18.10.1972
Neðri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Við flytjum hér nokkrir sjálfstæðismenn frv. til l. um breyt. á l. um Landhelgisgæzlu Íslands frá 1967, og það er að verulegu leyti shlj. frv., sem við fluttum á síðasta þingi, en þó eru frá því nokkrar breytingar, sem ég skal gera grein fyrir.

Á síðasta þingi fluttu sömu þm. frv. til l. um breyt. á 1. um Landhelgisgæzlu Íslands, og því frv. var útbýtt, ef ég man rétt, 4, marz í þinginu, fór til n., en náði ekki afgreiðslu. Nú er þetta frv. flutt að nýju í breyttri mynd. Það var tilgangur fyrra frv., að árlegt framlag til landhelgissjóðs skyldi vera 50 millj. kr., en í þessu frv. er gert ráð fyrir því í 1. gr., að árlegt framlag til landhelgissjóðs frá ríkissjóði verði 75 millj. kr. Þá er jafnframt það nýmæli í 2. gr. frá fyrra frv., að það er heimilt að verja árlega allt að 25 millj. kr. af fé landhelgissjóðs til byggingar fyrir Landhelgisgæzluna á lóð hennar við Selsvör í Reykjavík og til þess að búa henni að öðru leyti framtíðarstöðu í landi. Það er augljóst mál, að það er lítið framlag til landhelgissjóðs úr ríkissjóði, 50 millj. kr., fyrir utan fé til að bæta aðstöðuna í landi, en þá heimild þarf sérstaklega að hafa vegna þess að verkefni Landhelgissjóðs er fyrst og fremst að kaupa tæki fyrir Landhelgisgæzluna, varðskip, flugvélar og önnur þau tæki, sem Landhelgisgæzlan þarf að hafa við sína starfsemi. Þetta er ekki nema örlítill hluti af útgjöldum fjárl., var ekki í fyrra nema lítill hluti þeirra og er enn þá minni hluti nú. Og það hefur oft verið sagt og m.a. nú, ég held, að ég muni það rétt, að það hafi einhvers staðar verið í ræðu hæstv. forsrh., stefnuræðunni, sem við ræddum í gær, að hann gerði ekki ráð fyrir því, að menn sæju eftir framlögum til Landhelgisgæzlunnar. Ég hef ekki séð það, — og ef það er rangt hjá mér, þá bið ég velvirðingar á því, — ég hef ekki séð það, að í fjárlagafrv. sé áætlað neitt sérstakt framlag til byggingar Landhelgisgæzlunnar í landi og til þess að búa henni þar aðstöðu né heldur til eflingar Landhelgissjóðs. Þetta þykir mér mjög miður, og þó að svo til tækist á s.l. þingi, að frv. okkar um eflingu Landhelgissjóðs næði ekki afgreiðslu, þá gerði ég satt að segja ráð fyrir því, taldi það alveg víst, að hæstv. ríkisstj. mundi í fjárlagafrv. nú setja undir þennan leka og ætla Landhelgissjóði fast og ákveðið framlag. Að sjálfsögðu eru allir sammála um það, hversu mikið okkur ríður nú á að efla Landhelgisgæzluna, en það er ekki aðeins í augnablikinu, sem við þurfum að efla hana, heldur þarf að gera langtímaáætlun um eflingu Landhelgisgæzlunnar og starfsemi hennar, og það er auðvitað mjög erfitt um vik að gera langtímaáætlanir í slíkum efnum, nema reikna megi með nokkurn veginn vissum, árlegum tekjum. En tekjur Landhelgissjóðs hafa verið þannig mörg undanfarin ár, að þær hafa byggzt upp af nokkrum atriðum, sektum og upptöku fyrir landhelgisbrot, björgunarlaunum, vöxtum og svo framlagi ríkissjóðs, sem ákveðið hefur verið í fjárl. hverju sinni, en upphæð þess framlags hefur jafnan farið eftir því, hve þörfin var mikil, og verið þeim mun hærri, þegar hefur þurft að rísa undir afborgunum af skipakaupum eða öðrum dýrum tækjum, sem Landhelgisgæzlan þarf á að halda. Þetta fyrirkomulag þýðir það, að afkoma Landhelgissjóðsins er í mikilli óvissu. Þegar lög um Landhelgissjóð voru sett 1913 og aðstaða var allt önnur í þjóðfélaginu og efni lítil, var landssjóði frá upphafi gert að greiða árlegt framlag til Landhelgissjóðsins, sem síðan var afnumið og breyttist í það form um tekjuöflun til sjóðsins, sem undanfarið hefur verið og ég áðan gerði grein fyrir.

