18.10.1972
Neðri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir þeim áhuga og skilningi, sem birtist í þessu frv. á þörfinni á því að efla Landhelgisgæzluna. Það er vissulega svo, að það er mikil þörf á því að efla Landhelgisgæzluna. Það er þörf á því vegna þess ástands, sem nú ríkir og ég þarf ekki að fjölyrða um, en það er rétt, eins og hv. 1. flm. sagði, að það er jafnvel án tillits til þess þörf á því að efla Landhelgisgæzluna, svo að hún geti sinnt sínu margvíslega hlutverki á þann hátt, sem sómasamlegt getur talizt. En ég efast satt að segja um, að menn almennt hafi gert sér alveg fulla grein fyrir því, hversu stórt það svæði er, sem bætzt hefur við íslenzka landhelgi og hversu stórt það umsjónarsvæði er, sem íslenzkum gæzluskipum er ætlað að hafa stjórn á og umsjón með, en það er hreint ekkert smáræði. Þess vegna er það, að ég held, að jafnvel á venjulegum tímum sé það alveg lágmark að gera ráð fyrir því, að það þurfi 4 skip af þeirri stærri gerð, sem við höfum nú til þess að fást við þessi gæzlustörf, jafnvel þó að gert sé ráð fyrir því í vaxandi mæli, að reynt sé að styðjast við flugvélar, því að við verðum að hafa það í huga, að það er ekki aðeins gæzlan og varnir gegn lögbrjótum, landhelgisbrjótum, sem Landhelgisgæzlan á að fást við, heldur jafnframt margs konar björgunar- og aðstoðarstarfsemi. Og ég tel það mjög æskilegt og gott, að þm. fái nú tækifæri til þess að velta þessu máli dálítið fyrir sér og gera sér grein fyrir því og hugleiða, hvernig nú er háttað og hefur verið háttað um skipakost við Landhelgisg., og kem ég e.t.v. betur að því síðar. En það er þörf á að efla Landhelgisg. Um það erum við sjálfsagt öll, sem hér sitjum, sammála, eða það vona ég a.m.k., og ég vona, að það standi líka, sem ég hef látið í ljós, að það mundi enginn alþm. og enginn Íslendingur telja eftir útgjöld í því skyni að efla Landhelgisgæzluna. Og vissulega er það rétt, sem fram kemur í þessu frv. eða grg. með því, að tekjustofnar þeir, sem Landhelgissjóður hefur átt við að búa, hafa verið óvissir og eru í eðli sínu óvissir. Og það er auðvitað aldrei gott að þurfa að byggja á slíkum óvissum og breytilegum tekjustofnum, sem geta gefið góða upphæð þetta árið, en e.t.v. litla upphæð annað árið. Og þess vegna er það, að ég fagna þeirri hugsun, sem kemur fram í þessu frv., að það skuli bundið í lögum, að Landhelgissjóði skuli alltaf tryggð tiltekin lágmarksfjárhæð.

Að vísu er það ekki nákvæmlega rétt hjá hv. 1. flm., að það hafi ekkert verið hugað að þessum málum nú í sambandi við það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, né heldur að ekkert hafi verið að þessu gert í sambandi við gildandi fjárlög. Í gildandi fjárl. voru 20 millj. kr. sérstaklega ætlaðar til þess að mæta útgjöldum í sambandi við útfærslu landhelginnar, þegar til hennar kæmi 1. sept. Og í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþ., eru sem næst 15 millj. kr. ætlaðar í Landhelgissjóð, en þar að auki aðrar 15 millj. kr. fyrir ófyrirséðum útgjöldum í sambandi við Landhelgisgæzluna, þannig að það eru nokkrar upphæðir þarna í fjárlagafrv., þó að ég sé þeirrar skoðunar, að þær muni hvergi nærri hrökkva til þess, sem hér þarf til. Þess vegna mæli ég með því, að sú hv. n., sem þetta frv. fær til skoðunar, taki það til rækilegrar athugunar og athugl, hvort ekki sé rétt að gera þessa lagabreytingu eða breyta landhelgislögunum í þá átt, sem hér er gert ráð fyrir. Hitt er svo annað mál. að eins og hv. 1. flm. sagði líka, getur alltaf verið álitamál, hvaða fjárhæð á að