28.11.1972
Sameinað þing: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

72. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Á þskj. 76 flytjum við 5 þm. úr jafnmörgum stjórnmálaflokkum till. til þál. um afnám vínveitinga á vegum ríkisins. Tillgr. er stutt, þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hætta vínveitingum í veizlum sínum.“

Grg. með þessari till. er einnig fáorð, á þessa leið:

„Stöðugt sígur á ógæfuhlið í áfengismálum Íslendinga. Andspyrna félaga og einstaklinga fær ekki rönd við reist. Opinberar skýrslur sanna almannaróm í þessu efni.

Að dómi flm. þessarar till. er fyllsta ástæða til þess, að ríkisvaldið gefi hér gott fordæmi, í stað þess að kynna drykkjusiði við margvísleg tækifæri.“

Þessi grg. segir nálega allt það, sem ég kýs að taka fram um leið og ég fylgi till. okkar fimmmenninganna úr hlaði. Til þess að fyrirbyggja misskilning vil ég þó geta þess, að frá minni hendi a.m.k. er till. ekki flutt í sparnaðarskyni. Ég hef ekki kynnzt því í átthögum mínum eða annars staðar á landinu, að gestgjafar spari við gesti sína. Ætlast ég ekki heldur til þess af ríkisvaldinu, þegar ráðamenn telja hæfilegt að halda uppi risnu á annað borð. Enn fremur vil ég segja þetta: Þrásinnis hef ég heyrt fyrirliða þjóðarinnar lýsa ugg sínum út af vaxandi víndrykkju ungmenna, en engan lofa núverandi ástand á því sviði. Þegar svo er komið, sýnist mér einboðið, að ríkisvaldið taki upp þá hætti, sem till. greinir, enda hef ég satt að segja aldrei heyrt í efa dregið, að gott fordæmi sé góðra gjalda vert.

Þessi till. fjallar um tiltölulega mjög afmarkað atriði, og hún ætti því að vera fremur auðveld í meðförum og afgreiðslu. Ég vil leggja til, að till verði vísað til allshn.