20.11.1972
Neðri deild: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

79. mál, hafnalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það bar til hér á hv. Alþ. á s. I. vetri, að a.m.k. einn hv. þm. taldi ástæðu til þess héðan úr ræðustól að vekja athygli þingheims á því, hversu þm. almennt gegndu lítt þeirri þingskyldu sinni að sitja hér undir umr. á hv. Alþ. Mér kom þessi aths. í hug, þegar ég s.l. miðvikudag sat undir umr. um þetta mál. að því er ég kalla stórmál. og undir þessum umr. sátu þá 3–5 þm. og í þeim hópi var a.m.k. ekki sá hv. þm., sem með þessa aths. var á s.l. þingi.

Ég segi stórmál, þegar ég tala um þetta mál. Ég er ekki viss um, að allir hv. þm. hafi gert sér grein fyrir því, hversu geysilega stórt og þýðingarmikið þetta mál er og mun verða eftir þeirri afgreiðslu, sem það fer, fyrir hina ýmsu hafna- og sveitarsjóði víðs vegar í kringum landið. Ég held, að hvorki hæstv. ráðh., sem fylgdi þessu máli úr hlaði s.l. miðvikudag, né hv. 2. þm. Vestf., sem þá talaði einnig, hafi á neinn hátt tekið of stórt upp í sig, þegar þeir gerðu grein fyrir þeim geysilegu fjárhagsvandræðum, sem hafnarsjóðir og sveitarfélög og þá sérstaklega hin smærri sveitarfélög og staðir eins og sjávarþorp eiga við að etja varðandi þá bagga, sem hafnarframkvæmdir hafa bundið þessum sveitarfélögum á s.l. árum.

Það má raunar segja, að það megi skipta efnisatriðum þessa frv. í tvennt: annars vegar þann þátt, sem gerir ráð fyrir aukinni þátttöku ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum, eftir að lög þessi öðlast gildi, og hins vegar varðandi það bráðabirgðaákvæði, sem í frv. er og gerir ráð fyrir, að gerðar skuli sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða af löngum lánum, sem verst eru settir. Hvort tveggja þessara efnisatriða er mikilvægt, og þó að fyrra atriðið, sem ég nefndi, sé í mínum augum mikilvægt, vil ég alveg sérstaklega undirstrika það, að hið síðara er ekki síður mikilvægt fyrir þá staði, sem á undanförnum árum hafa lagt geysilegar fjárhæðir í byggingu hafnarmannvirkja og fá ekki, — ég segi alls ekki, — undir þeim risið.

Ég sagði áðan, að ég væri ekki viss um, að allir hv. þm. hefðu gert sér grein fyrir, hversu geysilegt vandamál hefur verið og er hér á ferðinni. Ég hygg þó, að þeir geti fengið nokkra innsýn í það mál. þegar þeir lesa fskj. með þessu frv. og þegar þeir lesa á bls. 17 töflu 3, sem sýnir afborganir og vexti af föstum lánum á hvern íbúa á tilteknum stöðum, sem þar eru nefndir. Ég vil þó í því sambandi, að því er þá töflu varðar undirstrika það, að þar er um að ræða tveggja ára gamlar tölur, sem hafa geysilega mikið breytzt til hækkunar frá þeim tíma, sem taflan er gerð. Sem dæmi vil ég nefna t.d. stað eins og Bolungarvík. Þar er gert ráð fyrir, að það séu tæpar 4000 kr. á íbúa árið 1970, en að því er ég bezt veit, nú á þessu ári um 7000 kr. á íbúa. Ég hef í höndum tölur varðandi þessi atriði, um greiðsluhlutfall nokkurra hafnar- eða sveitarsjóða á Vestfjörðum, nýjustu tölur frá þessu ári, sem ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta að fara hér um nokkrum orðum.

Þarna er annars vegar um að ræða brúttótekjur viðkomandi sveitarfélags og greiðsluhlutfall, sem viðkomandi sveitarfélag þarf að standa skil á vegna skuldbindinga að því er viðkomandi höfn varðar. Ég nefni í fyrsta lagi stað eins og Patreksfjörð. Þar var greiðsluhlutfall af heildartekjum sveitarsjóðs á árinu 1971 41% vegna þeirra skuldbindinga, sem viðkomandi höfn lagði sveitarfélaginu á herðar. Ég nefni Bíldudal, þar sem 52% af heildartekjum sveitarfélagsins þurfti til þess að standa skil á þeim klyfjum, sem hafnarframkvæmdir höfðu lagt þeim bæ á herðar. Ég nefni Þingeyri, sem þurfti 69% af heildartekjum sveitarsjóðs á árinu 1971 til þess að standa straum af þeim álögum, sem hvíldu á hafnarsjóði eða sveitarfélaginu vegna hafnarframkvæmdanna. Ég nefni stað eins og Suðureyri, sem þurfti 69% af heildartekjum sveitarsjóðsins til þess að standa skil á öllum skuldbindingum varðandi höfnina. Ég nefni stað eins og Bolungarvík, sem þurfti 99% af heildartekjum sveitarsjóðs á árinu 1971 til þess að standa við skuldbindingar sínar að því er höfnina varðaði. Og ég nefni í síðasta lagi Súðavík, sem þurfti 170% miðað við heildartekjur sveitarsjóðs á árinu til þess að geta staðið í skilum með skuldir og lán, sem hvíla á því byggðarlagi vegna hafnarframkvæmda.

Ég hygg, að þessar tölur gefi hv. þm. glögga mynd af þeim geysilegu vandkvæðum og vandræðum, sem hinir ýmsu sveitar- og hafnarsjóðir víðs vegar í kringum landið eru í vegna þessara dýru hafnarframkvæmda. Og að mínu mati skiptir miklu máli, hvernig verður farið með það bráðabirgðaákvæði, sem í frv. er, til þess að létta greiðslubyrði einmitt þessara sveitarog hafnarsjóða, sem búnir eru að leggja í framkvæmdir á undanförnum árum og standa með þessar drápsklyfjar, sem ég vil kalla, vegna hafnarframkvæmdanna. Það er augljóst mál, að í sveitarfélögum, þar sem svona er í pottinn búið, sitja allar aðrar félagslegar framkvæmdir gersamlega á hakanum og hafa gert. Það er ekki einungis, að það sé ekki hægt að standa í skilum með áhvílandi lán og skuldbindingar vegna þessara dýru hafnarmannvirkja, heldur hitt til viðbótar, að það liggja gersamlega dauðar allar aðrar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins vegna þessara þungu bagga. Ég held því, að sú mynd, sem upp hefur verið dregin varðandi þetta atriði, sé sízt of dökk.

Það er brýn þörf á því, að það verði að verulegu leyti létt undir með þessum sveitarfélögum, eftir að þetta frv. hefur náð fram að ganga, sem ég vona og legg áherzlu á, að verði fyrir þinglok, — þannig að þeir baggar, sem á þessi sveitarfélög verða settir eftir afgreiðslu frv., verði ekki þyngri en svo, að þau fái vel undir þeim risið.