16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

65. mál, vegagerð yfir Sprengisand

Flm. (Benóný Arnórsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að endurflytja hér till. til þál. um vegagerð yfir Sprengisand á þskj. 69, þar sem Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á hagkvæmni vegagerðar yfir Sprengisand.

Ég þarf ekki að vera langorður um þessa till., þar sem ég flutti hana á síðasta þingi, en hún náði þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Ég geri nú aðra tilraun, vegna þess að skoðun mín er sú, að hraða beri athugun á hagkvæmustu leiðum milli landshluta, ekki sízt milli dreifbýlis og þéttbýlis, og fleiri virðast raunar vera á sömu skoðun. Benda má á samþykktir Búnaðarþings og bæjarstjórnar Húsavíkur um Sprengisandsveg. Þá telur og þjóðhátíðarnefnd, að meiri hluti þess fólks, sem sækir þjóðhátíðina 1974 úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, muni koma Sprengisandsleið. Um það skal ég engu spá, en það sýnir aðeins, hvað í hugum manna býr um þessa gamalkunnu ferðamannaleið.

Ýmsum finnst kannske, að nóg verkefni séu framundan í vegamálum, þótt Sprengisandur sé látinn bíða. En því er til að svara, að hér er aðeins farið fram á að athuga um hagkvæmni vegagerðar.

Vegagerð um Sprengisand yrði mjög mikil samgöngubót stórra byggðarlaga norðaustan- og austanlands. Engum blandast hugur um, að samgöngumálin geta ráðið úrslitum um það, hvernig til tekst um byggðaþróunina. Ég held, að við höfum dæmið fyrir okkur, þar sem annars vegar er Egilsstaðakauptún og hins vegar byggðin niðri á fjörðunum austanlands, sem staðið hefur í stað á sama tíma og Egilsstaðabyggðin hefur blásið út. Skoðun mín er sú, að þarna ráði mestu hinar góðu og greiðu flugsamgöngur við Egilsstaði, því að afkomumöguleikar ættu ekki að vera síðri niðri á fjörðum, þar sem sjórinn og þeir möguleikar, sem hann býður, eru annars vegar.

Engan þarf að undra, þótt dreifbýlismenn ýti á um úrbætur í samgöngumálum, svo mjög sem á þeim brennur, ekki sízt ef svo fer fram sem horfir, að þeir eiga að fara að borga skatt vegna hinna steinlögðu stétta þéttbýlisins í formi hækkaðs benzínverðs. Þeir mundu þá ekki aðeins borga til jafns við þá, sem aka þessa steinlögðu vegi, heldur meira, þar sem þeir eyða jafnan meira benzíni á hvern ekinn km. vegna hinna vondu vega.

Þungavöruflutningar á landi hafa aukizt mjög á undanförnum árum og allar líkur til. að svo verði áfram. Því rennir það stoðum undir, að athugaðar verði hagkvæmustu leiðir í þungavöruflutningum. Ferðamannaþjónusta er að verða stór þáttur í atvinnulífi okkar, og hún krefst athugunar og skipulagningar á vegum öræfanna, ef ekki á að fara illa, því að mér skilst, að víða sé ljótt um að litast, þar sem bílaslóðir liggja „þvers og kruss“ til stórra skemmda og lýta.

Ég vil að lokum geta þess. að Norðurleið h/f hóf áætlunarferðir um Sprengísand á s.l. sumri og ætlar sér að halda því áfram. Ég álít, að það sé aðeins upphaf að því, sem koma skal. og ég vona, að hv. alþm. ljái þessari till. jákvæða afstöðu.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað og till vísað til hv. fjvn.