21.11.1972
Sameinað þing: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

63. mál, skattfrelsi elli- og örorkulífeyris

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt tveim öðrum flokksbræðrum mínum að flytja till. til þál. um skattfrelsi elli- og örorkulífeyrisþega. Till. er stíluð til ríkisstj., af því að okkur flm. er það ljóst, að hér er um allflókið mál að ræða, sem þarf að athuga vel af þeim, sem eru að endurskoða skattal. Þó að við kveðum að vísu nokkuð fast á um það, hvað við teljum, að eigi að vera skattfrjálst eftir till., að okkar hyggju sjálfsagt, að þetta sé skoðað gaumgæfilega. Till. fylgir svo hljóðandi grg., sem ég ætla að leyfa mér að lesa.

„Flestum landsmönnum mun hafa brugðið mjög í brún, er þeir sáu af tekjuskatti á s.l. sumri samkv. skattal. nýju, hve aldraðir og öryrkjar yrðu margir hverjir illa úti. Er ekki tekið of djúpt í árinni, þótt sagt sé, að allvíða var um hreina skattáþján að ræða. Engum dettur þó í hug, að hér hafi kaldrifjaður ásetningur valdhafans verið að verkí, heldur fljótræði og skortur á yfirsýn, enda var nokkuð reynt úr að bæta, þegar mótmæli risu sem hæst. Þó voru úrbæturnar hvergi nærri viðhlítandi.

Hér er í stuttu máli lagt til. að lögtekið verði, að tekjuskattur sé alls ekki lagður á elli- og örorkulífeyri þann, sem almannatryggingar greiða, né heldur á þann lífeyri frá öðrum lífeyrissjóðum, sem er framlagshluti lífeyrisþegans sjálfs í sjóðinn, skyldusparnaður undanfarinna ára til ellidaganna. M.ö.o.: tekjuskattur verði aðeins lagður á vinnutekjur lífeyrisþega, hluta atvinnuveitandans í lífeyri hans sem og aðrar tekjur, er lífeyrisþeginn kann að hafa og ekki eru skattfrjálsar samkv. lögum nú.

Ekki ætti að þurfa að orðlengja um það, að fráleitt er að skattleggja skyldusparnað manns í lífeyrissjóð fremur en sparifé hans eða annarra í banka, sem nú er tekjuskattfrjálst, né heldur að óeðlilegt er og raunar ósæmandi að taka með annarri hendinni aftur hluta af því, sem rétt er með hinni, þar sem elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga er, og allir viðurkenna, að enn vantar drjúgan á, að hann sé svo hár, að lifa megi af honum einum.“

Ég legg til. að till. verði vísað til allshn. og umr. frestað.