18.10.1972
Efri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

14. mál, fiskeldi í sjó

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég varð þess var á síðasta þingi, að fram komu ýmsar aths. í sambandi við þetta frv. og ýmsar spurningar voru á lofti um það, hvernig ætti að framkvæma þetta eða hitt, sem minnzt var á í frv. En ég hélt, að þegar um mál eins og þetta er að ræða, þar sem menn viðurkenna, að hér er um nauðsynjamál að ræða, og þeir hafa — það fyrir augunum, að svo til ekkert hefur gerzt — í þessum málum þrátt fyrir allt það frelsi, sem menn hafa haft, þá legðu þeir í að glíma við það sjálfir að betrumbæta það, sem upp á er stungið í n., þegar það lægi líka fyrir frá viðkomandi rn., að þeim er ekkert heilagt í þessum efnum, heldur fyrst og fremst það, að hér vantar viss lagaákvæði, svo að hægt sé að hreyfa sig í málinu. Það getur ekki farið fram hjá þm., að þeir hafi orðið varir við þetta. Þann tíma, sem ég hef setið í sjútvrn., hafa komið til mín m.a. nokkrir bændur, sem kvarta undan því, að þeir geti ekki gert ráðstafanir, vegna þess að þá vanti nauðsynleg lagafyrirmæli og vissa lagavernd.

Það gefur auðvitað auga leið, að þegar um það er að ræða, eins og samþykktir hafa verið gerðar um hér á Alþ., að til stendur að loka heilum lónum, þar sem margir bændur eiga land að, þá er ekki gaman að hefjast þar banda um jafnvel dýrar framkvæmdir og dýrar ráðstafanir án þess að eiga þar ákveðna stoð í lögum. En ég vil minna á það, að á Alþ. hafa verið gerðar samþykktir um að rannsaka sérstaklega fiskirækt á Húnaflóa innanverðum, um fiskirækt í Nípslóni í nánd við Vopnafjörð, á Hvammsfirði innanverðum og á fjörðum á Vestfjörðum. Þetta eru samþykktir, sem hér liggja fyrir. Að ætla að setja það fyrir sig, að menn finni það út, að orðalag í þessu frv., sem er nýsmíði, geti bannað mönnum að dæla sjó upp í tjörn og nota það vatn, það er furðuleg hártogun, og ég er alveg hissa á að heyra það frá nokkrum þm. að viðhafa slíkt. Ef menn eru svo óskaplega hræddir við það orðalag, sem í frv. er, þá er vitanlega ekki annað en betrumbæta þetta og taka fram, að menn megi m.a. dæla sjó upp í tjarnir, ef þeir þurfa á því að halda.

En ég er sannfærður um, að það muni ekki gerast mikið í þessum málum hér hjá okkur af hálfu áhugamanna, reynslan hefur sýnt það, nema það verði til ákveðin lagafyrirmæli um viss meginatriði í málinu. Ef rétt þætti að áskilja landeigendum sérrétt áfram þrátt fyrir hin almennu ákvæði laganna, þar sem bændur vildu ekki afsala sér þeim rétti, þá er ekkert við því að segja, þá er vitanlega bægt að taka slíkt fram í l., að þeir skuli halda þessum rétti áfram. Mér er það þó ljóst, að í mörgum tilvikum mundi það verða til þess að koma í veg fyrir sameiginlegar aðgerðir í þessum efnum.

Ég skal játa, að ég hef haft afskaplega lítið af undirbúningi þessa frv. að segja. Þetta hefur verið unnið í mínu rn., þar sem menn hafa rekið sig á þetta árum saman, að hér vantar tiltekin lagaákvæði, og þeir hafa fengið sér sérfræðinga, sem unnið hafa að því að semja þetta frv. Ég taldi mér svo m.a. skylt að leggja fram frv., bæði vegna heiðna, sem komu fram frá starfsmönnum, og eins vegna hins, að til mín höfðu leitað fleiri en einn aðili, sem töldu sig ekki geta ráðizt í nauðsynlegar framkvæmdir í þessum efnum, nema til kæmu ákveðin lagafyrirmæli. Það var m.a. vitnað í það, að e.t.v. gæti sjútvrh. notað lagafyrirmæli frá 1600 og eitthvað og gefið út fyrirskipanir í þessum efnum, og það var lagt mjög að mér að gera það. En ég fékkst ekki til þess og tel, að mál eins og þetta verði þá heldur að liggja á hliðinni, eins og það hefur legið, ef Alþ. fæst ekki til þess að setja lög um málið.

