22.11.1972
Neðri deild: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Forseti (GilsG):

Ég mun ekki hafa ýkjamörg orð um þá einkar smekklegu ræðu, sem hv. 7. þm. Reykv. flutti hér. Ég vil aðeins í tilefni þess, að það er nú í annað sinn, sem hann ber mér ósannindi á brýn vegna þeirra fáu orða, sem ég sagði hér um daginn, lýsa því yfir, að það var hvert orð satt og rétt, sem ég sagði þá, og ég vísa því algerlega heim til föðurhúsanna, að ég hafi farið þar með rangt mál.

Hv. 7. þm. Reykv. reynir að gera mikið úr því atriðið, hvenær beiðni hæstv. sjútvrh. var dagsett. Hann reynir að gera það að aðalatriði, að hann hefði á þeirri stundu verið búinn að afturkalla þá utanför, sem var ráðin allmörgum dögum áður. Nú veit þessi hv. þm. eins og allir aðrir, að varamaður hæstv. sjútvrh. er búsettur austur á landi, og þegar ákvörðun þarf að taka um, að varamaður komi inn, verður að gera hana með einhverjum fyrirvara. Það var þetta, sem gerðist, og þetta, sem ég skýrði frá, að hæstv. sjútvrh. hafði ætlað að fara í opinberum erindagerðum sem viðskrh. á fund EFTA- landa og hafði gert í tilefni af því ráðstöfun til þess, að varamaður hans kæmi inn. Það var þetta, sem ég skýrði frá. En svo virðist sem hv. 7. þm. Reykv. hafi ekki þolað, að ég nefndi það, að e.t.v. mundi einhver eftir því, að einhvern tíma hefði það komið fyrir, að hann sem viðskrh. hafi þurft að bregða sér úr landi. Þetta virðist vera það, sem honum hefur sárnað svo mjög, að hann ber mér hér hvað eftir annað ósannindi á brýn. Ég get ekki annað en látið í ljós furðu mína á þessu, þar sem ég á slíku ekki að venjast af hálfu þessa hv. þm., að hann beri mér slíkt og þvílíkt á brýn.

Að því er varðar það atriði, hvort hæstv. sjútvrh. er hér í borginni nú og hvort hann gæti þá komið á þingfund til að ræða það mál, sem hér er til umr., þá vil ég aðeins vekja athygli á því, að í fyrsta lagi er varamaður ráðh. hér á þingmannabekk, auk þess sem ég hygg, að það væri alger nýjung og þyrfti að athuga betur að mínu viti, hvort ætti að taka upp þann hátt að fara þess á leit eða yfirleitt gefa kost á því, að ráðh. komi inn til starfa jafnhliða því, sem varamaður ráðh. er starfandi þingmaður. Ég held, að þetta hafi aldrei tíðkazt. (Gripið fram í: Það hefur oft gerzt.) Hefur það gerzt? Það kann að vera, að þetta hafi komið fyrir. Ég hygg þó, að það sé ekki algengt. En ég tel, að það geti verið mikið vafamál. hvort það sé rétt regla eða ekki.

En að síðustu vil ég spyrja hv. 7. þm. Reykv., hvort hann leggi á það mikið kapp, að málinu verði frestað. Ég skal verða við þeim tilmælum, ef hann gerir það að verulegu atriði.