21.11.1972
Sameinað þing: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

61. mál, verðaukaskattur af lóðum

Flm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Sú till. til þál., sem hér liggur fyrir, fjallar um virðaukaskatt af lóðum og lendum. Flm. eru auk þess, sem hér talar, hv. þm. Bragi Sigurjónsson og Eðvarð Sigurðsson. Þessi þáltill. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um verðaukaskatt, sem lagður skal á sölu fasteigna, annarra en íbúðar- og atvinnurekstrarhúsnæðis. Skal markmið löggjafarinnar vera að skattleggja sölu lóða og lendna, sem hækkað hafa í verði sökum hinna öru verðhækkana undanfarinna áratuga án tilverknaðar eigenda.“

Nú er rétt að fara um þessa till. nokkrum orðum.

Eins og kunnugt er, geyma skattal. ákvæðin um skattlagningu söluhagnaðar af fasteignum. Forsenda skattlagningar söluhagnaðar af hvers konar fasteignum er sá tími, sem eignin hefur verið í eigu viðkomandi aðila. Þarf fasteignin að hafa verið í eigu hans ýmist 3 ár eða 6, til þess að skattfrelsi náist af sölu eignarinnar. Skiptir þar meginmáli, hvort um íbúðar- eða atvinnuhúsnæði er að ræða. Segja má, að ekki sé ástæða til strangari tímamarka varðandi þessar fasteignir, svo að löggjafinn standi ekki í vegi fyrir því, sem kalla má eðlilega framþróun í vaxandi þjóðfélagi.

Allt öðru máli gegnir um ákvæði skattal., er varða skattlagningu söluhagnaðar af öðrum fasteignum, og er þar einkanlega átt við óbyggð lönd og lóðir. Engin sjáanleg ástæða er til að veita eigendum slíkra fasteigna skattfrelsi, hafi þeir átt eignina tilskilinn tíma. Aðgerðir stjórnvalda verða til þess að stuðla að því, að slíkar fasteignir seljast á himinháu verði, án þess að eigandi hafi lagt nokkuð af mörkum sjálfur. Hér er einkum átt við skipulagningu íbúðarhverfa í ört vaxandi borg eða bæ. Hver þekkir ekki dæmin hér í kringum Reykjavík, Arnarnesið, í Garðahreppnum, á Seltjarnarnesinu, í Fossvoginum, Mosfellssveitinni og nánast hvar sem augum er litið? Er sanngjarnt í nútímabjóðfélagi, bar sem á að stefna að jafnrétti á öllum sviðum, að eigendur lóða og lendna greiði ekkert til samfélagsins af þeim hagnaði, sem orðið hefur til við örar breytingar samfélagsins og án þeirra tilverknaðar öðrum fremur?

Til þess að sýna stærðargráðu hvers vanda, sem hér um ræðir, skal ég taka eitt sérstakt dæmi, sem má vera hv. þm. í fersku minni. Á fyrri hluta þessa árs keypti Keflavíkurkaupstaður af hlutafélagi nokkru lóðir og lendur í kaupstaðnum og utan við hann fyrir um 35 millj. kr. Þetta varð raunar, eins og nærri má geta, kaupstaðnum ofviða, og var tekið það ráð á síðasta Alþ. að breyta lögunum frá 1963 um aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa þannig að heimila fjmrn. að fella niður þinglesturs- og stimpilgjöld á öllum lánsskjölum, sem sveitarstjórn gefur út í sambandi við kaup á landi eða lóðum með aðstoð ríkissjóðs, m.ö.o. greiðir ríkissjóður með þessum viðskiptum, til þess að af kaupum geti orðið. En endanlega geldur hinn almenni skattgreiðandi sjálft kaupverðið í hækkuðum lóðagjöldum, gatnagerðargjöldum og í margvíslegum sköttum. Hins vegar stingur seljandi eða lóðareigandi öllum hagnaði í eigin vasa og greiðir ekki eyri af söluhagnaðinum í skatt til samfélagsins, sem þó hefur myndað þennan gróða. Af þessu sést, að hér er oft um miklar fjárfúlgur að ræða. Þær skipta oft tugum millj. kr., og kæmi sér án efa vel fyrir ýmis sveitarfélög að fá hlut í þessari samfélagslegu arðmyndun.

Í þessu sambandi má einnig nefna sölu sumarbústaðalanda, sem gerist nú víða atvinna manna, sem búa í nágrenni þéttbýlis, og við gjörla þekkjum hér fyrir austan fjall. Þar gilda í meginatriðum sömu skattalög, og menn þurfa ekki að greiða eyri af söluvirði þessara landskika, sem seldir eru á þann hátt. Reyndar er í fæstum tilvikum í raun og veru um landsölu að ræða, heldur um tímabundinn afnotarétt sumarbústaðalandsins.

Eins og segir í grg. með þáltill., mætti innheimta verðaukaskatt annaðhvort sem ákveðið hlutfall af verðhækkun þeirri, sem ætti sér stað af lóðum og lendum, eða sem fasta hundraðstölu af heildarsöluverði þeirra. Ekki þykir rétt að svo stöddu að kveða upp úr um það, hvort skattur þessi skuli renna til ríkis eða sveitarfélaga, nema hvort tveggja sé. Er skynsamlegt að láta fara fram könnun á þessum skattstofni, áður en ofangreind atriði eru endanlega ákveðin? En það er skoðun flm., að skattlagning gróðamyndunar af því tagi, sem hér hefur verið lýst, eigi að vera veruleg.

Af framansögðu má vera ljóst, að fyrir flm. vakir ekki að vega að hagsmunum hins almenna skattborgara, heldur að reyna að stemma stigu fyrir óæskilegum, auðfengnum gróða tiltölulega fárra efnamanna, sem eiga auðsæld sína að þakka ýmiss konar samfélagslegum breytingum, svo sem skipulagsákvörðun stjórnvalda og öðrum aðgerðum, sem til koma. Það gegnir í raun og veru furðu, að skattur af þessu tagi, þ.e.a.s. verðaukaskattur, skuli ekki hafa fyrir löngu verið lögfestur á Íslandi, eins og samfélagsbreytingum er háttað í þessu landi. Fjölmargar nágrannaþjóðir hafa beitt slíkri eða svipaðri skattlagningu, þegar verðbólga hefur gerzt ógnvekjandi og haft óeðlileg áhrif á verðhækkun fasteigna.

Um leið og ég vænti þess, að hv. þm. ljái þessari till. lið, vil ég leyfa mér að leggja til, að henni verði vísað til hv. allshn. þingsins og umr, frestað.