16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

50. mál, samstarf Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga að fiskveiðum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við þessa till. og þær hugmyndir, sem eru þar á bak við. Þær eru áreiðanlega mikilsverðar, og væri rétt að hugleiða þær mjög alvarlega. En frsm. ræddi nokkuð um fiskveiðarnar, og get ég því verið nokkuð stuttorður varðandi þann þátt. En ég vil mótmæla því, sem hann sagði um stjórn Brattelis varðandi afstöðuna í landhelgismálinu. Það mætti þá segja, að allur heimurinn væri að mestu leyti á móti okkur, ef við túlkum afstöðu Norðmanna þannig, að þeir séu á móti okkur í landhelgismálinu. Þeir lýstu yfir ákveðinni afstöðu, en hafa ekki sýnt neitt í verki, og mætti þá fara að flokka æðimarga, sem berðust á móti okkur, ef við hefðum sömu skýrgreiningu á þeirra afstöðu. Og ekki fleiri orð um það.

En það, sem ég ætla aðeins að fjalla um hér, af því að það var lítið um það í framsöguræðunni, er samstarfið í fisksölumálum. Það kom mjög greinilega í ljós í framsöguræðunni, að hún bar keim þess, að Norðmenn væru okkur alltaf mjög elskulegir. En það hefur ekki verið svo í fisksölumálum. Þó ber að geta þess, að í freðfiskmálunum tókst fyrir alllöngu það samstarf, að við ræðum við Norðmenn reglulega tvisvar á ári og einnig Kanadamenn varðandi bandaríska markaðinn. Þetta samstarf hefur leitt til þess, að við höfum getað haldið jafnara framboði og verði á afurðum okkar í freðfiski en ella. Þetta er mjög mikilvægt. En hér er ekki um frjálsa samkeppni að ræða, heldur hreina hringmyndun, sem væri af hinu illa, ef við litum á það frá öðru sjónarmiði. Það er önnur saga, sem ég ætla ekki út í hér. Það hefði þá leitt til margvíslegra umr. um slík samtök stórra auðhringa á markaðinum. En við njótum góðs af þeirri starfsemi í dag, sem allir eru ánægðir með.

Á hinn bóginn verðum við að minnast þess, að Norðmenn selja mikið af saltfiski, þeir hafa selt mikið af skreið, og þeir hafa ekkert verið sparir á að bjóða verð, sem við höfum engan veginn getað keppt við, og haft það hátt eða lágt eftir því, hvað þeim hefur hentað. Og það sama hefur gilt um síld. Þetta hafa þeir getað gert í mörg undanfarin ár vegna þess, að þeim er veittur styrkur, sem nemur milljörðum ár eftir ár, í einu eða öðru formi. Ef ég man rétt, fá þeir árið 1911 253 millj. noskra kr., sem er dreift út í útveginn, fiskvinnsluna og alla starfsemina kringum sjávarútveginn eftir flóknum reglum. Ég ætla mér ekki þá dul að segja, hvað þeir fá varðandi fisksölumálin, en þetta kerfi veldur því, að þeir hafa tök á því að selja við verði, sem við getum engan veginn keppt við. Þess vegna er þessi till. svo mikilvæg og að samstaða náist um það, að slíkt eigi sér ekki lengur stað, og það er kjarni málsins. Till. er þess vegna miklu mikilvægari en við gerum okkur grein fyrir við fyrstu yfirsýn. Hitt er svo annað mál, hvort þeir eru tilbúnir til slíks samstarfs. Ég dreg það persónulega í efa. Þó gerðist það núna í sumar, að saltfisksframleiðendur óskuðu eftir viðræðum við okkur á svipuðum grundvelli og með það í huga að reyna að ná fram samstarfi hliðstæðu því, sem væri um freðfiskinn. Viðræðurnar hafa átt sér stað, en um árangur skal ég ekki segja á þessu stigi.

Þegar við vorum að reyna að komast aftur inn á Nígeríumarkaðinn, mættum við þeirri afstöðu Norðmanna, að þeir gáfu mörg hundruð tonn af skreið til þess að fá betri stöðu en við. Auðvitað gátum við það ekki. Við höfðum engin tök á því, vegna þess að hér er sjávarútvegurinn undirstöðuatvinnugrein, en í Noregi skiptir hann tiltölulega litlu máli í þjóðarbúskapnum, sem heild, en miklu máli á vissum svæðum. Það er þess vegna, sem norska ríkisstj. veitir óhemju fjármagn á viss svæði til að halda fólkinu þar og halda starfseminni gangandi.

Nú skal ég ekkert segja um það, hvort þessi till. fær hér byr, en ég styð hana mjög eindregið. Ég styð það mjög, að við náum samstöðu með Norðmönnum og sérstaklega auðvitað Færeyingum. Ég vil undirstrika orð ræðumanns um jákvæða og góða afstöðu Færeyinga, sem eiga allt hið bezta skilið af okkar hálfu, sjálfsagt að gera fyrir þá allt, sem hugsanlegt er, til þess að hjálpa þeim í lífsbaráttu þeirra og leyfa þeim þær fiskveiðar, sem við treystum okkur til innan okkar fiskveiðilögsögu.

En vandamálið varðandi Noreg hefur alltaf verið miklu verra, og það er alveg ástæðulaust að dylja alþm. þess. Við Íslendingar höfum verið feimnir við að segja það hispurslaust og gagnrýna það í blöðum. Það kom m.a. fram hér fyrir 4 árum, þegar við hófum landanir á síld í Noregi, að það ætlaði allt vitlaust að verða þar. Það voru svívirðileg blaðaskrif, sérstaklega í Fiskaren og víðar, um skepnuskap Íslendinga og ódrengileg vinnubrögð. Danir tóku allt öðruvísi á þessu og vildu samstarf. Þetta mátti ekki gagnrýna á Íslandi. En það var mjög hvöss og leiðinleg gagnrýni í Noregi á þessu tímabili. Nú hefur lægt aftur, og vonandi hafa menn séð, að þetta var órökstutt. Vonandi er andrúmsloftið í Noregi miklu jákvæðara í dag en það var fyrir 3–4 árum. E.t.v. eru sárafáir einstaklingar, sem hér eiga hlut að máli í Noregi, en þeir hafa beitt mjög harðri gagnrýni á íslendinga og óvæginni. Ég fagna því þessari till. og styð hana eindregið og vænti þess, að hún hafi það í för með sér fyrr eða síðar, að heiðarlegt og eðlilegt samstarf náist með frændþjóðunum og við getum boðið okkar fisk á jöfnum grundvelli til sem mests árangurs fyrir báða aðila, eða raunverulega alla aðila, því að við höfum hér Færeyjar með.