27.11.1972
Neðri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

93. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. ýkjamikið. Það var spurt að því, í hverju þetta jaðarvandamál væri fólgið. Ég þóttist hafa skýrt það út hér áðan. Ég benti á þann einfalda hlut, að tekjutryggingin er miðuð við það fólk, sem ekki hefur neinar tekjur frá öðrum en almannatryggingum. Það er þessi hópur, sem verið var að aðstoða og verið að tryggja, að það fólk, sem bjó við erfiðust kjör í þjóðfélaginu, lyftist upp á tiltekið tekjustig. Með þessu er auðvitað ekki tekinn neinn réttur frá mönnum, sem hafa haft og hafa einhverjar smáræðistekjur. Það liggur í hlutarins eðli. Það er ekki verið að taka neinn rétt af þessu fólki. Jaðarvandamálið er hitt, hvort við eigum að hafa þessa tekjutryggingu víðtækari, hvort hún á að ná til stærra hóps, hvort það er fleira fólk en þetta, sem við eigum að aðstoða á þennan hátt. Í þessu er vandinn fólginn. Þetta er spurning um fjármuni og félagslega aðstöðu. Er þetta nauðsynlegt? Þurfum við að gera þetta? Og hvar eigum við þá að afla fjármunanna til þess? Hitt er mikil fjarstæða, að verið sé að taka rétt af nokkrum manni með þessu. Það liggur í hlutarins eðli, það er ekki gert.

Hv. þm. Bragi Sigurjónsson sagði, að ég hefði viðurkennt, að lög um almannatryggingar hefðu verið sett, áður en núv. ríkisstj. tók við, og hún hefði síðan tryggt það, að þau tækju gildi. Þetta er alveg rétt. Í tíð fyrrv. ríkisstj, fluttum við þm. stjórnarandstöðunnar á einu þingi eftir annað till. um umbætur í almannatryggingamálum, og þær voru í sífellu felldar af þm. Alþfl. og Sjálfstfl. Svo leið að kosningaþingi, síðasta þingi fyrir kosningar, og þessir stjórnarflokkar gerðu sér ljóst, að mannorð þeirra á sviði trygginga var orðið heldur bágborið. Þá var gripið til þess ráðs að láta samþykkja á Alþ. lög fyrir kosningar, en lögin áttu ekki að taka gildi fyrr en eftir kosningar. Tilgangurinn með þessum einkennilegu vinnubrögðum var sá að geta flíkað lögunum án þess að þurfa að afla nokkurra peninga til þess að framkvæma þau, því að það fylgdu ekki þessari lagasetningu nokkur ákvæði um það, hvar ætti að taka fjármunina til að framkvæma þessi lög. Þetta var sýndarmennska af allra ómerkilegasta tagi. Ég held, að Alþ. Íslendinga hafi sjaldan stigið niður á lægra stig en þegar það framkvæmdi vinnubrögð af þessu tagi, því að þarna var einvörðungu verið að reyna að blekkja hv. kjósendur. En það var farið svo gróflega í þessar sakir, að ég held, að það séu ákaflega fáir, sem létu blekkjast af þessum vinnubrögðum.

Því var haldið fram hér áðan, að ég væri að halda því fram að umbætur í tryggingamálum væru mitt verk, síðan væri það fjmrh., sem stæði í því að leggja byrðar á fólk í þessu sambandi. Þetta er að sjálfsögðu mikil firra. Það var sammæli allrar ríkisstj., allra flokka, sem að henni stóðu, að gera endurbætur á almannatryggingunum eitt af veigamestu framkvæmdamálum sínum þegar í upphafi. Og ríkisstj. gerði sér það vissulega ljóst, að til þess að framkvæma þessar endurbætur, sem urðu einhverjar þær mestu, sem gerðar hafa verið í sögu almannatrygginga á Íslandi, þyrfti að afla mikilla fjármuna. Ef ég man rétt, voru þær breytingar, sem komu til framkvæmda um síðustu áramót, metnar í kringum einn milljarð á ársgrundvelli. Að sjálfsögðu er ekki hægt að verja slíku fé til viðskiptavina almannatrygginganna, nema þeir fjármunir séu frá einhverjum öðrum teknir. Ef það er ekki gert, þá eru slík framlög einvörðungu ávísun á aukna verðbólgu. Auðvitað þurfti að taka þessa fjármuni með sköttum af þeim, sem höfðu betri efni í þjóðfélaginu. Þetta hefur ríkisstj. gert, og það er engin ástæða til að draga neina fjöður yfir, að þar þurfti að færa til fjármuni í þjóðfélaginu, til þess að hægt væri að rétta hlut viðskiptavina almannatrygginga, eins og gert hefur verið.

