18.10.1972
Neðri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þær yfirlýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf hér áðan, þegar hann sagðist fagna hverri þeirri viðleitni hér á hv. Alþ. og annars staðar til eflingar landhelgisgæzlunni. Það er sérstök ástæða til þess að hugsa um það einmitt nú, þegar verkefni Landhelgisgæzlunnar eru jafnmikil eins og raun ber vitni, hvernig við getum bezt að henni búið, svo að hún geti sinnt því veigamikla verkefni, sem hún á að annast við gæzlu okkar stækkuðu landhelgi. Ég hef á undanförnum árum flutt hér á hv. Alþ. a.m.k. tvisvar sinnum, ef ekki þrisvar, till. í þá átt að efla Landhelgisgæzluna að tækjum, bæði skipum og flugvélum. því miður hafa þessar till. ekki náð fram að ganga, og skal ég ekki fara neitt að rekja það í smáatriðum, en fagna bara þeim aukna skilningi, sem mér virðist koma fram í því frv., sem hér er verið að ræða, hjá ýmsum þeim flm., sem fyrr á árum voru valdamiklir í landsstjórn okkar, en tillöguflutningur minn þá náði ekki eyrum þeirra. Persónulega vil ég stuðla á hv. Alþ. að framgangi allra þeirra mála, sem geta orðið til þess að efla Landhelgisgæzluna, en hvort sú till., sem kemur fram í l. gr. frv., er sú bezta í þessum efnum og hvort þær fjárhæðir, sem þar eru nefndar, séu þær eðlilegustu, skal ég ekki um segja á þessari stundu. Væntanlega kemur þetta mál til hv. sjútvn., þar sem ég á sæti og gefst þá e.t.v. tækifæri til þess að athuga það betur þar.

Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs og vildi fá tækifæri til þess að segja hér örfá orð þegar við 1. umr. um þetta frv., er sú, að í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að heimilt sé að verja árlega allt að 25 millj. kr. af fé Landhelgissjóðs til byggingar fyrir Landhelgisgæzluna á lóð hennar við Selsvör í Reykjavík og til þess að búa henni að öðru leyti framtíðaraðstöðu í landi. Ég er því fyllilega sammála, að það sé nauðsynlegt að byggja upp aðalstöðvar fyrir Landhelgisgæzluna og mér er um það kunnugt, að þær aðstæður, sem hún býr við nú, þarf að bæta mjög verulega. En ég skil þetta frv. þannig, að með samþykkt þess óbreytts, þó að aðeins sé um heimildargrein að ræða, þá sé Alþingi að samþykkja, að höfuðstöðvar Landhelgisgæzlunnar skuli rísa í Selsvör í Reykjavík. Nú veit ég, að á undanförnum mánuðum hefur farið fram athugun á vegum þess rn., sem landhelgismálin heyra undir, á því, hvernig bezt væri leystur sá vandi, sem þarna er fyrir hendi, þ.e.a.s. það vantar húsrými fyrir aðalstöðvar Landhelgisgæzlunnar. Og mér er kunnugt um, að það hefur komið til athugunar, að vel væri hugsanlegt, að aðalstöðvar Landhelgisgæzlunnar kynnu að rísa annars staðar en endilega í Selsvör í Reykjavík. Ég hygg, að enginn hv. alþm. mundi halda því fram, að þær lóðir, sem Landhelgisgæzlan á í Selsvör í Reykjavík, geri það endilega nauðsynlegt, að aðalstöðvarnar rísi þar, því að þær lóðir standa fyllilega í sínu verði og geta hvenær sem réttur eigandi vill selja þær gefið mjög verulegt fé í aðra hönd, sem síðar meir mætti nota til þess að byggja þessar fyrirhuguðu aðalstöðvar Landhelgisgæzlunnar. í mínu kjördæmi í Hafnarfirði hefur komið fram verulega mikill áhugi bæjaryfirvalda á því að fá aðalstöðvar Landhelgisgæzlunnar staðsettar þar. Og mér er kunnugt um það, að af hálfu bæjaryfirvalda hefur ýmislegt verið boðið í þeim efnum til þess að gera það léttara og hagkvæmt fyrir þá starfsemi. sem þarna á að rísa, að vera í Hafnarfirði. Ég vil á þessari stundu vekja alveg sérstaka athygli á þessu. Mér sýnist, að eftir að athugun hefur farið fram og ef það liggur fyrir, að starfsaðstöðu megi tryggja Landhelgisgæzlunni í Hafnarfirði alveg jafngóða og í Reykjavík, þá beri að staðsetja hana frekar þar af mjög einfaldri ástæðu, sem sé þeirri, að það er þörf á því, þjóðfélagsleg þörf á því, að við reynum að dreifa ríkisstofnunum meira um landið en gert hefur verið að undanförnu. Og þó að menn segi, að það sé lítill fjarlægðarmunur frá Reykjavík til Hafnarfjarðar, þá er það að vísu rétt, en hitt er líka rétt, að í Hafnarfirði eru ákaflega fáar ríkisstofnanir staðsettar, sem þjóna landinu öllu. Því endurtek ég það, að ég tel varhugavert á þessari stundu, án þess að þeirri athugun sé lokið, sem er í gangi um það, hvernig eigi að leysa úr þessum vandamálum Landhelgisgæzlunnar, að samþykkja þessa staðarákvörðun, sem kemur fram í frv. Þetta er ekki af neinum illum hug sagt til höfuðborgarinnar, sem ég ann alls góðs, en ég vek bara athygli á þessu atriði, af því að mér er það skylt sem þm. úr Reykjaneskjördæmi, og sem þingmaður úr stjórnarliðinu vil ég minna hæstv. ráðh. á, að eitt af þeim ávæðum, sem í stjórnarsamningnum er að finna, er einmitt það, að reynt skuli að dreifa ríkisstofnunum sem viðast um landið.