28.11.1972
Sameinað þing: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

81. mál, bætt aðstaða nemenda landsbyggðar sem sækja sérskóla á höfuðborgarsvæðinu

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég leyfi mér eins og síðasti ræðumaður að lýsa fylgi við þessa till. og þakka það, að hún er fram borin. Hér hafa tvívegis komið fram ummæli þess efnis, að í samningum við ákveðið hótel hér í borginni hafi e.t.v. orðið vanefndir, — eins og kom fram í orðum síðasta ræðumanns, — af hálfu forráðamanna þar, að því er varðar fyrirgreiðslu fyrir námsmenn utan af landi. Ég reyndi að grafast fyrir um þetta mál, eftir að ég heyrði það hér í þingsölum, því að mig minnti, að annað hefði verið uppi á teningnum, þegar þessi mál voru á döfinni á sínum tíma. Rétt er það, að það kom til tals, þegar hótel það, sem um er rætt, var í byggingu, að möguleikar gætu orðið á því að hýsa skólafólk utan af landi í einhverjum hluta hótelsins, þegar það annars væri ekki fullnýtt. Hér á þingi var því haldið fram, í ræðu, að þetta hefði verið úrslitaástæða fyrir því, að hótelið fékk fjárhagslega fyrirgreiðslu. Mér er tjáð í Seðlabankanum, að raunveruleg úrslitaástæða fyrir þeirri fyrirgreiðslu, sem þarna var um að ræða, hafi verið tvíþætt: Þegar þetta hótel var í byggingu, var erfitt atvinnuástand hjá iðnaðarmönnum og erfitt gjaldeyrisástand hjá þjóðinni. Með því að stuðla að þessari stóru framkvæmd fengu margir iðnaðarmenn atvinnu, og með þessari hótelbyggingu var einnig stefnt að því að útvega þjóðinni erlendan gjaldeyri með gistingu ferðamanna og erlendra ráðstefnugesta hér á landi. Hins vegar var svo, þegar til kom, haft samband við forráðamenn ýmissa skóla, sem ekki eru í mjög mikilli fjarlægð frá þessu hóteli, og af þeirra hálfu var ekki áhugi á málinu þá. Þetta vildi ég aðeins, að fram kæmi, úr því að tvisvar hefur verið að þessu vikið á annan veg. Hitt er svo allt annað, að það kann vel að vera, að núna sé sá áhugi fyrir hendi, enda aðstæður aðrar, og vel getur verið, að slíkir samningar náist núna. Um það skal ég ekkert segja. Ég vildi aðeins, að það, sem réttara er, kæmi fram í þessu máli.

Annars væri í sambandi við þetta mál, sem hér er á dagskrá, önnur lausn, sem gæti að mínu viti mjög vel komið til álita við hliðina á þeirri lausn, sem bent er á í till. Sú hugmynd, sem ég ætlaði að varpa fram þm. til umhugsunar, kom fram á fjölmennum kvennafundi, sem ég átti sæti á í sumar sem leið. Þar voru konur víðs vegar að af landinu og úr ýmsum stjórnmálaflokkum. Það kom fram hjá húsfreyju austan úr lóni, Sigurlaugu Árnadóttur, að verið gæti mjög mikilsverð lausn á þessu máli, að komið væri á eins konar nemendaskiptum milli dreifbýlis og þéttbýlis. Við höfum séð, að hafa verið nemendaskipti milli landa, milli mismunandi skóla með góðum árangri. Þau hafa farið fram á þann hátt, að nemendurnir hafa eignazt heimili hvor í annars landi, þegar um það var að ræða. Það, sem fyrir konunum vakti, var, að sveitaheimíli, sem þyrfti að kosta ungling, kannske fleiri en einn, í skóla í höfuðborginni eða á þéttbýlisstöðum, gæti leyst það mál á fjárhagslega léttbærari hátt og í mörgum tilvikum skemmtilegri hátt fyrir ungling sinn með því að fá unglinginn hýstan á heimili í borginni, þar sem hann væri rétt eins og einn heimilismanna, og síðan tæki það sveitaheimíli, sem í hlut ætti, barn af borgarheimilinu til sumardvalar að liðnum vetrinum. Að sjálfsögðu eru höfð í huga heimili, þar sem eru börn á ýmsum aldri og börn á þeim aldri, sem við vitum, að oft er mjög erfitt að koma til sveitadvalar, þó að allir séu sammála um gagnsemi slíks fyrir börnin. Þau gætu þarna líka fengið nokkra úrlausn sinna mála. Auk þess sem þetta leysti að þessu leyti húsnæðis- og uppihaldsmál viss fjölda nemenda utan af landi, hefði þessi lausn líka almennt menningargildi. Við tölum oft um það, hvílíkan skaða þjóð okkar hefur beðið af því, að fjarlægð eða sambandsleysi milli sveitafólks og þéttbýlisfólks verður sífellt meiri. Þessir hópar þurfa að kynnast betur störfum hvor annars, og ég held, að engin leið gæti verið áhrifaríkari til slíks en einmitt tengsl og gagnkvæm kynni heimili í borg og byggð.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari hugmynd, sem fram kom á kvennafundinum. Þetta var á landsþingi Kvenréttindafélags Íslands, sem haldið var í júní s.l. Gæti e.t.v. komið til athugunar að taka ábendingu um þessa lausn inn í till., ef hv. n. sýndist svo. Annars er ég að öllu leyti fylgjandi þessu máli, sem hér hefur verið fram borið.