18.10.1972
Efri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

14. mál, fiskeldi í sjó

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það hefur raunar komið fram hjá báðum fyrri hv. ræðumönnum nokkuð af því, sem ég hafði í huga, þegar ég bað um orðið, og gæti ég þess vegna stytt mál mitt. En undir það vil ég taka, að hér er hreyft mikilvægu máli. En ég vil líka draga fram spurningarmerki um þessar ströngu leyfisveitingar.

Ef við lítum aðeins nánar á þetta mál, er vissulega um mismunandi framkvæmd á fiskeldi að ræða. Í dag er verið að gera athyglisverða tilraun uppi í Hvalfirði á mjög einfaldan hátt, sem ég dreg í efa, að þurfi stórkostlegra leyfisveitinga við, sérstaklega þegar höfð er í huga sú forna hefð, og ég veit ekki annað en það sé til í rétti enn í dag, að bóndi á helgað land að 60 föðmum eða 110 metrum frá fjöruborði, og víða hagar svo til, að sjór er sléttur á þessu svæði, og hann gæti með einfaldri fiskinót hafið þar fiskeldi einmitt vegna þeirrar reynslu, sem þessi tilraun í Hvalfirði gefur manni von um, að sé fram undan. Þar er verið að ala að vísu laxfisk í sjó. Við í fjvn. áttum þess kost í sumar að skoða þessa framkvæmd. Þess er getið í grg. frv., ef ég man rétt, að Fiskifélag Íslands fékk nokkurn styrk til að koma þessu í kring, og efnilegur og duglegur fiskifræðingur kynnti sér þessi mál erlendis og þessi tilraun stendur yfir mína. Enn geta menn verið mjög bjartsýnir, það hefur ekkert óhapp skeð, og fiskurinn dafnar þarna mjög vel. Þetta er í smáum stíl. þannig að hér er ekki um mikla mannvirkjagerð að ræða. Á hitt vil ég fallast, að þegar stofnað er til nýrra mannvirkjagerða og röskunar á landi, sé eðlilegt, að það sé bundið vissum skilyrðum eða leyfi. Það er mjög eðli legt. Hér aftur í þessu litla dæmi er ekki um neitt sérstakt að ræða annað en menn útbúa sér litla fiskinót af sérstakri gerð, sem er lokuð og lagt við stjóra. Hún er færaranleg og er tekin burt fyrirvaralaust og sett niður fyrirvarlaust, en þarf að vera auðvitað á ákveðnum tíma í kyrru vatni, og þar er fiskinum gefið. Hann er í þröngu búri, ef svo mætti segja, og hann er fóðraður. Um hreint eldi er þess vegna að ræða. í lokuðum firði væri honum sennilega hjálpað með e.t.v. fiskúrgangi, en að öðru leyti mætti hugsa sér það, að sjávarföll bæru inn eldi líka úr sjónum eða næringu úr sjónum, þannig að mér finnst nokkur skilsmunur þarna á.

En til hverra aðila eigi að leita, þá tel ég rétt að leita til þessara þriggja aðila vegna eðlis málsins og fyrri sögu í þessum efnum. En ég vil taka það fram og er því sammála, sem hv. 3. þm. Reykn. sagði, að hér þurfa að vera þó einhver skil á milli þessarar löggjafar og lax- og silungsveiðilöggjafarinnar, svo að hér verði ekki óþarfa ruglingur á, og væri nauðsynlegt að athuga það samband betur. Þegar ríkið setur svona mikil skilyrði fyrir þessari starfsemi, þá er ekki óeðlilegt, að einhvers staðar væri í frv. ákvæði um eflingu hennar. Ég sakna þess í frv., að það er ekki tekið fram, hvorki um styrki né lánsmöguleika, og veit ekki, hvort hæstv. sjútvrh. hefur hugleitt það að opna einhvern ákveðinn sjóð í þessu skyni. En væri það ekki til athugunar, að það lægi fyrir möguleiki fyrir menn að fá einhvers staðar stofnfé, ef í þessar framkvæmdir yrði ráðizt, að það yrði ekki eingöngu háð mjög ströngum leyfum, eins og að borgað yrði visst árgjald. Það yrði þá varla mikil hvöt til eflingar fiskeldi. En það er alveg öruggt, að við eigum mikla möguleika í fiskeldi hér á Íslandi, og mjög víða erlendis byggist stór fiskvinnsluiðnaður þegar á fiskeldi, og hef ég m.a. dvalið á einum stað á Spáni, þar sem fiskeldi er orðið stór atvinnugrein og heldur uppi niðursuðuverksmiðjum og þar vinna svo að skiptir þúsundum manna við niðurlagningu og niðursuðu á þessum fiski, sem er allur alinn. Það er að vísu skelfiskur á þessu stigi, en bolfiskur getur fylgt í kjölfarið. Þetta þarf allt að athugast nokkru nánar, og 7. gr. þarf örugglega nokkuð mikla yfirvegun, eins og bent var á hér áðan, svo að ekki verði til árekstra út af annarri löggjöf.

Ég vænti þess, að málið verði vel athugað í n., og við eigum örugglega stuðning frá rn. um að leysa þetta mál. svo að það verði raunverulega til eflingar fiskeldi sem allra fyrst hér á landi.