tiltaka í þessu sambandi. Við höfum heyrt það, að hv. stjórnarandstæðingum hefur þótt nóg um útgjöld ríkisins og talið, að það bæri heldur í meira lagi á eyðslu á ýmsum sviðum hjá ríkisstj. Og vafalaust má finna því Stað, að þeir hafi hvatt til sparnaðar í orði, en hitt hygg ég nú, að líka mundi sjást, að ef farið væri í gegnum tillöguflutning þeirra, þá yrðu nokkuð margar útgjaldatill., bæði beint við fjárl. og eins varðandi einstakar framkvæmdir, þannig að verkin gætu þar kannske sýnt talsvert aðra mynd heldur en allt sparnaðartalið. En hvað um það, menn verða að gera sér ljóst, að það er ekki hægt að gera allt, og það er út af fyrir sig rétt hugsun, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ef það á að taka svona upphæð inn til Landhelgisgæzlunnar, þá geta menn þurft að horfast í augu við það, að það verði að draga úr einhverjum öðrum liðum annars staðar. Og þá verða menn að vera viðbúnir því að gera sér grein fyrir því og átta sig á því, hvað á að víkja.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að Landhelgisgæzlan á að hafa forgang umfram ótalmargt. En samt sem áður verður auðvitað að skoða þetta mál og ákvörðun á fjárhæð í samb. við önnur málefni. Og það legg ég einmitt áherzlu á, að sú n. geri, sem fær málið til meðferðar. Það er kannske ekkert aðalatriði, svo að maður taki nú nokkuð stórt til orða, hvort það eru nefndar 50 millj. eða 75 millj. Aðalatriðið er að festa ákveðinn tekjustofn. En hitt vitum við öll, að þó að það séu nefndar ákveðnar tölur, þá getur gildi þeirra alltaf breytzt, þannig að þær segja ekki alla söguna. En ég álít, að aðalatriðið sé að festa þá stefnu að tryggja Landshelgissjóðnum alveg ákveðinn tekjustofn, og ég er inni á þeirri hugsun.

Út af því, sem hv. flm. sagði varðandi þá fjársöfnun, sem stofnað hefur verið til, landssöfnun til Landhelgissjóðs, þá vil ég aðeins segja örfá orð. Það er alls ekki meiningin, að sú söfnun verði til þess að Alþ. eða fjárveitingavaldið dragi neitt af sér í sambandi við fjárveitingar til Landhelgissjóðs eða Landhelgisgæzlunnar. Að vísu er það þegar sýnt af þeim undirtektum, sem söfnunin hefur fengið, að hún hefur mætt svo almennum skilningi, að það verður mjög verulegur styrkur að henni fyrir Landhelgissjóð. En eins og margtekið hefur verið fram og ég held, að flestir ættu nú að hafa gert sér grein fyrir, þá var ekki aðalmarkmiðið með því að stofna til þessarar almennu landssöfnunar það að safna svo og svo miklu fé í Landhelgissjóðinn til þess að leysa ríkissjóð undan einhverjum kvöðum í því sambandi, heldur hitt að gefa öllum almenningi tækifæri á því að sýna öllum þjóðum, að íslenzka þjóðin stæði einbuga að þessu máli og hún teldi ekki eftir sér af frjálsum og fúsum vilja að leggja á sig verulegar fórnir í sambandi við þetta mál, hún væri fús til þess að leggja fé af mörkum til þess að verja þetta lífshagsmunamál sitt, til þess að það gæti enginn efazt um, að það væri fullur og fastur sannfæringarvilji hjá þjóðinni allri á bak við þetta mál. Og undirtektirnar undir landssöfnun hafa þegar verið þær, að þær munu sanna þetta og sýna, og það mun eiga eftir að sýna sig betur. Í því efni munu engar úrtölur stoða. Fólkið í landinu lætur ekki segja sér fyrir verkum í þessu efni. Og það mun koma fram og leggja fram sitt .lóð, lítið eða stórt eftir atvikum og getu, til þess að sýna þessu máli áhuga sinn og skilning. En það endurtek ég, að það á ekki að verða til þess að leysa fjárveitingavaldið undan neinni skyldu í sambandi við Landhelgisgæzluna og eflingu Landhelgisgæzlunnar.

