28.11.1972
Sameinað þing: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

72. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Frsm. fyrir þessari till. er nú þegar búinn að segja, eins og hans var von og vísa, það, sem í raun og veru þurfti að segja um þetta mál, og kannske óþarfi við að bæta. En ég vildi samt sem áður koma hér á framfæri örfáum sjónarmiðum mínum varðandi þetta mál.

Það er staðreynd, að ríkið hefur stórkostlegar beinar tekjur af áfengissölu. En við skulum líka gera okkur fulla grein fyrir því, að ríkið hefur einnig mörg bein og óbein gjöld vegna áfengisneyzlu þjóðarinnar. Ríkið hefur þess vegna meiri skyldur en aðrir til varnar í áfengismálum, og hefur vissulega ýmislegt verið gert í þeim efnum á undanförnum árum og áratugum. Vandinn í sambandi við þau — ég vil segja yfirþyrmandi vandamál, sem áfengisneyzlan hefur í för með sér í dag, hlýtur þess vegna að hvíla þyngra á ráðamönnum þjóðarinnar heldur en öðrum. Einmitt af þessum sökum fer ekki illa á því, svo að ekki sé meira sagt, að þessir hinir sömu aðilar skapi fordæmi, sem þeir þurfi a.m.k. ekki í sumum tilfellum, — ja, ég vil jafnvel taka svo sterkt til orða — að blygðast sín fyrir.

Það er staðreynd, að opinberar veizlur og athafnir ýmiss konar eru sýndar í sjónvarpi. Það koma einnig myndir af þessum athöfnum í blöðum. Það eru myndir af brosandi fyrirfólki með glas í höndum, einmitt mjög ákjósanleg sýnishorn af kennslu í drykkjusiðum. Maður sér nóg að mínu viti af slíkri kennslu í drykkjusiðum í sjónvarpinu hér, þó að þetta þurfi ekki ofan á að bætast. Þó að ekki væri nema af þessari ástæðu einni, væri full ástæða til þess, að við slíkar athafnir væri ekki veitt vin. Það vill nefnilega verða svo, að þegar við sjáum skálandi þjóðhöfðingja og valdamenn, bæði hérlendis og erlendis, verður mönnum hugsað sem svo, að það, sem „höfðingjarnir hafast að“ o.s.frv., — og menn líta á þetta þeim augum, að þessi neyzla sé enn sjálfsagðari en hún annars kannske yrði hjá ýmsu fólki. Það vill einmitt verða svo, að eftiröpun í þessu þjóðfélagi er býsna áberandi, hein eftiröpun. Og til er nokkuð í þessu þjóðfélagi einnig, sem heitir snobb.

Það eru líka mörg og ég vil segja sorgleg dæmi þess í okkar þjóðfélagi einmitt varðandi þetta tiltekna atriði, vinveitingar á vegum hins opinhera, að vínveizlur ráðh. og annarra fyrirmanna þjóðfélagsins, t.d. á ýmsum ráðstefnum og fundum, sem hér eru haldnir í höfuðborginni, hafi beinlínis orðíð upphaf að allsherjarfylleríi þeirra fulltrúa, sem á þessum samkundum sátu. Ég vil segja, að um þetta eru mörg hryllileg dæmi. Vínveitingar í veizlum hins opinhera eru nefnilega sannarlega ljótur blettur. Og það er eitt, sem er þó einkennilegt og ég hef fundið vel. eftir að við fluttum þessa till. okkar, og það er það, að í jafnvínmenguðu lífslofti og við hrærumst þó í hér, þá er yfirgnæfandi meiri hluti fólks með þessari till. okkar. Það er ekki hin margfræga öfund í garð náungans, sem hér er á ferð. Það er einfaldlega heilbrigð skynsemi og heilbrigð lífsskoðun, sem hrátt fyrir allt kemur þarna fyrst og fremst til álita hjá fólkinu.