23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

68. mál, eignarráð á landinu

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs við umr. um þetta mál og þessa till., er, að mér finnst, að hv. 1. flm. geri nú tilraun til þess að gera lítið úr þessu máli. Hann vekur athygli þingheims á, að hér sé aðeins um þáltill. að ræða, eins og hann orðar það, sem feli í sér ákveðnar framkvæmdir, sem taki langan tíma, og hann vil gjarnan reyna, að því er virðist, að drepa málinu á dreif. Ég vil ekki gera lítið úr þessu máli. Ég tel þvert á móti, að hér sé um að ræða mjög veigamikla till., sem snertir grundvallaratriði, og í sjálfu sér finnst mér ekki óeðlilegt, að slíkar till. séu bornar hér fram, og mætti jafnvel vera meira um slíkar till., ekki vegna þess, að ég sé í sjálfu sér sammála þessari ákveðnu till., langt í frá, heldur hitt, að ég tel, að einmitt þessi vettvangur, hv. Sþ., sé sá rétti til þess, að stjórnmálamenn og þm. beri fram fleiri mál, sem snerta grundvallaratriði í stjórnmálum, og markaðar séu heildarlínur til slíkra till. og slíkra mála. Það er of mikið um það hér á þingi, að menn beri fram till., sem snerta þeirra áhugamál og hagsmunasvið, og er það út af fyrir sig góðra gjalda vert, en það eru mjög afmörkuð mál og oftast nær þess eðlis, að það gæti hvaða þm. sem væri flutt slíkt mál án tillits til stjórnmálaskoðana eða flokka.

Ég hafði ekki hugsað mér að taka hér til máls, en mér finnst þó ástæða til þess út af örfáum atriðum og ekki sízt þeim ummælum, sem féllu af hálfu 1. flm. till., að hann væri fulltrúi 200 þús. manna, meðan þeir, sem töluðu gegn þessu máli, væru fulltrúar 3000 landeigenda.

Hv. 1. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, hafði að einhverju leyti sömu hugsun, þegar hann talaði um, að hér sé verið að verja hagsmuni þeirra fáu, sem landið eiga. Að vísu snýst þessi till. um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum. En enginn vafi er á því, að þetta mál snertir miklu víðara svið, er grundvallarmál og snýst raunverulega um eignarréttinn, um eignarráð á ekki aðeins landi, heldur á öðrum fasteignum, á verðmætum yfirleitt. Spurningin er sem sagt: Hversu mikil eiga eignarráð hins opinbera að vera, hversu verndaður skal eignarréttur einstaklinga vera?

Ég er ekki landeigandi, og ég tel mig ekki vera fulltrúa eða vera í hópi þessara 3000, sem hv. 1. flm. telur, að berjist gegn þessu frv., en ég vil þó taka upp hanzkann fyrir þá, sem standa gegn þessu máli. Ég geri það vegna þess, að hér er um að ræða grundvallarmál, sem snertir eignarréttinn almennt, og ég tel, að ef inn á þessa braut yrði farið, þessi till. t.d. yrði samþykkt, þá yrðu opnaðar flóðgáttir, þá mundi það hafa í för með sér afleiðingar, sem enginn sæi fyrir endann á, þá væri raskað þeim hugmyndum og þeim viðhorfum, sem íslenzka þjóðin hefur til eignarréttarins. Nú er enginn vafi á því, enda þótt hv. 1. flm. vilji gera mínna úr en skyldi, að hér er um að ræða atlögu að eignarréttinum, hér er um að ræða allsherjar þjóðnýtingu, og þótt gert sé ráð fyrir því, að hún eigi sér langan aðdraganda eða komist ekki á fyrr en eftir langan tíma, þá er að sjálfsögðu um þessi „prinsip“-atriði að ræða, eignarrétt eða þjóðnýtingu.

Það var, eins og hv. þm. er að sjálfsögðu kunnugt, 1789, sem mannréttindaskráin var lögð fram og samþ. á þjóðfundi Frakka, og þar var eitt merkilegasta og að þeirra áliti skeleggasta ákvæði um eignarréttinn, þar sem hann var lýstur friðhelgur. Þetta ákvæði var sett inn í mannréttindaskrána á 18. öld til þess að stemma stig við yfirgangi ríkisvaldsins og þeirri misbeitingu, sem átti sér stað í skjóli einokunar og yfirgangsráðandi afla í þjóðfélaginu. Eignarréttur einstaklinga var einskis virtur og svo var komið, að ekki var lengur við það unað, og því var þetta ákvæði eitt af aðalákvæðum mannréttindaskrárinnar 1789. Þetta ákvæði, sem þá var sett inn og vissulega hafði áhrif, hefur síðan verið tekið upp í velflestar stjórnarskrár vestrænna ríkja og er, eins og kunnugt er, í okkar stjórnarskrá tekið óbreytt upp úr dönsku stjórnarskránni þáverandi. Það hefur haldist óbreytt síðan.

