23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

68. mál, eignarráð á landinu

Flm. (Sigurður Blöndal):

Herra forseti. Við hv. 6. landsk. þm. flytjum hér saman á þskj. 91 till. til þál. um, að alþm. gegni ekki öðrum fastlaunuðum störfum í opinberri þjónustu. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa lög og reglur, sem feli í sér, að alþm. sitji ekki í fastlaunuðum embættum eða störfum á vegum hins opinbera.“

Fyrir þessu vildum við hafa þau orð í upphafi, að á árinu 1971 urðu verulegar breytingar á launakjörum alþm. Laun þeirra hækkuðu svo mikið, að alþm. eru nú launaðir eins og ýmsir þeir embættismenn þjóðarinnar, sem gegna hinum ábyrgðarmestu störfum. Breytingin fól í sér viðurkenningu á því, að þingmennska væri starf, sem launa beri sómasamlega, enda er það skoðun, sem ýmsir reyndustu þm. hafa haldið fram, að starfið á Alþ. og sambandið við kjósendur í kjördæmunum sé orðið svo umfangsmikið, að meira verði ekki af mönnum krafizt, ef leysa eigi það bærilega af hendi.

Þótt þetta tvennt, sjálf launakjör þm. og matið á starfi þeirra hafi breytzt, er annað óbreytt. Opinberir starfsmenn og embættismenn geta eftir sem áður gegnt störfum sínum í orði kveðnu og tekið fyrir allt að 60% launa og aldrei minna en 30% af launum. Augljóst er, að þessi skipan mála er ekki sæmandi. Menn gegna ekki með fullum afköstum tveimur ábyrgðarmiklum störfum, sem þeir taka fyrir laun, þótt skert séu. Á þetta atriði hefur vissulega oft verið minnzt áður, og ég rifja hérna upp til gamans, að í fyrsta skipti heyrði ég þessu haldið fram, þegar ég var hér þingskrifari fyrir meira en aldarfjórðungi. Þá vakti Gísli Jónsson athygli á þessari staðreynd, er hann sem formaður fjvn. var að kvarta undan því, að menn tækju að sér fleiri störf en þeir gætu skilað sómasamlega. Þeim alkunna dugnaðarmanni var einkum umhugað um, að menn ynnu störf sín vel og samvizkusamlega. Allir vita, að sá alþm. núverandi, sem lengst hefur setið á þingi, eða í hartnær hálfa öld, hæstv. forseti Sþ., hefur hér á hinu háa Alþ. hreyft líkum skoðunum.

Starfið á Alþingi, sem hið nýja launakerfi viðurkennir, að sé fullt starf, eða hið opinbera þjónustustarf eða embættisverk hlýtur að líða fyrir þetta fyrirkomulag, nema hvort tveggja gjaldi þess. Mörg dæmi mætti nefna, sem sanna, að störf á Alþ. hafa tafizt, af því að þm. var önnum kafinn í starfi sínu einhvers staðar hér í borginni, og Alþ. er hér sjálft að leggja blessun sína yfir slæleg vinnubrögð í hinum þýðingarmestu störfum. Slíkt eykur eigi virðingu löggjafarsamkomunnar.

Sú spurning kann að vakna, hvort sú skipan, sem till, felur í sér, kunni ekki að leiða til þess, að menn í opinberri þjónustu fælist frá því að gefa kost á sér til þingmennsku. Til þess má auðvitað ekki koma. Það verður að telja eðlilegt og raunar sjálfsagt, að þessir menn haldi fyrri störfum sínum formlega og geti tekið til við þau að þingsetu lokinni, þeim sé jafnvel að öðrum kosti gefin trygging fyrir því að fá a.m.k. sambærilega launuð störf og þeir áður gegndu. En við teljum þó, að tvær undantekningar ættu að vera frá þessu. Dómarar og bankastjórar, sem bjóða sig fram til Alþ., ættu að segja lausu starfi sínu. Það hæfir ekki, að menn í þessum tveimur störfum taki þátt í kosningabaráttu, þótt það hafi tíðkazt. Mig minnir reyndar, að það hafi verið Oscar Wilde, sem tók einu sinni svo til orða, að freistingarnar væru til þess að falla fyrir þeim. En svo illt vil ég ekki þeim mætu mönnum, sem ýmsir hverjir hafa látið undan þeirri gömlu venju að láta ekki þessi störf aftra sér frá þátttöku í stjórnmálum. Í þessu efni tel ég hollara að hafa hina gömlu íslenzku uppeldisreglu að hafa ekki freistingar á glámbekk.

Óhjákvæmilegt væri þó að setja tímatakmörk á það, hve lengi mætti geyma opinbert starf fyrir alþm. Mér dettur í hug, að stytzti tími væri eitt kjörtímabil og lengsti tími tvö.

Í nánum tengslum við þetta er mál, sem ég vil aðeins koma inn á hér, staða ráðh., sem jafnframt eru alþm., og menn hafa hér að undanförnu beyrt talsvert rætt í hinu háa Alþ. Enda þótt þeir haldi óskertu þingfararkaupi auk ráðherralauna, taka þeir ekki þátt í nefndarstörfum á Alþ., sem vissulega er gildur þáttur þingmennskunnar. Það er skoðun okkar flm., að íslendingar ættu að taka upp þann hátt, sem á er hafður í Noregi, að ráðh. víki úr þingsæti, en varamaður taki sætið, meðan ráðherradómur hans stendur, og vona ég, að menn bregði mér ekki um það, að ég sé hér með persónulegan metnað. En auðvitað verður ráðh. eftir sem áður að hafa rétt til þess að sitja þingfundi og taka þátt í umr., eftir því sem hann telur þörf á. Þessi breyting á skipan mála gæti líka réttmætt endurskoðun á launakjörum ráðh., sem vitaskuld eiga að hafa hin hæstu laun, svo sem ábyrgð starfsins og erfiði gefa tilefni til.

Við viljum loks vekja athygli á einu atriði í sambandi við störf alþm. Um leið og þetta er orðið heils árs starf, er ástæða til að nýta starfskrafta þeirra betur en gert hefur verið og stuðla jafnframt að því, að þeir geti rækt það af meira innsæi en verið hefur oft og tíðum til þessa. Hér höfum við í huga þann hátt, sem tíðkaður er víða um lönd, að fastanefndir löggjafarþings starfi í þinghléum, m.a. með því að fara á vettvang víðs vegar um landið til þess að kynnast af eigin raun þeim málum og viðfangsefnum, sem þær eiga að fjalla um. Þetta gæti líka verið gagnlegt til þess að vega upp á móti því sérfræðingaveldi, sem ýmsir hafa haft áhyggjur af í seinni tíð. í nýjum vinnubrögðum þm. af þessu tagi fælist sú grundvallarbreyting á starfi fastanefnda Alþ., að þær ættu sjálfar frumkvæði eða gætu átt frumkvæði að málum, í stað þess, sem tíðkazt hefur, að þær taki aðallega við því, sem að þeim er rétt.

Að okkar hyggju mundi sú skipan mála, sem við höfum hér hreyft, stuðla að aukinni virðingu Alþ. og enn fremur að hinu, að það beri nafnið löggjafarsamkoma enn betur með rentu en verið hefur.

Herra forseti. Ég vil svo, leggja til, að þessu máli verði vísað til hv. allshn.