22.11.1972
Neðri deild: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er mjög óvenjulegt, að þingforseti flytji ræður eins og þá, sem hann flutti áðan, og þá, sem hann flutti við 2. umr. málsins. Þingforsetar haga venjulega orðum sínum hlutlaust og kurteíslega, en það hefur hæstv. forseti í hvorugt skiptið gert.

Varðandi það, hvort hæstv. forseti hafi farið með rangt mál eða rétt í ummælum sínum um daginn, þá er það að segja, að ég hef lesið ummæli hans, eftir að ég hlustaði á þau. Ég hef þau ekki við höndina núna, vegna þess að þau eru úti á skrifstofu minni í Þórshamri, en ég man þau alveg. Hann sagði, að þegar leyfi til ráðh. hafi verið veitt, hafi hann óskað eftir leyfi til utanferðar í embættiserindum. Það var þetta, sem ég þá vissi, að var rangt, og gekk úr skugga um á eftir, að er rangt.

Nú gerir hæstv. forseti veður út af því, að ég skuli hafa miðað við dagsetninguna, en ekki við hitt, að ráðh. hefði ætlað til útlanda viku eða hálfum mánuði áður og þá talað við varamann sinn. Þetta skiptir ekki nokkru minnsta máli. Ákvörðuninni hafði verið breytt, þegar hann biður um leyfið og þegar honum er veitt það. Eins og var hægt að hringja austur á land og biðja varamanninn um að koma, mátti hringja og segja varamanninum að koma ekki. Það hefði verið í fullkomnu samræmi við það, sem um var talað á sameiginlegum fundi forseta og þingflokkaformanna, þar sem hæstv. deildarforseti og hæstv. sjútvrh. voru. Þess vegna er ég að tala um allt málið. Ég tel það lið í því óformlega samkomulagi, sem þá var gert, að það skyldi teljast óeðlilegt, að menn fengju fjarvistarleyfi, ef þeir væru við störf í borginni. Það var engin ákvörðun tekin um þetta, enda ekki hægt. Eftir ítarlegar viðræður við hæstv. forseta Sþ. um málið get ég vel skilið, að forseti geti hvorki neitað þm. né heldur ráðh. um að taka inn varamann eftir gildandi reglum, ef þeir óska þess. Það hefur aldrei hvarflað að mér að bera hæstv. forsetum þingsins á brýn, að þeir hafi gert neitt ólöglegt með því að veita hæstv. ráðh. fjarvistarleyfi og taka inn varamanninn. Mér er jafnvel kunnugt um, að það var heimilt samkv. lögum og ekki aðeins heimilt, heldur ber þeim jafnvel skylda til að gera það, ef þm. óskar eftir því og tilgreinir forföll, jafnvel þó að það séu hvorki veikindi né utanferð, heldur segist ekki hafa ástæðu til að mæta hér á hinu háa Alþ. Einmitt þess vegna ræddum við málið. Ég leit þannig á og kalla þar til vitnis starfsbræður mína í formennsku þingflokkanna, að niðurstaða fundarins væri sú, að frá þessari reglu ætti helzt að hverfa. Mér er kunnugt um, að það hefur ekki verið horfið frá henni þegar á þessu þingi gagnvart a.m.k. einum þm. En ég tel, að þar hafi verið um sérstakt tilvik að ræða, vegna þess að sá þm. hefur átt við langvarandi veikindi að stríða og allir vita, að hann stendur í öðrum stórræðum hér í bænum og hefur staðið undanfarnar vikur og varla hægt að ætlast til þess með hliðsjón af heilsufari hans undanfarin ár, að hann gegni jafnviðamiklum störfum og þeim, sem hann nú annast, og sitji jafnframt hér á hinu háa Alþ. Þess vegna hafði mér ekki dottið í hug að finna að þeirri leyfisveitingu, þó að ég telji hana líka hafa verið í ósamræmi við óformlegt samkomulag okkar þingflokksformannanna og þingforsetanna. En alveg sérstöku máli hlýtur hér að gegna um ráðh., eins og líka var rætt á þessum fundi. Jafnvel þó að þm. sé veitt leyfi, eins og hefur komið fyrir einu sinni áður á þessu þingi, vegna anna í borginni, og þó að ekki kæmu til sérstakar veikindaástæður, þá gildir þar öðru máli en þegar um ráðh. er að ræða, vegna þess að venjulega getur varaþm. tekið við störfum þm., eins og á sér stað í hinu tilfellinu, sem ég nefndi, og allir þekkja, þó að ég nefni hér engin nöfn. En varaþm. getur ekki tekið við störfum ráðh. Það þarf væntanlega engrar skýringar við. Ég var einmitt að leggja áherzlu á, að þó að varamaður hæstv. sjútvrh. sé ágætur og hæfur þm., þá getur enginn maður ætlazt til þess, að hann geti staðið hér í sporum ráðh. og svarað fyrir hans hönd, og það geta starfsbræður hans raunverulega ekki heldur, t.d. í því tilfelli, sem hér er um að ræða. Þess vegna þarf að fara sérstaklega varlega í sakirnar, þegar ráðh. biður um fjarvistarleyfi frá Alþ. og setur varamann inn fyrir sina hönd. Þetta hélt ég, að öllum sanngjörnum mönnum ætti að vera ljóst.