Það er að vísu svo, að nú fer fram landssöfnun, sem skyndilega var hleypt af stokkunum eftir 1. sept. fyrir Landhelgissjóð, og það er ekki nema gott um hana að segja, þó að ég hins vegar geti ekki varizt því að gagnrýna hér þá aðferð, að Alþingi Íslendinga vanræki að sjá Landhelgissjóði fyrir nægjanlegum tekjum og með þeim hætti, að það þurfi á 11. stundu að grípa til úrræðis eins og almennrar söfnunar til Landhelgissjóðsins. Vitaskuld á eðli málsins samkv. að styrkja þennan sjóð, sjá honum úr ríkissjóði fyrir nægjanlegu fé á hverjum tíma. Sá galli er á landssöfnun, hvað annað sem gott má um hana segja, að hún kemur mjög misjafnt niður á borgurunum, en því, sem er tekið úr ríkissjóði til slíks sjóðs, sem alla borgarana og almenna velferð landsins og þjóðarinnar og einstaklinganna áhrærir, því er jafnað á menn eftir tekjuöflun ríkissjóðs, að verulegu leyti eftir efnum og ástæðum, miðað við a.m.k. tekjuaflanir eins og tekjuskattinn, eignarskattinn o.fl., sem ríkissjóður fær tekjur frá og lúta þessu lögmáli. Það er auðvitað til vansa og ég vil segja til skammar fyrir hæstv. Alþ. að hafa ekki séð fyrir nægjanlegum tekjum í þessu skyni handa svo þýðingarmiklum sjóði, eins og nú standa sakir — Landhelgissjóði Íslands. Við skulum vona, að landssöfnun engu að síður beri þann árangur, sem til er ætlazt, en enda þótt svo verði, þá eru verkefni Landhelgissjóðs svo mikil einmitt nú, að það breytir ekki hinu, að sjóðnum er nauðsynlegt að hafa vissar og árlegar tekjur og ekki síður vegna áætlanagerðar til langs tíma, sem mjög nauðsynleg er og ég get búizt við, að unnið sé að nú fyrir Landhelgisgæzluna. Við fluttum tveir þm. Sjálfstfl. þáltill. einnig á síðasta þingi um kaup á varðskipi fyrir Landhelgisgæzluna og að hafizt yrði handa um langtímaáætlun um eflingu Landhelgisgæzlunnar. Enda þótt sú þáltill. næði heldur ekki afgreiðslu, þá geri ég alveg fastlega ráð fyrir því, eins og sakir standa, að unnið sé að undirbúningi slíkrar áætlunar í dómsmrn., sem Landhelgisgæzlan heyrir undir.

Varðandi 2. gr. um ákvæði til þess að verja fé til byggingar fyrir Landhelgisgæzluna á lóð hennar við Selsvör í Reykjavík, þá er eins og menn vita þannig ástatt, að í raun og veru er Landhelgisgæzlan á götunni að meira eða minna leyti, ef svo mætti segja, eins og nú standa sakir. Til margra ára hafði henni verið ætlaður samastaður og húsnæði 3 hinni nýju lögreglustöð í Reykjavík og ráðagerðir fram í tímann við það miðaðar og þótti fara mjög vel á því, að löggæzlan til sjós og lands væri þar undir sama þaki og aðstaðan að ýmsu leyti heppileg fyrir Landhelgisg. að vera þarna í sambýli við lögregluna og Almannav., sem gert var ráð fyrir, að hefðu einnig vissan hluta sinna öryggisstöðva í lögreglustöðinni. Á þaki lögreglustöðvarinnar er sæmilega góður þyrilvængjuflugvöllur, en það má búast við því, að bæði þjónusta og varzla Landhelgisgæzlunnar með þyrlum aukist í framtíðinni. Hún hefur átt eða átti eina litla þyrlu og er þegar búin að fá aðra í staðinn og fleiri eru væntanlegar.

Það tjóar ekki að tala um það lengur, að þetta húsnæði sé ekki fyrir hendi, en það vill þá svo til. að Landhelgisgæzlan á hentuga lóð við Selsvör hér í Reykjavík, og það er skoðun okkar flm. þessa frv., að það sé skylda Alþingis, eins og nú standa sakir, að bregða skjótt við og ætla Landhelgisgæzlunni eða Landhelgissjóði nægjanlegar fjárreiður og heimila honum þá að nota það fé til þess að byggja upp aðstöðu Landhelgisgæzlunnar í landi. Nú liggja ekki fyrir áætlanir um það, hversu þessi aðstaða þarf að verða dýr og ég skal ekki um það segja, en mér finnst, að það eigi að byggja myndarlegt húsnæði fyrir Landhelgisgæzluna og aðra aðstöðu, sem hún þarf að hafa í landi, og hún mætti vera fyrir langa framtið, og gæti þá Landhelgisgæzlan fyrst í stað skotið skjólshúsi yfir einhverjar aðrar ríkisstofnanir, sem þyrftu á húsnæði að halda, sem hún svo síðar tæki til sinna afnota, þegar tímar líða og þörfin eykst. Það, sem ég á við, er það, að það fer betur á því að okkar dómi að byggja stórt og fram í tímann heldur en skera það við nögl sér og vera að eyða tíma í það að skoða bragga og hálfbyggðar byggingar hér og hvar á landinu með það fyrir augum, hvort ekki væri hægt að hola Landhelgisgæzluna í vandræðum sínum þar inn.

Þar sem þetta frv. er flutt nú í byrjun þings og áður en fjárlög eru afgreidd, þá vildi ég mega vænta þess, að það gæti hlotið afgreiðslu, áður en til fjárlagaafgreiðslu kemur, þannig að inn á fjárl. sé þá hægt að taka þau gjöld, sem af þessu frv. leiðir, ef það verður að lögum. Ég leyfi mér svo að vænta þess, að frv. hljóti góðan byr í þinginu og góðar undirtektir hjá þm. Hvort þetta eru of litlar upphæðir fyrir Landhelgissjóð skal ég ekki um segja. Ég hafði um það þau orð á síðasta þingi, að það yrði að metast af n., hvort ástæða væri til þess að breyta til og hækka þær. En það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er, að Alþ. skjóti sér ekki undan þeim vanda að sýna það í verki og með einhug, að það leggi mikla áherzlu á að efla Landhelgissjóðinn eins og nú standa sakir, og sannarlega mætti þá sitthvað víkja fyrir jafnbrýnni nauðsyn eins og hér er um að ræða, ef ekki er annarra kosta völ.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. málsins og ég hygg, að það sé rétt munað, að frv. hafi í fyrra verið vísað til sjútvn. Að vísu eru í þessu mikil útgjöld, sem snerta fjvn., en hún er í Sþ., svo að við getum ekki vísað frv. til hennar hér.