16.11.1972
Efri deild: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

77. mál, lántaka Fiskveiðasjóðs Íslands o.fl.

Fram. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. tók þetta mál fyrir á fundi sínum núna, en þar voru aðeins mættir 4 menn, 3 voru fjarverandi.

Frv. gerir ráð fyrir því að heimila ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir láni, sem fiskveiðasjóður hyggst taka. Eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., hefur fiskveiðasjóður þessa lánsheimild fyrir hendi, en nú er gert ráð fyrir, að þetta verði í nokkuð öðru formi en verið hefur, og þarf sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs til. Máli þessu hefur þurft að flýta, m.a. vegna þess, að á næstunni stendur fyrir dyrum afhending þriggja þeirra nýju japönsku togara, skuttogara, sem samið hefur verið um smíði á. Reglan hefur verið sú, að seljendur skipanna hafa útvegað 80% af láninu, en þetta lán fiskveiðasjóðs verður notað í stað þess láns, sem seljendur skipa hafa allajafna þurft að útvega, þegar um slík kaup hefur verið að ræða.

Fjh.- og viðskn. leggur einróma til, að frv. verði samþykkt óbreytt.