Í þessu ákvæði felst sá veigamikli skilningur, að eignarrétturinn sé friðhelgur, það sé ekki heimilt, hvorki fyrir ríki né aðra aðila, að fótum troða eignarréttinn og virða hann að vettugi, Þetta ákvæði hefur verið að sjálfsögðu ómetanlegt í lýðfrjálsu landi og hefur verið vissulega vörn fyrir borgarana gegn hvers konar yfirgangi. Ég held, að það séu engar ýkjur hjá mér, þegar ég held því fram, að það sé eitt af grundvallarlífsviðhorfum Íslendinga almennt, að það skuli virða þetta eignarréttarákvæði.

Nú, þegar borin er fram till. til þál., sem felur í sér allsherjarþjóðnýtingu á landinu, gögnum þess og gæðum, þá felur það í sér breytingu á stjórnarskránni. Mér skilst, að hv. 4. þm. Sunnl. hafi farið um þetta nokkrum orðum, en ég var því miður ekki viðstaddur hans ræðu, svo að vera má, að ég endurtaki eitthvað af því, sem hann sagði áðan. Ég vil þó ekki láta hjá líða að láta þessa skoðun mína koma fram, þá skoðun, að ef þessi till. verður samþ. og á að framkvæmast, þá þýðir það breytingu á stjórnarskránni og þessu ákvæði, sem ég geri hér að umtalsefni.

Nú hefur það verið oft og tíðum matsatriði hjá lögfróðum mönnum, hvernig meta skuli þessi hugtök, eign og eignarrétt. Menn hafa ýmist viljað túlka það þröngt eða vitt, eins og sagt er. Það er líka svo, að í gegnum árin hefur það verið eitt vandasamasta viðfangsefni löggjafans og dómstólanna að túlka þetta stjórnarskrárákvæði. Ég leyfi mér þó að fullyrða, — það er að sjálfsögðu ekki mín einkaskoðun, — að það sé löngu viðurkennt, bæði af fræðimönnum og í framkvæmd, að stjórnarskráin með þessu orðalagi sé í mjög viðtækri merkingu. Í stjórnskipunarrétti sínum vekur prófessor ólafur Jóhannesson athygli á því, að Lárus H. Bjarnason telji, að þetta stjórnarskrárákvæði verji ekki aðeins tiltekna eignarmuni manns, heldur og veðrétt, afnotarétt, kröfuréttindi, einkaréttindi, rithöfundarétt og yfirleitt öll verðmæt réttindi manna. Bjarni Benediktsson, sem viðurkenndur var sem fræðimaður á þessu sviði í stjórnlagarétti, tjáði sig og um þetta í ritum, og hann taldi, að ákvæði þessarar gr. tækju til hvers konar fjárréttinda borgaralegs eðlis, hlutaréttindi, kröfuréttindi, atvinnuréttindi, rithöfundaréttindi og einkaleyfi. Í eignarrétti Ólafs Lárussonar segir m.a. um 67. gr., með leyfi forseta.

„En víst er, að orðið eign er notað í víðtækri merkingu. Það nær ekki aðeins til hins beina eignarréttar að fasteignum og lausafé, heldur og til óbeinna eignarréttinda, eins og veðréttinda, afnotaréttinda, ítaka og kröfuréttinda.“

Síðan segir Ólafur Jóhannesson sjálfur í stjórnskipunarrétti sínum, með leyfi forseta: „Samkv. þeirra áliti „— þessara manna, sem ég hef hér vitnað til —“ er með orðinu eign í 67. gr. ekki aðeins átt við ópersónuleg, áþreifanleg verðmæti, svo sem fasteignir og venjulega lausafjármuni, heldur einnig hvers konar önnur verðmæt réttindi.“

Þennan skilning hafa dómstólar staðfest margsinnis, og þarf vart um þetta að deila frekar. En ef við gefum okkur þá niðurstöðu, að 67. gr. eigi sem sagt við svo víðtækan skilning á eign og eignarréttindum, þá fer ekki heldur á milli mála, að þegar við höfum þessa till. hér fyrir framan okkur og í henni er talað um, að eignarráð og eignarréttindi yfir byggðu sem óbyggðu landi skuli falla til ríkisins, sú grundvallarregla verði mörkuð, að stefnt skuli að því, að allt land verði með tímanum alþjóðareign, eins og segir í 2. lið till., og þegar segir í grg., að íslenzka ríkið geri það að grundvallarstefnumiði, að með tíð og tíma verði landið, gögn þess og gæði, sameign þjóðarinnar, — þegar við höfum þetta í huga, hver tilgangur þessarar till. er, þá liggur ljóst fyrir, að hér er um allsherjar þjóðnýtingu að ræða á eignarráðum yfir landi og öðrum verðmætum, sem fylgja landinu. Þetta fellur því undir 67. gr. Ólafur Jóhannesson segir m.a. í sínum stjórnskipunarrétti um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Það er að vísu rétt, að upphafsákvæði 67. gr. „- þ.e.a.s. um friðhelgi eignarréttarins — „eitt út af fyrir sig setur löggjafarvaldinu litlar skorður. Á meðan það stendur óbreytt, er þó óheimilt að afnema einstaklingseignarrétt með öllu. Allsherjar þjóðnýting sýnist því vart geta átt sér stað að óbreyttri stjórnarskrá.“

Þetta eru orð prófessors Ólafs Jóhannessonar. Þetta er tekið úr þeim stjórnskipunarrétti, sem kenndur er hér í lagadeildinni, og þetta eru skoðanir, sem eru viðurkenndar af fræðimönnum og lögfróðum mönnum almennt. Allsherjar þjóðnýting sýnist því vart geta átt sér stað að óbreyttri stjórnarskrá.

