28.11.1972
Sameinað þing: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

277. mál, orkuflutningur frá Sigöldu til Norðurlands

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðh. svörin, að því leyti sem þau voru svör við spurningum mínum, en það kom fram, að enn þá er alveg óljóst fyrir ráðh., hvernig sú lína verður og hve mikið hún á að flytja, sem norður yfir fjöll verður lögð. Við skulum segja, að það sé eðlilegt á þessu stigi málsins. En ég vil gera aths. við þá yfirlýsingu hans, að það sé spurningin um það, hvort við viljum samtengingu eða ekki, hvort þessi lína er lögð. Spurningin er núna sú, hvort rétt sé að gera þessa samtengingu eins fljótt og ráðh. vill eða þykist vilja, hvort ekki sé réttara að halda áfram enn um sinn virkjunum á Norðurlandi, eins og ég held, að sé vilji flestra Norðlendinga. Það er vafalaust ekki í huga neinna nein andúð gegn því að tengja saman raforkukerfi landsins. Spurningin er, hvenær eigi að gera það, en ekki að vilja eða vilja ekki, eins og hér var sagt áðan.

Ég þakka þær upplýsingar og þá skoðun ráðh., að allir eigi að sitja við sem líkast raforkuverð. Það er ágætt. En í hugum allra er þó það, að séu dýrar framkvæmdir gerðar, þá kemur það alltaf í hlut neytanda, hvar á landinu sem er, að borga þetta dýra rafmagn, og þó að það sé ágætt kannske fyrir Norðlendinga, að það sé létt af okkur nokkrum hluta, þá er það með nokkurri íhugun, ef það er lagt á aðra að verulegum hluta, svo að þeim kunni að verða það þungbært. Þess vegna tel ég, að þessi mál þurfi öll að skoðast betur en enn hefur verið gert. Ég vil líka gera þá aths. við þá yfirlýsingu ráðh., að það hafi verið lögð fram stefnumið ríkisstj. í þessu máli hér á Alþ. í fyrra, að mér skilst eftir ýmsum umr., sem fóru fram í sumar, að það hafi verið stefnuyfirlýsing ráðherrans, en ekki ráðherranna.