21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

279. mál, laxarækt í Laxá

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nota þessar tvær mínútur, sem ég hef til umráða til þess að vekja athygli á því, að tæpast er hægt að líta á fsp. hv. þm. Braga Sigurjónssonar til menntmrh. varðandi laxaeldi í efri hluta Laxár án þess að huga lítillega að fsp., sem hann hugðist bera fram við hæstv. iðnrh., sem nú er fjarverandi, þar sem ýjað er að því, hvort ekki muni vera hægt að koma því til leiðar, að svonefnd Laxá III verði fullvirkjuð. Skyndilegur áhugi hans á vistfræði og líffræði í ofanverðri Laxá stendur í greinilegu sambandi við fyrirhugaða Gljúfurversvirkjun og Suðurárveitu, sem svo var nefnd, hönnuð af Sigurði Thoroddsen verkfræðingi, sem átti sæti í fyrrv. náttúruverndarráði og bar fram fyrrgreinda till. 9. des. í fyrra í náttúruv.ráði, — sem að vísu var aldrei borin undir atkv. í ráðinu, — um það, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir laxaeldi í Laxá ofan Brúa. Sannleikurinn er sá, að þegar laxinn er kominn upp fyrir Brúar, kemur engum manni til hugar meir að nota Laxá til raforkuframleiðslu. Það er satt, að seiði hafa þegar verið sett í Laxá ofan Brúa. Þar voru sett 100 þús. seiði í sumar sem leið, ekki nokkrir tugir þús. seiða. Aukin laxagengd í ána neðan Brúa á s.l. sumri stafaði af laxaeldinu í ofanverðri ánni. Bráðabirgðaathuganir, sem gerðar hafa verið á uppeldisskilyrðum þar, benda til þess, að Laxá ofan Brúa geti alið upp undir millj. sjógönguseiða árlega, sem mundi samsvara 100 þús. löxum í gengd til baka, og áin yrði þá margfalt meira virði ofan Brúa heldur en neðan.