvern íbúa, á börn sem gamalmenni.

Svo skulum við taka þann staðinn, sem hefur algera sérstöðu í þessum efnum, höfuðborgina, sem nýtur þess, að mestallur innflutningur til landsins fer um höfnina í Reykjavík. Reykjavík fær engan styrk frá ríkinu, en Reykjavíkurhöfn er rekin með miklum hagnaði og stendur fyllilega undir öllum sínum skuldbindingum og öllum framkvæmdum, sem lagt er í. Það er óþekkt fyrirbrigði, að lagt hafi verið í útsvörum á gjaldendur í Reykjavíkurborg að standa undir hafnarframkvæmdum, og þess vegna hefur auðvitað borgin getað farið út í ýmsa aðra uppbyggingu. En þegar við lítum á stað eins og Bakkafjörð, sem verður að greiða til ársloka 1970 tæpar 4700 kr. á hvern íbúa, þá getur hver og einn þm. spurt sjálfan sig að því: Hvað verður eftir á svona stað til þess að mæta ýmsum framkvæmdum og því, sem horfir til framfara og heilla í því byggðarlagi?

Við skulum einnig líta á stað eins og Bolungarvík, sem er með tæpar 4000 kr. 1970. En Bolungarvík hefur þá sérstöðu fram yfir, held ég, alla aðra staði, að hafnarframkvæmdir hafa verið mjög þungar á því byggðarlagi, ekki eingöngu síðustu ár, heldur áratugum saman, og munu verða um langa framtíð. Það er þungur skattur, sem er á þessum stöðum og gerir aðstöðu fólksins til að búa þar geigvænlega, og þetta er auðvitað ein ástæðan fyrir því, að fólkið segir: Hér á þéttbýlissvæðunum eru auðvitað framfarir miklu meiri. Það er miklu meira gert til félagslegrar uppbyggingar, til varanlegrar gatnagerðar o.fl., o.fl., sem of langt yrði upp að telja. En við, sem búum á litlum stöðum, eins og hér hafa verið nefndir, við verðum að sætta okkur við það að standa undir lánum af hafnarframkvæmdum okkar, sem eru auðvitað ekkert annað, hafnarframkvæmdirnar, en hluti af framleiðslukostnaði, sem er auðvitað fyrst og fremst og eingöngu fyrir þjóðina alla, hagur þjóðarinnar allrar, en ekki eingöngu þessara mismunandi stóru staða.

Hitt vitum við, að þarfir ríkisins eru einnig miklar, og það hefur oft komið í ljós á fundum, sem ég hef setið á og m.a. hæstv. samgrh. og þm., bæði úr því kjördæmi, sem ég er hér fyrir, og fleiri kjördæmum, — þar hefur komið fram ákaflega mikil gagnrýni frá hendi sveitarstjórnarmanna, hvað ríkið hafi í raun og veru sýnt lítinn skilning á þessum þungu byrðum þessara staða, og sumir hverjir hafa lítið á það sem einhverja allsherjarlausn að gera hafnirnar að landshöfnum. Ég get ekki og vil ekki láta hjá líða, að það komi hér fram, að ég er í raun og veru andstæðingur þess, að fiskihafnir í landinu verði gerðar að landshöfnum, þó að það séu þrjár landshafnir til, sem aldrei skyldi verið hafa. Og það er fyrst og fremst vegna þess, og þó að ég sé auðvitað fyrst og síðast upprunninn og búsettur í hinum strjálu byggðum og vilji gjarnan létta byrðinni sem mest af þeim, þá er þetta mál ekki eins einfalt og margir hafa haldið, því að ef ríkissjóður tekur að sér allar hafnirnar og gerir þær að landshöfnum, þá auðvitað breytist ekkert þörfin fyrir framkvæmdir og ríkissjóður verður að láta svo og svo margar hafnir bíða með framkvæmir. Við, sem höfum litið á aðstöðuna í landshöfn eins og Þorlákshöfn, höfum séð, að ríkissjóður hefur engan veginn — frekar en mörg önnur byggðarlög — getað orðið við kröfum þeirra íbúa um þær framkvæmdir, sem þeir telja nauðsynlegt, að þar séu gerðar. Þess vegna er það þannig, að ef allar hafnir væru orðnar að landshöfnum, væri biðin eftir framkvæmdum eftir sem áður mjög lík því, sem er með því fyrirkomulagi, sem hefur verið og er í sambandi við eignarhlutföll ríkis og sveitarfélaga. Hitt er svo annað mál, sem ég tel a.m.k. eins þungt á metunum, að ég tel, að þunginn af framkvæmdunum og matið á þörfinni fyrir framkvæmdir eigi að vera í höndum heimabyggðanna sem mest, en ríkið á auðvitað að sýna þá sanngirni að taka meira á sig, af því að hér er í raun og veru, eins og ég sagði áðan, um að ræða atvinnufyrirtæki. Útflutningsatvinnuvegirnir byggjast á höfnum.

