27.11.1972
Efri deild: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

2. mál, Fósturskóli Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. shlj. því, sem hér liggur fyrir, var flutt á síðasta þingi í þessari hv. d. Frv. kom fram seint á þingtímanum. Því var vísað til menntmn. N. vísaði því til umsagnar nokkurra aðila, og hafa síðan borizt frá þessum aðilum umsagnir, eins og ég mun síðar víkja að.

Frv. gerir ráð fyrir, að Fóstruskóli Barnavinafélagsins Sumargjafar, sem starfræktur hefur verið frá því árið 1946, verði gerður að ríkisskóla. í grg. með frv. er rakinn starfsferill skólans, sem byrjaði með aðeins 9 nemendum fyrsta starfsár sitt, en s.l. haust, þ.e. haustið 1971, voru í skólanum 116 nemendur, og hann hefur nú brautskráð á fjórða hundrað fóstrur. Brautryðjendastarf Barnavinafélagsins Sumargjafar verður seint fullþakkað, en félagið rekur, eins og kunnugt er, dagvistarheimili fyrir börn í Reykjavík og sá fram á það á sínum tíma, og rak það ekki nema 3 barnaheimili þá, að í óefni stefndi, ef ekki yrði unnt að sjá þessum stofnunum fyrir sérmenntuðu starfsliði. Eins og fram kemur í grg. fékk félagið þegar í upphafi góðar undirtektir hjá Reykjavíkurborg, sem hét félaginu fjárveitingu gegn jafnháu framlagi frá ríkinu. Hefur félagið síðan fengið styrk til rekstrar skólans frá ríki og borg, en reyndin hefur orðið sú, eins og einnig er vikið að í aths. með frv., að Reykjavíkurborg hefur í vaxandi mæli borið meiri þunga af rekstrinum en ríkið með því að greiða rekstrarhalla þann, sem Sumargjöf hefur haft af skólahaldinu.

S.l. ár, sem er það seinasta, sem reikningar liggja fyrir um, nam styrkur borgarinnar til Sumargjafar vegna skólans 550 þús. kr. Það ár var hins vegar halli á rekstri Fóstruskólans, sem nam 1.2 millj. kr. Styrkur frá ríkinu var það ár 500 þús. kr. þannig að Reykjavíkurborg lagði skólanum samtals 1750 þús. á móti 500 þús., sem frá ríkinu komu, m.ö.o.: hlutur borgarinnar var á milli þrefalds og fjórfalds hluta ríkisins.

Nú er svo komið, að nemendum utan af landi hefur farið ört fjölgandi við skólann, og voru í undirbúningsdeild haustið 1971 34 nemendur utan af landi, en aðeins 19 úr Reykjavík. Það virðist því orðið tímabært, að ríkið taki að sér rekstur skólans, m.a. vegna þeirrar breytingar, sem orðið hefur í þessum efnum.

Fóstruskólinn hefur allt frá upphafi notið forstöðu núv. skólastjóra, frú Valborgar Sigurðardóttur uppeldisfræðings. Það hefur orðið hennar hlutverk öðrum fremur að móta þessa þörfu menntastofnun á 26 ára þróunarferli hennar, frá því að vera nánast vísir að skóla fram til þess, sem orðið er nú í dag. N., sem undirbjó þetta frv., fól. eins og fram kemur í aths., frú Valborgu að semja drög að frv., og gekk n. síðan frá frv. á grundvelli þeirra draga. Með frv. er gert ráð fyrir, að skólinn starfi framvegis á svipuðum grundvelli og verið hefur, en þó eru í frv. ýmis nýmæli og tekið mið af framtíðarþróun skólans.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um frv., eins og það liggur fyrir, enda fylgir því ítarleg grg., en skal nú víkja að umsögnum þeirra aðila, sem menntmn. óskaði álits frá, en þeir voru Barnavinafélagið Sumargjöf, borgarráð Reykjavíkur og Fóstrufélag Íslands. Umsögn Fóstrufélagsins er stutt, en stjórn félagsins fagnar frv. og óskar eindregið, að það hljóti sem fyrst rafgreiðslu, en gerir ekki aths. við einstakar gr. frv.

