18.10.1972
Efri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

14. mál, fiskeldi í sjó

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi átt við mín orð, þegar hann lýsti undrun sinni og furðu á því, að 1. gr. væri skilin svo, að ekki mætti dæla sjó upp í tjarnir til fiskeldis. Ég held, að þetta sé ekki eins fjarlægt og skilja mátti af orðum hæstv. ráðh. Þetta er, að því er ég bezt veit, ein algengasta leiðin til eldis laxfiska í sjó. T.d. er bæði í Noregi og Svíþjóð víða tíðkað einmitt að dæla sjó upp í steyptar tjarnir og raunar líklega ekki stór munur á því og að afmarka eitthvert sjávarsvæði til slíks eldis. Ég vildi aðeins, að það kæmi fram hér, að þetta er enginn sparðatíningur, heldur mjög stór þáttur fiskeldis í sjó. Annars vil ég lýsa ánægju minni með þau orð hæstv. ráðh., að hann er mjög opinn fyrir hvers konar lagfæringum og hvers konar breytingum á þessu frv., og ég þykist viss um, að með þeim skilningi og því veganesti muni þeirri n., sem fær frv. til athugunar, takast að bæta það svo, að allir geti verið ánægðir.