Ég tel því, að forustan eigi að vera heima í byggðarlögunum sjálfum, og ég tel, að með þessu frv. sé komið mjög skynsamlega og hóflega á móti óskum flestra byggðarlaga í þessum efnum með því að fara inn á, að ríkissjóður styrki þessar hafnarframkvæmdir sjálfar um 75%, og sömuleiðis með því ákvæði í frv., sem lýtur að hafnabótasjóði, að fámennir staðir, sem eiga við fjárhagserfiðleika að etja sakir mjög dýrra framkvæmda við hafnargerðir, geti fengið styrk allt að 15%. Þá kem ég að því endanlega, sem er persónuleg skoðun mín, að ég tel það ekki vera of mikið, að byggðarlögin, þau smæstu byggðarlög, standi þá undir 10%, og þau, sem stærri eru og veigameiri, standi undir 25%, en njóti þess að hafa forustu framkvæmda og stjórn á atvinnufyrirtækjum, sem eru á þessum stöðum.

Eins og ráðh. gat um, er ætlazt til, að framkvæmdir samkv. þessu frv., sem verði styrktar með 75% framlagi af ríkisfé, verði auknar frá því, sem áður var, og jafnframt eru sett skýrari mörk milli þeirra framkvæmda, sem njóta 75% og 40% ríkisstyrks. Aðalbreytingin frá gildandi lögum er sú, að bryggjur og viðlegukantar, sem áður nutu 40% ríkisstyrks, munu njóta 75% ríkisstyrks samkv. þessu frv. Samkv þeim upplýsingum, sem hafnamálastofnunin gaf okkur í þessari n. í fyrra, hefur meðalframlag ríkissjóðs til hafnarframkvæmda, siðan núgildandi lög tóku gildi, numið um og yfir 60%, en á árinu 1971 námu þau 63%, og gæti raunveruleg kostnaðarþáttaka ríkisins því hækkað úr 63% í um það bil 72–74%, en enn þá er nokkuð af framkvæmdum, þar sem ríkissjóður greiðir 40% af stofnkostnaði, en þar eru dráttarbrautirnar þýðingarmestar.

Eins og ráðh. gat um, er lagt til, að hafnabótasjóður verði efldur, og er samkv. frv. lagt til, að 12% af árlegum framlögum ríkíssjóðs á fjárl. til hafnarmannvirkja og lendingarbóta verði greidd í hafnabótasjóð, en þó aldrei lægri upphæð en 25 millj.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um undirbúning að samningu þessa frv. eða um frv., eins og það var lagt fyrir á síðasta þingi. En þegar þetta frv., sem við erum nú að ræða, kom á borðið hjá mér, brá mér nokkuð, þegar ég sá, að hæstv. ríkisstj. hefur fellt niður úr þessu frv. ákvæði til bráðabirgða 2. En um það varð eins og um annað samkomulag í n., sem samdi þetta frv., að það væru tekin upp tvenns konar ákvæði til bráðabirgða í þetta frv. Eina breytingin, sem hæstv. samgrh. eða ríkisstj., sem hafði fengið nál. til yfirlestrar og umsagnar, áður en frv. var lagt fram í fyrra, hafði gert frá því, sem n. lagði til, var örlítil breyting á ákvæði til bráðabirgða 2. Ég tel það mjög mikilvægt, að þetta ákvæði verði haft með, og ég skal fyrir mitt leyti fúslega fallast á þá breytingu, sem hæstv. ríkisstj. gerði á ákvæði til bráðabirgða 2, og vil því leyfa mér að flytja skrifl. brtt. við frv. um það, að aftan við ákvæði til bráðabirgða komi svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða 2:

„Heimilt er að greiða úr ríkissjóði allt að 40% af stofnkostnaði þeirra dráttarbrauta, sem byggðar hafa verið frá árinu 1960 til gildistöku þessara laga af einstaklingum og félögum, eftir því sem fé er veitt til á fjárl. Skilyrði fyrir greiðslu slíks framlags sé: 1. Eigi sé nema ein dráttarbraut í sveitarfélaginu. 2. Jafnframt dráttarbrautinni sé rekin skipasmíðastöð. 3. Í sveitarfélaginu sé rekin veruleg útgerð að dómi samgrn. 4. Viðkomandi hafnarsjóður eða sveitarsjóður leggi fram a.m.k. 10% stofnkostnaðar á móti framlagi ríkissjóðs. 5. Um dráttarbrautina sé stofnað hlutafélag, þar sem framlög ríkis og sveitarfélaga verði eignarhluti þeirra, enda nemi hann a.m.k. 50% hlutafjár“