Það er reyndar svo, að það hefur farið fram á s.l. ári og á þessu ári réttara sagt, talsverð aukning á gæzlustyrk Landhelgisgæzlunnar. Það hefur gerzt með tilkomu nýrrar og afkastameiri flugvélar en áður, og það er ekki vafi á því, að flugvélar eiga eftir að þjóna miklu hlutverki í sambandi við Landhelgisgæzluna. Það hefur líka verið fengin mun stærri þyrla en áður. Ég hygg, að reynslan muni sýna, að hún muni geta orðið að mjög miklu og góðu gagni í sambandi við gæzlu- og björgunarstörf. Það hafa enn fremur verið fengnar tvær minni þyrlur. Þá vil ég geta þess, að það hafa farið fram alveg gagngerar endurbætur á varðskipinu Þór, sem nýlega er nú búið að lýsa í útvarpi, hverjar eru og ég skal ekki fara að telja hér upp. En það má í stuttu máli segja, að það gæzluskip er allt annað skip á eftir, en það var. Það kemur nú til gæzlu við hlið hinna stærri gæzluskipa, sem að vísu eru ekki gömul, en þó er ekki hægt að segja, að það hafi verið sérstaklega mikil afrek unnin í þessum málum á umliðnum árum. Að vísu má geta þess og það er lofsvert, að varðskipið Ægir kom hér 1968, í ráðherratíð hv. 1. flm. Og það er honum til lofs. En varðskipið Óðinn er frá árinu 1959. Það hefur ekki verið örari uppbygging í varðskipaflotanum en þetta á undanförnum árum, þegar menn þó 1961 höfðu lýst yfir þeim tilgangi sínum að vinna að útfærslu landhelginnar og ætla hefði mátt, að ýmsar undirbúningsráðstafanir hefðu verið gerðar í því skyni. Þá hefur líka á þessu sumri verið tekið leigunámi, eins og menn vita, eitt hvalveiðiskip, sem er stórt skip og má flokka við hlið þessara skipa, þó að það verði auðvitað aldrei sett algerlega á bekk með þeim, sem ekki er heldur að búast við, þar sem það er ekki smíðað í því skyni að þjóna þeim tilgangi. Og það getur náttúrlega aldrei fengizt skip, sem fullnægir alveg kröfum í þessu efni, nema það sé sérstaklega smíðað í þeim tilgangi, eða keypt skip, sem hefur verið byggt með það fyrir augum að vera gæzluskip. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta hvalveiðiskip. Það hefur verið lagt fram frv. til staðfestingar brbl., og ég mun fara nánar inn á það mál í sambandi við þau.

En ég vil ekki láta þetta tækifæri hjá líða til þess að bæta við örfáum orðum varðandi landhelgisvörzluna. Ég vil nota þetta tækifæri til þess alveg sérstaklega að þakka varðskipunum og varðskipsmönnunum og gæzluliðinu öllu fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður á því tímabili, sem liðið er frá 1, sept. Ég vil aðeins minna á það, að þennan tíma hafa ekki í raun og veru verið til vörzlu á því stækkaða og útvíkkaða umsjónarsvæði, á nýja landhelgissvæðinu, nema tvö skip, sem þar hafa getað komið verulega að gangi, Ægir og Óðinn. Og ég vil biðja menn að gera sér í hugarlund, hve erfitt það hlutverk muni vera fyrir tvær skipshafnir, tvö skip, að verja allt það svæði fyrir ágangi þess fjölda landhelgisbrjóta, sem á það hefur sótt. Ég vil taka þetta fram hér alveg sérstaklega og tjá þessum mönnum mínar beztu þakkir. Og ég held að þjóðin öll ætti að taka undir þær þakkir. Ég er nefnilega ekki alveg viss um það, að þjóðin og fólkið allt hafi gert sér fulla grein fyrir því, við hverjar aðstæður þessir menn hafa orðið að vinna sín störf. Og ég verð satt að segja að lýsa dálítilli undrun minni yfir þeim fréttaflutningi, sem stundum hefur átt sér stað í sambandi við þessi mál. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, að það hefur þótt fréttnæmt í fjölmiðlum, að varðskip hafi sézt liggja við bryggju. Halda menn, að varðskip þurfi aldrei að koma í höfn? Halda menn, að þeir sjómenn, þeir skipverjar, sem á þessum skipum starfa við þessar erfiðu aðstæður, vita aldrei, hvað fyrir getur komið og hverju þeir eiga að mæta, eigi ekki rétt á einhverjum frístundum, eigi ekki rétt á því og hafi ekki þörf fyrir það að koma til sinna heimkynna öðru hverju? Ég held, að það sakaði ekki, að menn sýndu ofurlítið meiri skilning í þessum efnum. Það hefur stundum bryddað á því, að það hafi verið talað um einhvern undanslátt eða linkind í landhelgisgæzlunni. Það er satt, að á meðan brezku samningamennirnir sátu við samningaborð hér í Reykjavík var ekki stofnað til sérstakra átaka. En varðskipin voru á ferð á þeim tíma eins og endranær og aðvöruðu skip og gáfu þeim viðvaranir. En því miður er staðreyndin sú, að eftir það sýnast enskir landhelgisbrjótar hafa fylkt liði á Íslandsmið í enn ríkara mæli en áður. Því verður svarað á viðeigandi hátt. Það verður engin linkind eða undansláttur sýndur í vörzlu landhelginnar nýju.

