16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

45. mál, lagasafn í lausblaðabroti

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég get því miður ekki svarað þessari spurningu, en ég hafði haldið, að þeim, sem eru send Stjórnartíðindi ókeypis, væri einnig sent lagasafn. Um það þori ég ekki að fullyrða, en skal kynna mér það. Og mér finnst, að það væri eðlilegt, að þetta færi saman, að ef tilteknum embættismönnum eru send Stjórnartíðindi ókeypis gilti hið sama um lagasafnið.

Út af því, sem fram kom hjá hv. flm., vil ég segja það, ef það hefur ekki komið nægilega skýrt fram í fyrri ræðu minni, að ég tel, að prentun lagasafnsins sé að sjálfsögðu svo langt komin nú og frágangi öllum, að það yrði ekki hægt að koma við þeirri breytingu, sem hann ráðgerir um það. Prentun lagasafns er svo mikið verk, að það tekur langan tíma, og það er langt komið nú, þó að því verði sennilega ekki alveg lokið fyrr en í febrúarlok.