Varðandi eignarnámsheimildir eins og þá, sem um er að ræða í 7. gr., þá er auðvitað sjálfsagt að athuga það. En það vita menn, að við erum með eignarnámsheimildir í fjölmörgum lögum, og getur vitanlega komið til þess, að vegna nauðsynjar þurfi að víkja til eignarréttaraðstöðu einstaklings vegna hagsmuna heildarinnar, og því er talið, að það sé nauðsynlegt að hafa heimildarákvæði líkt þessu í lögum. En ég tek það sem sagt fram af minni hálfu, að ég tel, að eins og þessi mál eru, sé lítið betra en ekkert og það sé betra að fá viss undirstöðuatriði ákveðin í þessum lögum heldur en ekkert, því að ég er sannfærður um það, að eins og málin standa, þá getur ekkert gerzt í þessum málum.

Þá hefur hér verið minnzt á, að það væri nokkur bætta á því, að hér yrði árekstur við ákvæði í lax- og silungsveiðilöggjöf eða í sambandi við vatnafiska og fiskeldi í sjó. Þetta er auðvitað afskaplega auðvelt atriði að taka af allan vafa um, en ég tel, að það komi mjög skýrt og greinilega fram í frv. Þar segir í grg. með frv.: „Frv. nær aðeins til fiskeldis í sjó og eldis sjávarfiska í sjóblönduðu vatni. Hins vegar tekur það ekki til fiskeldis samkv. l. nr. 76 1970, um lax- og silungsveiði, sbr. orðskýringar í 1. gr. þeirra laga“. En ástæðan til þess, að það hefur þótt rétt að skilja þarna á milli, er sú, að það hefur komið fram hjá fiskifræðingum, að það megi ekki hrófla í verulegum atriðum við lífsskilyrðum inni á fjörðum og í lónum, án þess að hafa þar fiskifræðilegar athuganir til hliðsjónar, því að það geti haft allt of alvarleg áhrif í sambandi við uppeldi annarra fiska, sem við byggjum mikið okkar afkomu á, að grípa þar inn í, án þess að það fari fram sérstök athugun á því. Og það hefur verið svo í okkar löggjöf, að það hafa verið aðrir aðilar, sem hafa haft með fiskveiðar í sjó að gera og þær rannsóknir, og enn aðrir, sem hafa haft með hin málin að gera, sem lúta að fiskirækt í ám og vötnum. Þetta hefur blessazt, og ég held, að það sé ósköp eðlilegt, að þarna sé reynt að draga einhverja skýra línu á milli, en sé ekki ástæða til þess að gera of mikið úr þessum vanda.

En mér finnst ekkert óeðlilegt, að það komi fram ýmsar aths. við þetta frv. Hér er um nýsmíði að ræða, og án efa er hægt að bæta margt það, sem í frv. er. Ástæðan til þess, að ég hef kosið þá leið að leggja frv. hér fram aftur óbreytt frá því á síðasta þingi, er sú, að þeir, sem sömdu frv. og standa að gerð þess, hafa farið yfir þær aths., sem borizt hafa, og þeir telja sig hafa þegar svarað þeim þannig, að þeir vilja ekki fyrir sitt leyti leggja til breytingar, og því þótti mér rétt, að þingið fjallaði á nýjan leik um málið.

Ég vil svo vænta þess, þar sem fram hefur komið hjá öllum þeim, sem hér hafa rætt um málið, að þeir telja, að hér sé um mikilvægt mál að ræða, að þeir taki á málinu eins og þeir hafa getu til í þeirri n., sem á að fjalla um málið, og lagfæri það þá á þann hátt, sem þeir telja bezt, því að ég held, að það sé enginn vafi á því, að okkur skortir viss lagaákvæði í þessum efnum, hvernig svo sem þau eiga að vera eftir fullnaðarathugun.