27.11.1972
Neðri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

93. mál, almannatryggingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hluti af ræðu hæstv. heilbr: og trmrh. áðan olli mér sárum vonbrigðum. Ég gleðst þó yfir þeim hluta ræðu hans, sem fjallaði um mæðralaunin og framkvæmd á þeim ákvæðum, og þar erum við í einu og öllu sammála. Að því er það ákvæði frv. okkar varðar, sem fjallar um tekjutryggingu til aldraðra og öryrkja, kveður aftur á móti við annan tón. Það olli mér miklum vonbrigðum, að hæstv. ráðh. skyldi bregða hér á það gamalkunna ráð að fara að álasa stjórnarandstæðingum um fortíðarávirðingar, án þess að renna nokkrum stoðum undir þær fullyrðingar. Ég mun ekki fara út í karp um þá hluti. Mér þykja þær fullyrðingar, sem fram komu, svo fjarri lagi, og veit, að hver sem hefur fylgzt með þróun mála hér síðasta hálfan annan áratug veit, hve hér var farið með staðlausa stafi og getur raunar metið það bara með því að horfa á staðreyndir og þarf hvorki fullyrðingar mínar né hæstv. ráðh. þar um.

Hæstv. ráðh. gat um ýmsar umbótatill. frá honum og flokki hans, sem hefðu verið felldar. Það eru ótalmargar umbótatill. á sviði almannatrygginga, sem hægt er að bera fram og við vitum, að verða felldar. Við gætum lagt til, að allir fái 10 þús. kr. í örorkulífeyri undireins eða frá næstu áramótum, eða 12 þús. kr. eða 15 þús. kr. Svo getum við komið hér aftur og aftur, ár eftir ár, og sönglað það yfir þingheimi, að þessar ágætu till. okkar hefðu verið felldar af því samvizkulausa stjórnarliði, sem lét sér detta í hug að vera á móti svona ágætum umbótatill. En það er ekki þetta, sem okkur greinir á um. Við erum öll sammála um, að það þarf að bæta hag þess fólks, sem ég nefndi. Þó að hæstv. ráðh. gangi svona skelegglega fram í því að halda fram, að ríkjandi ástand í þessu sé rétt, þykist ég vita, að honum finnist, að þarna megi margt betur fara. Ég vil ekki trúa því, að það, sem hann nefndi hér áðan, að hann fyndi frv. okkar til foráttu, sé hans hjartans meining. Ég bið hann að skoða hug sinn grannt hér á eftir, þegar hann hefur jafnað sig eftir þennan fund, drukkið kaffisopa og fengið gott meðlæti hér niðri. Þá þykist ég vita, að hann sjái, að þessar hugmyndir, sem við höfum borið fram, geta varla hóflegri verið. Við leggjum ekki til neinar tölulegar hækkanir. Við vitum þó, að frv. okkar kemur til með að hafa einhvern kostnað í för með sér.

Hæstv. ráðh. sagði hér sjálfur áðan, að hægt væri með vissum tilfæringum innan tryggingakerfisins, eins og það er, að bæta hlut þeirra bótaþega, eða einhverra þeirra bótaþega, sem þess þyrftu, án þess að auka útgjöldin. Ég vona, að hæstv. ráðh, hafi þessi ummæli sín fast í huga. Það mun vera alveg rétt., að búi hann yfir þessum ráðum, þarf fyllilega á þeim að halda. Við hefðum getað borið fram till. um miklar hækkanir á lífeyri, stóraukna tekjutryggingu og að ákveðnar tekjur fólks, kannske 12 þús. kr. tekjur, kæmu alls ekki til skoðunar, þegar tekjutrygging væri útborguð, o.s.frv. Við vitum hins vegar, að til þess að þetta sé hægt, þarf að taka peninga einhvers staðar frá. Ég stend í þeirri meiningu, að þetta sé ábyrg stjórnarandstaða. Ef við erum að gera till. um stórútgjöld, megum við gjarnan hafa í huga, að það verður að vera hægt að framkvæma þessar till. Ég spyr, hvort hæstv. ráðh. hafi haft þau úrræði á takteinum, þegar hann bar fram till. sínar, sem hið ljóta lið í Sjálfstfl. og Alþfl. felldu fyrir honum í tíð fyrrv. stjórnar. Síðan hefur ýmislegt breytzt.

Hæstv. ráðh. gagnrýndi hér mjög, að þegar almannatryggingal. voru samþykkt vorið 1971, hafi ekki legið fyrir nákvæmar áætlanir, um fjáröflun. Hann, taldi þó, að átt hefði að framkvæma þau þá strax. l. fólu í sér ákvæði um, að þau ættu að koma til framkvæmda um áramótin og yrðu vitanlega fjárlög næsta árs miðuð við þau útgjöld, sem l. gerðu ráð fyrir. Þetta fannst hæstv. ráðh. gróft hneyksli. En hvernig var afgreiðsla fjárl. hér á hv. Alþ. í fyrra? Þá fengum við þær upplýsingar, að tekjuhallinn ætti að greiðast með tekjum, sem síðar yrði ákveðið, hvernig ætti að afla. Það var ekki hneyksli!