Menn hafa kannske veitt athygli þeim fréttum, sem bárust í dag, og e.t.v. hefur það fært mönnum heim sanninn um betur en áður, að hér er ekki um neinn leik að ræða. Það var siglt á varðskip og gerð tilraun til þess að sigla það í kaf og verða skipshöfn þess þar með að bana. Gegn því munum við bera fram þau ýtrustu mótmæli, sem við getum. En það sýnir mönnum, að þessir menn, sem eru framverðir okkar í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar, eiga vissulega allt gott skilið. Það sýnir mönnum, að þeir geta lagt líf sitt í sölurnar. Þess vegna er það, að þótt ekki verði, eins og ég sagði, sýnd nein linkind eða undansláttur í því að verja landhelgina, eftir því sem geta okkar leyfir, og það hefur heldur ekki verið gert, því að landhelgisvarzlan hefur starfað af dugnaði eftir sinni getu, þá verði jafnframt lögð á það áherzla, að það verði farið í þessum málum með allri varúð og skipi eða lífi skipshafnar varðskipanna aldrei stofnað í hættu að óþörfu. Þetta hef ég sagt við skipshafnirnar sjálfrar, þegar ég hef haft tækifæri til þess að tala við þær um borð í varðskipunum. Og um leið og ég hef þá flutt þeim þakkir fyrir góða framgöngu í landhelgismálinu, þá hef ég sagt við þær þar, að það þurfi stundum meira hugrekki til þess að sýna gætni og stillingu heldur en glannaskap. Meðan ég fer með stjórn þessara mála, verður ekki breytt frá þessari stefnu, hvað sem hver segir.

Ég hef þegar lýst skilningi mínum á þessu frv. og þeim góða vilja, sem í því kemur fram, og ég vænti þess, að Alþ. taki það til vinsamlegrar athugunar, en hafi auðvitað jafnframt í huga það, sem ég hef bent á, að þessi málefni verður að skoða nokkuð heildstætt. Ég veit, að það er fullur hugur hjá allri þjóðinni að efla Landhelgisgæzluna, það er fullur hugur hjá ríkisstj. að gera það. Það mun nú í dag eða á morgun verða útbýtt hér á hv. Alþ. þáltill. um að heimila ríkisstj. byggingu eða kaup á nýju fullkomnu gæzluskipi.