Ef ég held áfram út frá þessum ályktunum mínum og ef þessi till. verður samþykkt, þá þýðir það, að stjórnarskránni skal breytt og þá þessu ákveðna ákvæði, þ.e.a.s. 67. gr. En ef þessu ákvæði er raskað, — þessu grundvallarákvæði til þess að opna þessari till. leið og þeim framkvæmdum, sem hún felur í sér, — hver veit þá, hvað fylgir á eftir? Ef það er vilji löggjafans og þjóðarinnar að breyta ákvæðinu og hleypa þessu áfram, þessari allsherjar þjóðnýtingu, sem þessi till. felur í sér, hver segir okkur þá um það, hvort ekki verið haldið áfram að þjóðnýta aðrar eigur manna, fasteignir, lausafjármuni, atvinnufyrirtæki og yfirleitt önnur verðmæti, sem hingað til hafa verið í höndum einstaklinga og félaga og annarra aðila. Ég óttast afleiðingarnar af þeirri breytingu. En ég held líka, og það er mín bjargföst trú, að þjóðin hafi ekki áhuga á slíkum breytingum. Það er, eins og hefur verið sagt fyrr í þessum umr., lífsviðhorf Íslendinga að standa vörð um eignarréttinn, og þeir vilja ekki víkja frá þeirri grundvallarreglu, sem mörkuð er í stjórnarskránni, og því tel ég litla hættu á því, sem betur fer, að þetta mál nái fram að ganga né slík stjórnarskrárbreyting, sem ég geri hér að umtalsefni. Því er ég þeirrar skoðunar, að enda þótt 1. flm. telji sjálfum sér trú um það, að þeir, sem gegn þessu frv. tali, séu talsmenn 3000 landeigenda í landinu, þá er það mikill misskilningur hjá honum. Þeir, sem tala gegn þessu máli, og þá a.m.k. ég, tala gegn því út frá þessu grundvallarsjónarmiði, og ég held að sú skoðun mín eigi sér hljómgrunn meðal meiri hluta þjóðarinnar.

Hitt er svo annað mál, að margt í þessari till. er þess eðlis, að rétt er að athuga það. Ég vek athygli á því, að þrátt fyrir að ekki þurfi að ganga svo langt að grípa til allsherjar þjóðnýtingar til að koma á einhverjum réttlætismálum, sem e.t.v. felast í þessu frv. og a.m.k. vaka fyrir flm., þá sé hægt að gera það með öðrum hætti. Það eru margs konar lög í landinu, sem hafa falið í sér að takmarka eignarrétt manna, og þarf ekki að fara mörgum orðum til að benda á slík lög. Ég minni á friðunarlög, vatnalög, girðingalög, náttúruverndarlög, skipulagslög, skattalög o. s. frv., sem allt miðar að því að takmarka eignarrétt manna. Og ég held, að þegar við tölum hér um brask á jörðum, þegar við tölum um það, að breyta þurfi reglum um eignarnám, þegar við tölum um, að setja þurfi skorður við veiði erlendra manna, þegar við viljum efla umhverfisvernd o.s.frv., þá getum við gert þetta með almennri löggjöf. Hér var um daginn til umr. till. frá nokkrum þm, um verðaukaskatt, vegna þess að þeir töldu, að óeðlilegur væri sá hagnaður, sem menn fengju af lóðum sínum og lendum, þegar þær hafa hækkað í verði með árunum vegna verðbólgu og annars. Það er út af fyrir sig eðlileg leið og íhugunarverð að setja þarna ákveðin takmörk á afnotum eigna, og þetta er sú leið, sem farin hefur verið almennt af löggjafanum og hefur verið samþykkt af þjóðinni.

Ég vil taka undir þær skoðanir, sem hér hafa komið fram hjá fjölmörgum þm. víð þessa umr., að það sé fráleitt að samþykkja þessa till. Það er gott, að hún kemur hér til umr., sjálfsagt að skiptast á skoðunum um hana, en ég tek undir það, að hún skuli felld, en síðan eigi að snúa sér að því að reyna að búa til og ganga frá löggjöf, sem setur skorður við ýmsu, sem við teljum vera misnotkun og óeðlilegt í þjóðfélaginu, og getur stuðlað að auknu réttlæti og aukinni notkun og nýtingu allra þegnanna á þessu landi.