Ég hygg, að ég þurfi ekki að skýra nánar þessa till. Hún liggur hér skýr fyrir. Þar sem hafnarsjóðirnir sjálfir eiga dráttarbrautir, þá eiga þeir rétt samkv. núgildandi l, á 40% styrk frá ríkinu, en ekki þar sem einstaklingar eða félög einstaklinga eiga þessar dráttarbrautir, en það er á örfáum stöðum á landinu. Ég tel, að skilyrði fyrir þessu framlagi til dráttarbrauta, sem eru í eigu einstaklinga, séu svo ströng og ákveðin, eins og þau voru sett upp upprunalega í ákvæði til bráðabirgða í nál. og síðar í frv. því, sem ríkisstj. flutti á s.l. ári, að það væri að mínum dómi mikið ranglæti að streitast á móti þessari breytingu frá núgildandi hafnalögum. Ég vona, þó að þetta ákvæði hafi verið fellt niður úr frv. núna, að hæstv. samgrh. setji sig ekki upp á móti því, að þetta verði aftur tekið inn í frv., og sú n., sem fær frv. til athugunar, grandskoði mjög vel þessa till., áður en henni verður hafnað.

Í aths. þeim, sem Hafnasamband sveitarfélaga gerði á 3. ársfundi sambandsins 15. sept. í sumar, sem haldinn var á Akureyri, eru allmargar aths., sem eru í raun og veru að mínum dómi ákaflega lítilfjörlegar. En þó eru þar nokkrar aths., sem hafa töluverða þýðingu, m.a. við 2. gr. frv., en þar leggja þeir til m.a., að ráðh. skuli setja Hafnamálastofnuninni 5 manna stjórn, skipaða þremur fulltrúum frá ríki og tveimur fulltrúum tilnefndum af Hafnasambandi sveitarfélaga og ráðh. skipi formann stjórnarinnar. Þetta atriði kom mjög til álita hjá okkur í þeirri n., sem samdi þetta frv. En við töldum ekki ástæðu til að taka þetta upp í till. okkar. Ég skal fúslega játa, að það hlýtur að hafa töluverðan kostnaðarauka í för með sér að skipa stjórn yfir stofnun eins og þessa, þó að ég geti á engan hátt neitað því, að það sé engan veginn óeðlilegt, að Hafnasamband sveitarfélaga eigi aðild að þessari stofnun. Hins vegar er þó hér við að bæta, að með þessu frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður taki að sér meiri kostnað, og þess vegna má því segja, að það sé minni ástæða til, að nýir aðilar fái aðild að þessari stofnun. En þá aths. vil ég gera, sem ég tel, að eigi að vera alltaf ráðandi, að ef verður horfið að því ráði, að ríkið skipi meiri hl. í stjórn og stjórn verði sett Yfir þessa stofnun, þá er það mín skoðun, að ráðh. eigi ekki að skipa slíkar stjórnir, heldur eigi Alþ. að kjósa þá menn, sem í slíkar stjórnir eiga að fara. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að ég tel mjög eðlilegt, að ráðh. á hverjum tíma skipi formann stjórnar þeirrar stofnunar, sem heyrir undir hann. Þetta er að mínum dómi meginatriði, en ekki stefnt neitt gegn núv. ráðh. eða ríkisstj.

Ég vil líka geta þess, að í aths. Hafnasambandsins lýsir það yfir samþykki sínu með óbreytt ákvæði til bráðabirgða 2, bráðabirgðaákvæðið, sem ég hef nú tekið aftur upp með till. minni, en Hafnasambandið leggur til. að það komi þriðja bráðabirgðaákvæðið, svo hljóðandi:

„Endurskoða skal lög um landshafnir og rekstrarform þeirra með það fyrir augum, að þær verði afhentar viðkomandi sveitarfélögum til rekstrar.“

Ég tel, að þetta atriði megi mjög koma til athugunar hjá þeirri n., sem fær frv. til athugunar. En ef það verður til þess, að um málið verði miklar deilur hér á þingi, vil ég ekki leggja á það mikla áherzlu, a.m.k. ekki að þessu sinni, því að ég er mjög á því, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að hraða sem allra mest afgreiðslu á þessu nauðsynlega máli, og það eru margar sveitarstjórnir, sem bíða í miklu ofvæni eftir því, hvernig afgreiðslu þetta mál fær.

