18.10.1972
Neðri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Það er ekki ástæða til þess að ræða frv. frekar heldur en hv. 1. flm. þess hefur gert. Frv. hefur fengið góðar viðtökur hjá hæstv. forsrh. og öðrum, sem hér hafa talað, og má þess vegna reikna með, að a.m.k. sú fjárupphæð, sem hér er nefnd, verði tekin frá í fjárl. handa Landhelgisgæzlunni. En hvort aðsetur Landhelgisgæzlunnar verður flutt í kjördæmi hv. 2. þm. Reykn., það er svo annað mál. Ég held, að hv. þm. hafi orðið mismæli, þegar hann talaði um þörfina á því að flytja ríkisfyrirtæki út á land. Ég segi þetta ekki vegna þess, að Hafnarfjörður eigi ekki kannske alveg skilið að fá stöðvar Laudhelgisgæzlunnar eða eitthvað annað til sin. En Hafnarfjörður er nærri Reykjavík, og það er sjálfsagt að hafa það í huga, að búið var að byggja yfir Landhelgisgæzluna, og ágætt hefði verið, að Landhelgisgæzlan hefði aðsetur í lögreglustöðinni eða þar við. Það var ekki fyrr en hæstv. núv. ríkisstj. kom til valda, að farið var að tala um mikil þrengsli í stjórnarráðinu, ekki sérstaklega í utanrrn., heldur einnig í öðrum rn. Með því að bæta stöðugt við nýju fólki hefur hæstv. ríkisstj. sprengt utan af sér húsnæðið. Það dugði ekki minna til heldur en það að taka húsnæði, sem Landhelgisgæzlunni hafði verið ætlað og sérstaklega byggt fyrir hana. En ekki meira um þetta. Það var ekki út af þessu, að ég kvaddi mér hljóðs.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að á meðan brezku samningamennirnir voru hér, þá var slakað á vörnum á miðunum. Ég er nú þeirrar skoðunar, að það hafi verið vafasöm ráðstöfun. Ég held, að það hefði verið jafnvel hyggilegra að hafa alveg eins miklar varnir og mögulegt var einmitt á meðan þessir menn voru hér og láta þá sjá, að það er alvara hjá okkur Íslendingum að vernda landhelgina og vinna sigur í landhelgismálinu. En þótt ég sé ekki á sömu skoðun og hæstv. forsrh. í þessu efni, að það hafi átt að slaka á, á meðan samninganefndarmennirnir voru hér, þá vil ég vekja athygli á því, hvað fólst í orðum hæstv. ráðh. Ráðh. sagði, að nú, eftir að samninganefndarmennirnir eru farnir, er farið að gripa aftur til aðgerða, klippa á víra og annað þess konar, og það hefur orðið árekstur á miðunum og mjög alvarlegur árekstur. Við sjáum, að togarasjómennirnir brezku svifast einskis, gera tilraun til þess að sigla niður varðskipin. Vissulega er okkar gæzlulið í mikilli hættu á miðunum. Ég vil taka undir það, sem hæstv. forsrh. sagði, og þakka þeim, sem að gæzlunni vinna. Ég veit, að það stendur ekki á þeim að gera það, sem í þeirra valdi stendur. Skipin þrjú, Ægir, Óðinn og Þór hafa góðan ganghraða og ættu að geta forðað sér undan togurunum, þegar þeir gera tilraun til þess að stíma á þau. En þar er aftur vafasamara með skip, sem ekki ganga hraðar en togararnir. En það ætla ég ekki að ræða nánar að þessu sinni. En þetta, að harka er nú komin í átökin á miðunum, sem ekki átti sér stað, á meðan brezku samninganefndarmennirnir voru hér, það er eftir stefnu forsrh. vegna þess, að slitnað hefur upp úr samkomulagstilraunum við Breta. Ef hugsanagangur hæstv. forsrh. væri rökréttur, þá er varla hægt að leggja annan skilning en þennan í þau orð.

Nú er það þannig, þegar hlustað er á hæstv. forsrh., þá er mjög erfitt að greina, hvort raunverulega hefur alveg slitnað upp úr samningatilraununum. Ég er ekki að mæla með því, að það verði farið að semja við Breta eða Vestur-Þjóðverja um eitthvað, sem er ósæmilegt fyrir Íslendinga. En ég mæli ákveðið og eindregið með því, að það verði reynt á það sem allra fyrst, hvort samkomulagsgrundvöllur er fyrir hendi á sæmandi hátt. Og þess vegna spyr ég að því, hvort ríkisstj. ætli að verða við óskum Vestur-Þjóðverja og hefja samningatilraunir við þá. Er það þannig, að undirbúningsviðræður embættismannanna hér í Reykjavík hafi ekki lagt grundvöll fyrir viðræðum á milli ráðherra landanna? Ég held, að allur almenningur í landinu og reyndar alþm. einnig viti ekki um, hvað hér er um að ræða. Íslendingar standa saman í landhelgismálinu eins og einn maður. En þeir óska þess eindregið, að unnt verði að fá heppilega lausn á málinu sem allra fyrst, lausn, sem væri sigur fyrir Íslendinga. En spurningin er þá þessi: Hefur verið gengið úr skugga um það til fulls, hvort sá möguleiki er fyrir hendi að ná samningum? Það er þetta, sem mig langar til þess að fá að vita. Og það er þetta, sem ég held, að aðrir hv. alþm. vilji fá að vita og þjóðin öll. Og þess vegna er það, að ég óska eftir því, að hæstv. forsrh. gefi upplýsingar um gang málsins.