28.11.1972
Sameinað þing: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

84. mál, Sigölduvirkjun

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh, gat þess, að svonefnd viðræðunefnd um orkufrekan iðnað á nú í viðræðum við ýmsa erlenda aðila um orkufrekan iðnað hér á landi í sambandi við Sigölduvirkjun. Ég á sæti í þessari n., og þykir mér rétt að koma á framfæri nokkrum upplýsingum.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að verið er að ræða við allmörg fyrirtæki, og staðreyndin er raunar sú, að orðið hefur vart við mikinn áhuga hjá erlendum fyrirtækjum á þátttöku í slíkum iðnaði hér á landi með þeim skilyrðum, sem hæstv. ráðh. gat um, að þau yrðu í meirihlutaeigu okkar íslendinga og féllu að öllu leyti undir íslenzk lög. Viðræðunefndin á mjög annríkt um þessar mundir, því að vandinn er fremur sá að velja heldur en að leita. Það eru a.m.k. þrjú fyrirtæki á járnmelmissviðinu, sem hafa sýnt verulegan áhuga, og auk þess, eins og fram hefur komið í blöðum, hefur fyrirtækið Alusuisse sýnt áhuga á því að stækka álbræðsluna í Straumsvík. Við, sem sitjum í þessari n., gerum okkur fyllstu vonir um það, að takast megi að ná afar hagstæðum samningum við slík fyrirtæki og það fljótlega, vil ég leyfa mér að segja, örugglega fyrir mitt næsta ár.