Ég skal þá víkja að umsögn Barnavinafélagsins Sumargjafar eða stjórnar þess. Þar er lagt til. að 2. gr. frv. orðist þannig, með leyfi hæstv. forseta.

„Hlutverk skólans er að mennta fólk til uppeldisstarfa á hvers konar uppeldisstofnunum fyrir börn frá fæðingu til 7 ára aldurs, svo sem vöggustofum, dagheimilum, skóladagheimilum, vístheimilum, leikskólum, leikvöllum og forskólabekkjum barnaskóla.“

Í þessu felst m.ö.o. sú breyting á 2. gr., að því verði slegið föstu, að skólinn skuli þegar mennta fólk til starfa á skóladagheimilum og leikvöllum, til viðbótar öðrum stofnunum, sem upp eru taldar í 1. málsl. gr., en í frv. er hins vegar lagt til, að heimilt sé að fela skólanum það hlutverk. Í grg. með till. stjórnar Sumargjafar segir um 2. gr. og þá breytingu, sem félagið leggur til, að á henni verði gerð: „Nú þegar starfrækir Barnavinafélagið Sumargjöf tvö skóladagheimili á vegum borgarinnar, og er ekki annað að sjá en fóstrumenntun henti fyrir starfslið skóladagheimila ásamt með kennaramenntuðu fólki.“

Þá leggur Sumargjöf til, að aftan við 5. gr. frv. komi ákvæði þess efnis, að skólinn skuli, svo fljótt sem við verður komið, mennta fólk, sem sé til aðstoðar fóstrum á barnsheimilum og víðar. Um námstíma og starfssvið verði nánar ákveðið í reglugerð. Um þessa till. sína segir stjórn Sumargjafar: „Svo sem kunnugt er, er mikil vöntun á menntuðu starfsliði á barnaheimilin, og má m.a. benda á, að nokkrar deildir á barnaheimilum Sumargjafar eru reknar, án þess að lærð fóstra sé fyrir hendi. Þá skal á það bent, að langflestar deildir hafa aðeins eina lærða fóstru, en með henni starfar fóstrunemi eða annar starfskraftur. Enda þótt þetta fyrirkomulag hafi tíðkazt, verður að telja hæpið, að í framtíðinni verði hægt að láta fóstrunema vinna svo sem gert hefur verið. Að mati stjórnar Sumargjafar er ekki nauðsynlegt, að allir starfsmenn á barnaheimilum hafi jafnmikla menntun að baki, og því er í breytingum þessum gert ráð fyrir fóstruliðum, sem starfi með fulllærðum fóstrum.“

Þá skal ég víkja að umsögn fræðsluráðs Reykjavíkur, sem borgarráð samþykkti á fundi sínum 10. þ.m. og sendi áfram til n. Þær breytingar, sem fræðsluráð leggur til, eru þessar:

Við 2. gr. er till. um breytingu, sem er alveg shlj. till. stjórnar Sumargjafar, sem sé að leikskólar og dagheimili bætist inn í upptalninguna í 1. málsl. gr., eins og hún er í frv. Segir fræðsluráðið svo um þessa breytingu:

„Í frv. til l. um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagheimila, 17. gr., er gert ráð fyrir, að starfslið sem annast fóstrunarstörf, skuli hafa hlotið fóstrunarmenntun. Af því leiðir, að skóladagheimili á að vera í þeirri upptalningu, sem um getur í 2. gr. frv. um Fósturskóla Íslands.“ Enn fremur segir: „Starf á leikvöllum er mjög mikilvægt og eðlilegt, að gæzlukonur þar fái sömu menntun og fóstrur eða hliðstæða. Er því lagt til. að leikvellir bætist í áðurgreinda upptalningu.“

