16.11.1972
Efri deild: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

77. mál, lántaka Fiskveiðasjóðs Íslands o.fl.

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú gert grein fyrir þessari lántöku og fer fram á, að d. afgreiði málíð mjög fljótt, og er sjálfsagt að verða við þeirri beiðni. En vegna sérstakra atvika, sem eru tengd fiskveiðasjóði og lánsafgreiðslu hans, vildi ég nota tækifærið. Menn, sem hafa verið að taka lán hjá sjóðnum, hafa komið að máli við mig og kvartað yfir seinagangi á afgreiðslu þar. Það tekur jafnvel mánuði fyrir þá að fá skip sín metin og mál sín afgreidd, þannig að þeir eiga margir í mjög miklum erfiðleikum, jafnvel svo að sumir eru að kikna undir kaupum á nýjum skipum. Það er rétt vika síðan forstjóri einnar skipasmíðastöðvar kom til mín ásamt manni, er var að kaupa hjá honum togara, og kvartaði efnislega undan því sama, þannig að ég vildi koma þeirri beiðni til hæstv. ríkisstj. með milligöngu fjmrh., að þessi mál yrðu athuguð gaumgæfilega, þegar svona rösklega er á haldið fyrir vissan hóp manna.

Það er ekki tekið fram, hversu margir togarar hér eiga í hlut, en það munu vera japönsku togararnir, sem eru 9. Þeir fá þarna sérstaka fyrirgreiðslu, sérstök lög, og allt gengur með miklum hraða. Þá virðist sumum það óeðlilegt, að beiðnir þeirra fái ekki áheyrn, svo að mánuðum skiptir.

Nú kann að vera, að einhverjum finnist þessi aths. óeðlileg, á sama tíma sem það er vitað, að hinir margumræddu kommissarar hafa sent til fiskveiðasjóðs umkvörtunarbréf, þar sem fundið er að of mikilli útlánastarfsemi stjórnar fiskveiðasjóðs. Engu að síður vildi ég nota þetta tækifæri til að koma þessum umkvörtunum á framfæri og vænti þess, að þeir menn, sem telja sig fá seina afgreiðslu, fái leiðréttingu sinna mála.

Að öðru leyti skal ég ekki lengja umr. né tefja afgreiðslu málsins.