Það er alveg rétt, að það kom í ljós í samhandi við skattalög, að það voru lagðir of þungir skattar á aldrað fólk. Ríkisstj. leiðrétti þessi ákvæði og viðurkenndi, að henni hefðu orðið á mistök. Hins vegar skulum við gera okkur alveg ljóst, að það er ekki allt gamalt fólk á Íslandi, sem býr við slík kjör, að það þurfi að undanþiggja það sköttum. Það er þó nokkur og sístækkandi hópur af öldruðu fólki á Íslandi, sem hefur býsna háar tekjur t.a.m. embættismenn, sem hafa verið í hálaunuðum embættum og njóta þar mjög myndarlegra eftirlauna, sumir úr mörgum sjóðum meira að segja. Ég þekki dæmi um menn, sem hafa sennilega meiri tekjur, eftir að þeir hættu störfum, en þeir hafa nokkurn tíma haft áður á lífsleiðinni. Þessi hópur er anzi stór og hann fer stækkandi. Við skulum einnig gera okkur ljóst um lífeyrissjóðakerfið, þegar þessi frumskógur, sem núna er, — sem á sér sínar sögulegu forsendur, — þegar hann verður færður í endanlegt kerfi, sem hlýtur að gerast fyrr eða síðar, þá hljóta lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingum og þessir lífeyrissjóðir að falla saman í heildargreiðslu, og einmitt af þeim ástæðum munu þessi jaðarvandamál, sem um hefur verið talað hér, fara minnkandi sem betur fer.

Um það var spurt, hvers vegna ég hefði ekki flutt till. um lausn á þessum vanda. Ég hygg, að allir hv. þm. viti, að það er starfandi n., sem fjallar um endurskoðun á almannatryggingakerfinu í heild. Þessi n. hefur m.a. skilað frv., sem var lagt á borð þm. í dag, og þessari n. hefur verið falið að fjalla um þetta mál ásamt öðrum. Það er ætlunin að skoða allt tryggingakerfið og reyna að leggja niður fyrir sér, hvernig skynsamlegast sé að framkvæma það við okkar aðstæður, og ekki sízt á þann hátt, hvernig hægt er að tryggja það, að þeir miklu fjármunir, sem renna til Tryggingastofnunarinnar, komi fyrst og fremst þeim að gagni, sem þurfa á þessum fjármunum að halda. Ég er hræddur um, að það sé hægt að gagnrýna tryggingastarfsemina einmitt fyrir það, að þó nokkur hluti af útgjöldum hennar rennur til fólks, sem þarf ekki mjög mikið á slíkri aðstoð að halda, og það væri hægt með breyttum reglum að bæta til muna fyrirgreiðslu við þá, sem þurfa á bótum að halda, án þess að heildarútgjöld trygginganna þurfi að aukast af þeim sökum. Þetta held ég, að rétt sé, að n. skoði í einni heild, í stað þess að verið sé að leggja hér inn á þing till. um einstök framkvæmdaatriði. í þessari n. eru fulltrúar tilnefndir af öllum þingflokkum, þannig að flokkarnir hafa ákaflega góð tækifæri til þess að koma á framfæri till. sínum og hugmyndum innan n. Þegar þessi n. hefur lokið störfum, skal sannarlega ekki á því standa, að till, hennar verði lagðar hér fyrir Alþ., ef ég gegni þá áfram þeim störfum, sem ég gegni nú.