Ég held, að við gætum bætt umr. hér á Alþ. talsvert með því að vera ekki að slá fram hvað eftir annað atriðum eins og þeim, sem komu fram í ræðu hæstv. ráðh., t.d. þess efnis, að engar umbætur í tryggingamálum hafi verið gerðar á 12 ára stjórnartímabili Alþfl. og Sjálfstfl. Fyrir hverja er hæstv. ráðh. eiginlega að tala? Heldur hann, að fólk hafi ekkert fylgzt með? Svona tal, held ég, að við gætum alveg að skaðlausu lagt niður. Við skulum heldur reyna að líta á málefnin, sem til umr. eru, athuga, hvort ekki gæti jafnvel leynzt svo heiðarleg hugsun hjá þessu illþýði í Sjálfstfl., að verið sé að bera fram af góðum hug till. til umbóta á mjög erfiðu máli. Vissulega er hér um að ræða erfitt mál í framkvæmd. Það hefur hæstv. ráðh. sjálfur áreiðanlega oft rekið sig á. Mér er mætavel ljóst, að þessi mál eru í endurskoðun í stjórnskipaðri nefnd. Það þýðir ekki, að þm. eigi að hætta að nota frumkvæði sitt til flutnings mála. Ef þeim dettur í hug einhver lausn á málum, sem þeir telja, að geti verið til bóta án þess að stofna fjárhag ríkisins í voða, eiga þeir að bera fram till., hvort sem till. verður svo afgreidd hér eftir hálfan mánuð, þrjár vikur, mánuð eða jafnvel tvo mánuði. Aðalatriðið er, að málið verði leiðrétt.

Hæstv. ráðh. eyddi löngum tíma í að hæðast að umbótaáhuga okkar. Hann um það. Ef hann kýs að láta þær hugrenningar sínar koma hér fram og getur ekki haldið þeim í skefjum, verð. um við að láta þær yfir okkur ganga. En ég legg eindregið til, að við reynum að athuga þær umbótatill., sem fram koma, af góðum hug og skilningi.

Hæstv. ráðh. talaði um, að við hefðum undarlegt viðhorf til vinnunnar. Þessi tillöguflutningur okkar væri nánast merki um það, að við teldum vinnuna svo mikið höl, að það yrði að áreiða fé fyrir vinnuna. Hvaða hugmyndir hefur hæstv. ráðh. og flokkur hans um launapólitík? Mér hefur virzt, að þeir teldu, að menn ættu að fá greitt fyrir vinnu sína. En það er kannske öðruvísi, þegar maður er orðinn 67 ára eða hefur takmarkaða orku? Þá er vinnan svo mikil blessun, að hann á ekki að vera að hugleiða það, hvort greitt er fyrir hana eða ekki. Það var einu sinni fyrir mörgum árum kveðin vísa:

Ó, hve margur yrði sæll

og elska mundi landið heitt,

mætti hann vera í mánuð þræll

og moka skít fyrir ekki neitt.

Þetta telur hæstv. ráðh., að sé það, sem muni gilda um hina öldruðu sveit, sem við erum hér að ræða um. Við teljum, að það sé réttur þess fólks, sem af takmarkaðri orku sinni ver tíma til starfa, að fá greitt fyrir þau. Ég þykist þess viss, að þegar hæstv. ráðh. skoðar hug sinn, sé hann því sammála, og þótt orð hans féllu einhvern veginn svona hér í ræðustól áðan, trúi ég því ekki, að það sé einlæg meining hans. Við teljum líka, að þau ákvæði um greiðslu tekjutryggingarinnar, sem almannatryggingal. hafa að geyma, feli í sér rétt handa því fólki, sem þar er um að ræða. í lagaákvæðinu stendur, að þegar svo standi á, að tekjur bótaþega séu ekki, eins og nú er, aðrar en ellilífeyririnn, skuli viðkomandi bótaþega greidd þar sú viðbót, sem við köllum tekjutryggingu. Þetta er sem sé skylda Tryggingastofnunarinnar og réttur bótaþegans. Það, sem við leggjum til er, að þegar bótaþeginn hefur nokkrar tekjur, sem við greinum nánar í okkar frv., sé það skylda Tryggingastofnunarinnar að greiða honum tekjutryggingu og það sé réttur hans að fá þessa tekjutryggingu. Þess vegna get ég ekki séð, að það sé rangt hjá okkur, eins og hæstv. ráðh. segir, að tala um, að þær tekjur, sem bótaþeginn núna kunni að vinna fyrir eða hafi úr lífeyrissjóði, valdi honum réttarskerðingu. Það er eðlileg notkun á mæltu máli að segja, að hver króna, sem bótaþegi, sem á rétt á ellilífeyrí, vinnur sér inn núna, skerði rétt hans til tekjutryggingar. Það er enginn vafi á því, að sá, sem vinnur sér inn 2000 og hefur ellilífeyri, fær 2000 kr. minna en ella væri í tekjutryggingu. Hitt er svo annað mál, að mér hefur aldrei dottið í hug að halda því fram, að það sé ekki góð meining í þeirri hugsun að tryggja tekjulágu fólki lágmarkstekjur, eins og ákvæðið hljóðar í tryggingal. Við erum öll sammála um, að það sé nauðsynlegt. En við viljum láta laga þetta ákvæði þannig, að það dragi úr þeim biturleika, sem framkvæmd þess getur því miður haft í sumum tilfellum, að því er varðar suma bótaþega, sem örlitlar tekjur hafa.