Eftir langar viðræður við forseta Sþ. um þetta, þó að hann sé hér fjarverandi í dag, þá veit ég, að ég brýt engan trúnað við hann, þó að ég segi frá því, að hann er sammála því, sem ég hef sagt um þetta. Hann er sammála efni þess, sem ég hef sagt um málið fram að þessu, svo að hér er ég ekki að segja neitt, sem eru einkaskoðanir mínar. Raunar held ég, að þetta séu skoðanir þm. yfirleitt. Í svo mörgum hef ég heyrt um þetta mál. Ég held því fast við, að það hafi verið óeðlileg beiðni af hálfu hæstv. sjútvrh. að fara fram á, að varaþm. tæki sæti hans hér á Alþ„ og í ósamræmi við óformlegt samkomulag þingforseta og þingflokksformanna.

Ég endurtek það til þess að koma í veg fyrir allan misskilning, að það virðist vera tilhneiging sums staðar á sumum hærri stöðum, svo að ég liti nú aftur fyrir mig, til þess að misskilja augljós orð manna. Ég er ekki að deila á forsetana fyrir að hafa veitt leyfið. Ég tel það skyldu þeirra, ef haldið er við bókstaf kosningalaga og þingskapa. Það, sem ég er að gagnrýna, er beiðni ráðh. um að fá að vera fjarverandi í hálfan mánuð og láta varaþm. sitja hér í staðinn fyrir sig. Það er það, sem ég tel vera óeðlilegt og í ósamræmi við gert samkomulag, sem hann sjálfur tók þátt í og þessi hæstv. deildarforseti hér fyrir aftan mig líka.

Nú skal ég láta útrætt um þetta, en snúa mér að hinu, sem hæstv. deildarforseti gerði að aðalatriði í málinu, að dagsetning beiðninnar skipti ekki máli, heldur ákvörðunin um að beiðast þess, að varaþm. taki sæti. Ég tel alveg það sama gilda um hana. Ráðherrafundurinn í Vín átti að standa í tvo daga. Það er mér vel kunnugt um. Ráðh. þurfti því ekki að vera fjarverandi lengur en 4 daga til að geta gegnt embættisstörfum sínum erlendis. Það var líka um það talað á þessum margumrædda fundi, að þó að þm. og þá væntanlega ráðh. líka færu í stuttar embættisferðir til útlanda, jafnvel þó að þær tækju viku eða rúmlega viku, það var skýrt um þetta talað, þá skyldu ekki vera kallaðir varamenn inn í þingið, enda vita allir hv. þm. það núna, að 4 þm., að ég held, eru nýlega farnir í opinberum erindagerðum til funda í Bonn. Sú ferð mun taka um viku, er mér sagt. Það varð samkomulag um það og allir héldu það samkomulag að kalla ekki inn varamenn. Enginn varamaður hefur verið kallaður inn fyrir þá. Hæstv. forsrh. er nú um þessar mundir erlendis. Að sjálfsögðu kemur enginn varamaður fyrir hann, enda fjarvist hans mjög stutt.