Þetta eru svo mikil mál og mikils háttar, að mér finnst það varla hæfa að fara út í pex eða smáatriði, sem mættu kannske teljast í sambandi við það. Þó get ég varla stillt mig um að minna hv. 1. flm. á það, að s.l. 12 ár fóru þeir nú með stjórn þessara mála, og auðvitað hefði margt verið léttara í dag í þessum efnum, ef þessi áhugi og ákveðni vilji, sem þeir nú sýna til þess að afla Landhelgissjóði fjár, hefði komið fram á öllum þeim árum, sem þeir fóru með stjórn þessara mála. En batnandi manni er bezt að lifa. Og ekki ætla ég nú heldur að fara að pexa neitt við hann um húsnæðismál Landhelgisgæzlunnar. Það er satt, að Landhelgisgæzlan býr í ófullnægjandi húsnæði og ytri aðstæður hennar eru ófullnægjandi á margan hátt. En það er nú hins vegar æðimikið ofmælt hjá hv. 1. flm., að hún sé á götunni. Þessi mál hafa verið í athugun, og það hefur ekki staðið á því, að það væri hægt að útvega Landhelgisgæzlunni ágætis skrifstofuhúsnæði, hvort heldur er hér í borginni eða annars staðar. En Landhelgisgæzlan sjálf eða forstjórinn hefur að svo komnu máli frekar kosið að vera áfram í þessu húsnæði, sem Landhelgisgæzlan er nú í, þó að þar sé mjög þröngt um hana. Því veldur m.a. sjálfsagt staðsetning, sem hann telur hagkvæma þar, og svo sjálfsagt von um það, að úr verði bætt fljótlega með byggingu húss yfir Landhelgisgæzluna. En ég er hv. flm. alveg sammála um, að það á að gera fyrr en síðar. Og það er lóð þarna, það er rétt, í Selsvör eða þarna nálægt því, sem þeir eru, nánast við hliðina á Vitamálahúsinu, og það má vel vera, að hún henti sem framtíðarstaður fyrir aðsetur Landhelgisgæzlunnar. En þó býst ég við því, að Landhelgisgæzlan sjálf vilji jafnvel líta nánar á þau mál. Það gæti t.d. komið til mála, að hún teldi sig betur staðsetta nálægt flugvelli. Það fer sjálfsagt dálítið eftir því hver þróun þessara mála verður. En á götunni er hún nú ekki, sem betur fer, enda væri það óskemmtilegur vitnisburður um 12 ára viðreisnarstjórn, því að í engu hefur húsnæði Landhelgisgæzlunnar breytzt frá því, sem var, á meðan hv. 1. flm. þessa frv. var dómsmrh., og að ég hygg, ekki að neinu leyti öll 12 viðreisnarárin, nema hvað vera kynni, að eitthvað hefði verið að henni þröngt og af henni tekið húsnæði, sem hún áður hafði í þessu húsi, þannig að ég held, að það sé nú bezt fyrir alla aðila að vera ekki með mjög stór orð í þessu sambandi. Engan áhuga hef ég á því að vera að rifja upp hið liðna í þessu, en tel hitt skipta mestu máli, að menn sameinist um að játa, að það þarf að bæta húsakost og aðstöðu Landhelgisgæzlunnar í landi og mér væri það mikið fagnaðarefni, að menn vildu veita mér lið til þess að beita mér í því máli og það sem allra fyrst. Hitt er svo annað mál, hvort það þykir eðlilegt að taka það beinlínis fram í lögum um Landhelgissjóðinn, að svona tilteknum hluta eins og þarna er tilnefndur skuli varið til þessara hluta. Ég býst við, að það ætti ekki að vera þörf á því, af því að það er áreiðanlega vilji allra, sem um þessi mál fjalla og með þessi mál hafa að gera, að reyna að bæta úr í þessu efni svo fljótt sem nokkur kostur er og þegar fé leyfir. Og ég efast ekki um það, að hin glæsilega landssöfnun verður m.a. til þess að létta undir í því efni. Ég held, að það sé mjög þýðingarmikið fyrir okkur að láta ekki smáatriði leiða okkur út á neinar villigötur í sambandi við þetta stóra mál, landhelgismálið og landhelgisgæzluna, heldur ættum við að sameinast um það, sem við erum allir sammála um, og það eru allir sammála um höfuðatriðin í þessu máli. Og þá eigum við að gera það, sem skynsamlegt er, og samþykkja það, sem skynsamlegt er, og til þess er ég reiðubúinn, hvort sem það kemur frá þessum eða hinum. Þess vegna legg ég til, að sú hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, skoði það mjög gaumgæfilega. Það er nú aukaatriði, til hvaða n. það fer. Ég skal ekki segja um það. Það má vel vera, að landhelgislögin hafi á sínum tíma verið í sjútvn. Þó mætti segja mér, að þau hefðu verið í allshn., þó þori ég ekki að fullyrða um það. Það er algert aukaatriði.