Í öðru lagi leggur fræðsluráð til, að 6. gr. frv. orðist þannig: „Fósturskólinn skal hafa náið samband við Kennaraháskóla Íslands, m.a. um framhaldsmenntun fóstra. Skal kveða nánar á um það og tengsl milli skólanna í reglugerð“. Það, sem þarna er lagt til, er, að aftan við 1. málsl. í 6. gr. bætist orðin: „m.a. um framhaldsmenntun fóstra“. Um þetta segir fræðsluráðið í grg. fyrir till. sínum:

„Þörf fyrir fóstrur til starfa við uppeldi afbrigðilegra barna, svo sem vangefinna, heyrnarskertra og hreyfilamaðra, taugaveiklaðra og fjölfatlaðra, er mjög brýn hér á landi. Nauðsynleg þjónusta við afbrigðileg forskólabörn og foreldra þeirra verður væntanlega byggð upp á næstu árum, og þá verður að vera völ á nægilega mörgum sérhæfðum fóstrum til þeirra starfa. Fóstrum þarf því að tryggja inngöngu í væntanlegar framhaldsdeildir í kennslu og meðferð afbrigðilegra barna við Kennaraháskóla íslands og samræma starfshætti beggja stofnana með tilliti til þess. Enn fremur væri æskilegt að fóstrur ættu kost á að auka við menntun sína í kennslu og uppeldisfræðum við Kennaraháskólann. Athuga þyrfti, á hvern hátt eðlilegt væri að skipa þessum málum, og kveða á um það í reglugerðum beggja skólanna.“

Að fengnum þessum umsögnum hefur menntmn. orðið sammála um brtt., sem hún flytur á þskj. 113, og ég skal þá fara nokkrum orðum um þessar brtt.

1. brtt. n. er við 2. gr. frv., að hún orðist svo sem þar segir. Sú breyting, sem í þessu felst, er, að í upptalningu í fyrri málsl. gr. er bætt leikvöllum. Þegar til álita kom að verða að öllu leyti við till. fræðsluráðs og stjórnar Sumargjafar; sem sé um að bæta bæði leikvöllum og skóladagheimilum inn í upptalninguna, komu ákveðin atriði til athugunar. Fyrst var það, að það var að sjálfsögðu ekki hægt að nota það orðalag, sem lagt var til, vegna þess að 1. málsl. miðast við stofnanir fyrir börn frá fæðingu til 7 ára aldurs og leikvellirnir falla auðvitað þar undir, en þegar á skóladagheimílin kemur, þá er þar um aðra aldursflokka að ræða, þ.e. börn sem eru komin yfir þennan aldur, komin á skólaskyldualdur. Það var m.a. rætt við skólastjóra Fóstruskólans, að vísu utan fundar, um þessa till., — eða mér, ég átti viðtal við hana um þetta atriði, — þá var mér tjáð, að það hefði verið með vilja gert að hafa í heimildarformi það hlutverk skólans að annast menntun fólks til starfa á skóladagheimilum og leikvöllum. Nú má segja, að eðlilegt sé, að menntun gæzlukvenna á leikvöllum sé nokkurn veginn sú sama og fyrir barnaheimilin, sem eru fyrir þessa yngstu aldursflokka, og með viðbótar- eða valnámskeiði á síðasta námsári mætti veita fóstrunum þá fræðslu, sem talið yrði æskilegt, að þær hefðu, ef þær hugsuðu sér að leggja fyrir sig gæzlustörf á leikvöllum. Um skóladagheimilin gegnir nokkuð öðru máli, vegna þess að þar þarf að mennta starfslið fyrir aðra aldursflokka barna. Að vísu mun margt vera sameiginlegt um menntun þeirra, sem starfa á skóladagheimilunum og á stofnunum fyrir yngri börn, en það var álit skólastjórans, að undirbúa þyrfti það mál og þyrfti að fá sérmenntað starfslið til að kenna þessum fóstrum það, sem frábrugðið væri þeirra almennu menntun, sem einnig á við yngri aldursflokkana, og því hefði það verið með vilja gert að hafa þetta í formi heimildarákvæðis, því að skólinn yrði a.m.k. eins og stendur tæpast við því búinn að taka að sér þetta hlutverk, en að sjálfsögðu yrði þá að því stefnt að undirbúa það, að menntun slíks starfsliðs gæti einnig farið fram í skólanum.