Mergurinn málsins er því þessi, að jafnvel þó að við miðum við það, sem hæstv. deildarforseti vill miða við, þann dag, sem hæstv. sjútvrh. ákvað að taka inn varamann sinn, af því að þá ætlaði hann til Vínar í ferð, sem tók 4 daga, var það einnig óeðlilegt. Einnig sú beiðni um varamannssetu var óeðlileg og í ósamræmi við það samkomulag, sem fyrir tæpum mánuði var búið að gera á milli þingforseta og þingflokksformanna. Hvert einasta efnisatriði í gagnrýni minni varðandi þetta mál er því fullkomulega rétt.

Hæstv. forseti Sþ. hefur farið fram á það í viðræðum við mig um þetta vandamál, að ég gangist fyrir því, að formenn þingflokkanna hittist aftur og beri saman ráð sín. Honum er jafnljóst og mér, að hér er vandamál á ferð. Síðan skyldum við hafa samráð við þingforsetana um málið, eins og gert var fyrir rúmum mánuði. Þetta mun ég gera með mikilli ánægju, því að ég hef enga löngun til þess að efna til óþarfa úlfúðar. Það eitt, sem mér gengur til, er, að sé gert samkomulag, þá sé það haldið. Hitt er mér líka mjög umhugað um, að samkomulag um slík mál sé þannig, að Alþ. haldi virðingu sinni, en það gerist ekki öðru sinni, sem gerðist á síðasta þingi, að Alþ. hafði mikla vansæmd af því, hversu margir varamenn tóku hér þá sæti, og ekki aðeins mikla vansæmd í augum þjóðarinnar, heldur torvelduðust þingstörf stórkostlega af þeim sökum, eins og allir reyndust sammála um, þegar við hittumst í vor, flokksformennirnir og þingforsetarnir, og síðan aftur í haust. Hitt er mér ljóst, að það eykur enn á vandann, ef sú regla yrði tekin upp, að ráðh. mæti hér á þingi og taki sæti sitt samtímis því, sem varamaður hans á sæti. Að vísu hefur það oft gerzt áður, að ráðh. hafa, þegar þeir hafa verið í utanferðum, það löngum, að þm. hafa komið inn, ef þeir hafa komið heim tveim, þrem dögum áður en leyfið var útrunnið, komið inn á þing. En þá hefur, að því er mig minnir, aldrei verið um 1, 2 eða 3 daga að ræða.

En mér er jafnljóst og öðrum, að það yrði ákaflega varhugaverð regla, ef það héldi áfram, að ráðh. bæðu um frí vegna anna, væru í bænum, létu varaþm, koma inn fyrir sig og kæmu síðan öðru hverju hingað niður í þing til þess að taka þátt í umr. Þetta væri háttur, sem væri mjög illa til þess fallinn að auka á starfshæfni Alþ. og álit þess meðal þjóðarinnar. Þess vegna er hér um vandamál að ræða, sem að mínu viti algerlega óeðlileg beiðni hæstv. sjútvrh. hefur valdið. Mér er alveg sama um, hvort miðað er við þann tíma, sem hann hringdi austur á land, af því að hann ætlaði til Vínar. Það var óeðlilegt þá. Það var auðvitað enn þá óeðlilegra, að varaþm. kæmi, eftir að ráðh. var búinn að ákveða að hætta við ferðina og að hann skuli skrifa bréfið, eftir að hann er búinn að ákveða að hætta við ferðina. Það eru engin rök, þó að hann hafi áður verið búinn að tala við varaþm. sinn. Hitt skal ég fúslega játa, að úr því sem komið er, þá er hér úr vöndu að ráða.

Uppástunga mín er því sú, að þessari 3. umr. um málið verði frestað, þannig að forsetum þingsins, öllum þremur, og þingflokksformönnum gefist kostur á að ræða þann vanda, sem hér er kominn upp. Vandinn liggur fyrir, og einhvern veginn þarf að greiða úr honum. Það mun áreiðanlega ekki standa á mér að stuðla að því, að úr honum verði greitt á skynsamlegan og sanngjarnan hátt, þannig að þau mistök, sem hér hafa því miður orðið, þurfi ekki að endurtaka sig.