Ég fagna því, að samgrh. óskaði mjög eftir því, að afgreiðslu málsins yrði hraðað. En ég vil mjög gjarnan fá, ef hann getur gefið upplýsingar um, hvort það sé ætlun hans og þá ríkisstj. að stefna að því, að fjvn. taki þetta ákvæði til bráðabirgða til úrlausnar, áður en hún gengur frá till. sínum til Alþ., en í þessu ákvæði segir, að það skuli gera sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða af löngum lánum, sem verst eru settir, og skal þá miða við lánin eins og þau eru, þegar lög þessi taka gildi. Við fjárlagagerð fyrir árið 1973 skal samgrn. gera Alþ. sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu efni. Ráðh. skal gera till. til fjvn. og Alþ. um skiptingu fjárins, og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum, sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðs. Nú, ráðh. er farinn (Gripið fram í: Ráðh. fór í símann.) Á ég þá ekki að bíða. Þetta eru einar þrjár fsp., svo er ég búinn svo að segja. (Forseti: Jæja, ef ræðumaður óskar þess, þá getur hann dokað við stutta stund. Ráðh. mun hafa farið í símann, er væntanlegur.)

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort það sé álit hans og hvort hann ætli þegar að vinna að framkvæmd á ákvæði til bráðabirgða, sem er í frv., um að gera sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða af löngum lánum, sem verst eru settir, og þá á að miða við lánin eins og þau eru, þegar lög þessi taka gildi. Segir í frv., að við fjárlagagerð fyrir árið 1973 skuli samgrn. gera Alþ. sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu efni, og jafnframt, að ráðh. skuli gera till. til fjvn. og Alþ. um skiptingu fjárins og skuli við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélaga til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum, sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins. Nú er mér ljóst, að þetta frv. er ekki orðið að lögum. En ef lík vinnubrögð verða nú eins og hafa verið í fjölda mörg undanfarin ár, að fjárl. verða afgreidd fyrir jól, og jafnframt, að þetta frv., verði að lögum rétt um það bil, sem afgreiðsla fjárl. fer fram. þá auðvitað er hér um töluvert mikla vinnu að ræða, sem þarf að fara í þegar og senda fjvn. um það till. í tæka tíð. Því spyr ég: Ætlar ráðh. að vinna að þessum till. í samræmi við þetta ákvæði til bráðabirgða í frv. og þannig, að hann hugsí sér, að hafnirnar verði réttar við á þennan hátt þegar 1. jan. 1973?

Í öðru lagi er mér forvitni á að vita, hvort það sé skoðun ráðh. og þá ríkisstj., að fjvn. og þá auðvitað um leið Hafnamálastofnunin vinni að till. til fjárl. fyrir hafnarmannvirki og lendingarbætur á þann hátt, að hún leggi til grundvallar hlutfallsþátttöku ríkisins samkv, hinum nýju lögum. Ef það kemur vísbending frá rn. og ríkisstj. um, að fjvn. vinni þannig að þeim málum og Hafnamálastofnunin, þá verður auðvitað undir flestum kringumstæðum lögð til grundvallar 75% þátttaka ríkisins, en ekki 40% eða eitthvað þar á milli, eins og verið hefur. Þess vegna hlýtur það að vera mjög aðkallandi, að þessi svör liggi fyrir hið allra fyrsta.

Það er kannske erfitt fyrir þá, sem telja, að fjárl. fari upp úr öllu valdi, og telja, að heldur þurfi að lækka útgjöldin en hitt, — og tel ég mig vera í þeirra hópi, — en ég vil þó undanskilja alveg sérstaklega frá því framlög til hafnamála, þar eru framlögin allt of lág. Þrátt fyrir hækkun fjárl. eru í fjárlagafrv. aðeins ætlaðar 175 millj. kr. til hafnarmannvírkja og lendingarbóta, en í fjárl. yfirstandandi árs eru 161.8 millj. kr. á þessum Íið. Framlög í fjárlagafrv. til hafnabótasjóðs eru 22 millj. kr. eða sama upphæð og er í fjárl. yfirstandandi árs. Það má því segja, að í fjárlagafrv. er töluverð lækkun frá því, sem er í gildandi fjárl., þegar við miðum við það, hvað framkvæmdakostnaður hefur stóraukizt á þessu ári, og allt útlit er fyrir, að hann aukist enn, bæði vegna verðbreytinga hér heima, sömuleiðis hækkunar erlendis á ýmsu efni, svo að við sjáum, að það verður erfitt að koma fjárl. saman með þessari upphæð, hvað þá ef það verður tekið upp að vinna samkv. hinu nýja hafnallagafrv., sem ég lít svo á, að ráðh. leggi kapp á.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. geti gefið upplýsingar um þessar spurningar, ef ekki nú, þá einhvern tíma mjög bráðlega, því að á því veltur mikið og liggur mikið á í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Að síðustu endurtek ég það, að ég vænti þess, að þetta frv. fái enga mótspyrnu hér í þessari hv. d. Þó að einhverjar breytingar kunni að verða uppi, þá verður að afgreiða þær, en verði um stórfelld deilumál að ræða um einhver atriði, þá tel ég betra að láta þau liggja á milli hluta eða bíða betri tíma heldur en tefja fyrir afgreiðslu þessa mikilvæga frv.