Þá er 2. brtt. n. Hún er í samræmi við ábendingu Barnavinafélagsins Sumargjafar um, að aftan við 5. gr. bætist: „Jafnframt skal skólinn, svo fljótt sem því verður við komið, annast menntun fólks, er sé til aðstoðar fóstrum.“ Ég sá ekki fyrr en í dag þskj. með brtt., eftir að þær voru komnar úr prentun, og sé, að þarna hefur fallið niður niðurlagið á þessari brtt., sem er svo hljóðandi: „Um námstíma og starfssvið skal kveða nánar á í reglugerð.“ Ég hef gert ráðstafanir til þess, að þskj. verði prentað upp með þessari viðbót, sem fallið hefur þarna út, en það mun að sjálfsögðu ekki takast að útbýta því svo breyttu á þessum fundi. En ég vænti þess, að hv. forseti sjái sér fært að bera upp brtt. með þessari viðbót, sem nú hefur verið lýst og mun koma á endurprentuðu þskj.

Um þessa brtt. hef ég engu við að bæta það, sem fram kemur í umsögn Barnavinafélagsins Sumargjafar.

Þá er 3. brtt., við 6. gr. frv. Hún er í samræmi við áhendingu fræðsluráðs Reykjavíkur að bæta þarna inn í orðunum „m.a., um framhaldsmenntun fóstra“. Við töldum eðlilegt að taka inn bessa brtt., þótt að sjálfsögðu hafi þetta verið haft í huga við samningu þessarar gr., menntun fóstranna.

Þá er 4. brtt., sem er við 7. gr., að í stað þess, að skólanefnd sé skipuð til þriggja ára komi: fjögurra ára. Var það mat manna, að það væri í samræmi við ýmis önnur sambærileg ákvæði í okkar skólalöggjöf.

Ég kem þá að síðustu brtt. við 10. gr. Efnisbreyting er þar engin, það er einungis orðalagsbreyting, og ábending um þetta kom reyndar fram frá Barnavinafélaginu Sumargjöf, án þess að henni fylgdi sérstakur rökstuðningur. Það var mat manna í menntmn., að hugsanlegt væri, að það ylli einhverjum misskilningi að telja upp þessi inntökuskilyrði í tveim liðum, og væri eðlilegra að fella þau saman í einn tölul. eins og gert er í brtt. B- liður 5. brtt. er eingöngu afleiðing af þeirri breytingu, sem í a-liðnum felst.

Ég hef þá gert grein fyrir brtt. n. En við nánari yfirlestur frv. hefur komið í ljós, að þar er röng greinatilvitnun í einni gr. Í 8. gr. frv. stendur í 2, málsl.: „Nemendaráð kýs fulltrúa í skólaráð, sbr. 6. gr.“ Sú tilvitnun á að vera í 7. gr., þar sem raðir um skólaráð og fleira varðandi innra skipulag skólans. Ég leyfi mér því fyrir hönd menntmn., — þó að ég hafi ekki getað ráðfært mig við alla meðnm. mína, þá veit ég, að við erum öll sammála um þessa brtt., sem er eingöngu leiðrétting, — en ég leyfi mér fyrir hönd n. að leggja fram þá skrifl. brtt. að í stað orðanna „sbr. 6, gr.“ í 2. málsl. 8. gr. komi: sbr. 7. gr.

Ég hef þá, hæstv. forseti, rakið efni frv. að nokkru leyti og umsagnir og gert grein fyrir þeim brtt., sem n. flytur við frv. Ég vil að lokum taka það fram, að n. mun milli 2. og 3. umr. hafa ákveðin atriði frv. til enn frekari athugunar. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 112, var einn nm., Jón Árm. Héðinsson, fjarstaddur, þegar málið var afgreitt úr nefndinni.