27.11.1972
Neðri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

93. mál, almannatryggingar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mjög í þessar umr., en mér finnst einhvern veginn sem sumir hv. þm. hafi í raun og veru ekki gert sér ljóst, hvernig þessi tekjutrygging í sjálfu sér var til komin, þegar lögin voru samþykkt hér 1970 og breyting síðan gerð um áramótin síðustu. Það var þannig, að á undanförnum 2–3 árum voru stórir hópar að fá lífeyrissjóðsréttindi, t.d. verkamenn og bændur. Það voru samt sem áður ýmsir í báðum þessum hópum, sem lífeyrissjóðsgreiðslurnar náðu ekki til, og var verið að hugleiða það, hvernig hægt væri annaðhvort að breyta lífeyrissjóðsl. þessara starfshópa eða tryggja þeim á einhvern annan hátt tekjutryggingu. Ef þessi lög áttu að ná til allra, til hvers var þá verið að hafa þessa tekjutryggingu? Því var þá ekki bara hækkuð sú greiðsla, sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar fengu? Það var verið að tryggja einmitt því fólki, sem hafði engar tekjur nema ellilaunin, vissa lágmarksgreiðslu með þessu móti.

Mér fannst það dálítið einkennilegt, þegar hv. þm. Bragi Sigurjónsson var að tala um hér áðan, að hann hefði lagt það til, að tekjutryggingin 1970 væri 120 þús. eða 10 þús. á mánuði. Það vill nú svo til. að við vorum báðir í heilbr.- og félmn., og ég er einmitt með fyrir framan mig þskj. frá meiri hl. þeirrar n., þar sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson var fundaskrifari, og þar leggur hann til. að frv. sé samþ. óbreytt, þ.e.a.s. með 84 þús. kr. tryggingu. Það vildi svo til. að ég var einmitt frsm. minni hl. þessarar n. og minni hl. lagði til, að upphæðin væri miklu hærri eða það, sem hún er nú. Við gerðum ýmsar aðrar brtt. við þetta frv., sem voru felldar af þeim meiri hl., sem þá var, t.d. þá, að ekklar fengju sama rétt og ekkjur, en skv. frv. var ekki skylda að borga þeim barnalífeyri, þeir gátu fengið hann undir vissum kringumstæðum, skv. heimildarákvæði. Þetta var aftur lagfært síðar. Á síðustu fjárl. viðreisnarstjórnarinnar voru 3 milljarðar og 144 millj, lagðar til tryggingamála. En á fyrstu fjárl. þessarar ríkisstj. voru 5 milljarðar og 743 millj. lagðar til þessara mála, og miðað við þær till., sem eru í því fjárlagafrv., sem liggur nú fyrir, eru þetta 6 milljarðar og 674 millj. Ef fólk sér ekki, að allmikil breyting er á þessum árum, veit ég ekki, hverju fólk tekur eftir. Það má draga frá þessari upphæð 764 millj., þ.e.a.s. það, sem ríkissjóður tók frá sveitarfélögum og einstaklingum, sem þau greiddu áður. En fyrirhuguð er hér um bil tvöföldun á greiðslum til þessara mála á árinu 1973 að óbreyttum Íögum.

Það er auðvitað ýmislegt, sem þyrfti að lagfæra og æskilegt væri, að lagfært yrði í lögum um almannatryggingar. En það er bara spurning, hvað hægt er að ganga langt, því að einhvers staðar verður að taka þessa fjármuni, og ef það er rétt hjá hv. þm. stjórnarandstöðunnar, að við höfum tekið við blómlegu búi, þegar þessi ríkisstj. kom til valda, en nú sé allt saman á niðurleið og í raun og veru blasi ekkert við annað en gjaldþrot, hvernig stóð þá á því, að þeir. gerðu ekki myndarlegar á síðustu árum viðreisnarstjórnarinnar? Það er spurning, sem almenningur hlýtur að hugleiða í sambandi við þessi mál.

Það er, eins og ég sagði, sjálfsagt ýmislegt, sem þyrfti að lagfæra. En þær tölur, sem ég hef lesið hér upp, sýna, hvernig staðið hefur verið að þessum málum og með allt öðrum hætti en var á valdaferli viðreisnarstjórnarinnar.