29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir og fjallar um breytingu á l. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, er fram borið í beinu framhaldi af samkomulagi, sem gert var, þegar fiskverð var ákveðið fyrir síðasta fjórðung ársins eða í byrjun okt. Þegar verðlagsráð sjávarútvegsins fjallaði þá um nýja fiskverðsákvörðun, kom brátt í ljós, að ýmis rök mæltu með því, að fiskverð yrði hækkað talsvert frá því, sem verið hafði, m.a. vegna þess, að afli hafði minnkað talsvert verulega frá því, sem áætlanir höfðu verið gerðar um, og samsetning aflans var líka önnur en ráð var fyrir gert. Af þessu leiddi það, að launakjör sjómanna höfðu orðið lakari en ráðgert hafði verið, og það var almennt skoðun aðila í verðlagsráði, að ekki yrði undan því vikizt að bæta kjör sjómannanna frá því, sem orðið var. Þá hafði einnig komið í ljós, að hagur fiskiðnaðarins í landinu hafði versnað af þessum sömu ástæðum, vegna minnkandi afla og vegna óhagstæðari samsetningar á fiskaflanum, sem fjárhagslega kom verr út fyrir fiskiðnaðinn. Að sjálfsögðu hafði hagur fiskiskipanna einnig versnað með minnkandi afla. Um það var síðan gert samkomulag í verðlagsráði sjávarútvegsins á milli allra þeirra aðila, sem þar áttu hlut að máli, að leggja til. að fiskverð yrði hækkað um 15% að meðaltali á tímabilinu frá 1. okt. til ársloka. En þetta samkomulag var þó háð því skilyrði af hálfu fiskkaupenda, að greiðslur yrðu að koma annars staðar frá en frá fiskiðnaðinum, þar sem hann gæti ekki tekið á sig aukin útgjöld.

Þeir aðilar, sem standa að verðlagsráði, komu sér síðan saman um að gera till. til sjútvrh. um, að sú upphæð, sem talið var, að greiða þyrfti í þessum efnum vegna þessarar fiskverðshækkunar og vegna hinna versnandi rekstraraðstöðu fiskiðnaðarins, yrði greidd úr verðjöfnunarsjóði. Að vísu var það svo, að upphaflega till., sem kom frá þessum aðilum í verðlagsráði, var um talsvert meiri greiðslu úr verðjöfnunarsjóði en endanlegt samkomulag varð um, þar sem ég hafði ekki viljað fallast á hina hærri till., sem gerði ráð fyrir enn þá meiri greiðslu úr sjóðnum til fiskiðnaðarins. Samkomulagið, sem gert var í sambandi við þessa fiskverðsákvörðun, var það, að greidd skyldi úr verðjöfnunarsjóði með sérstökum hætti fjárhæð til sjávarútvegsins, sem næmi 88 millj. kr. á þessu tímabili, frá októberbyrjun til ársloka, miðað við tiltekið aflamagn, sem á land yrði lagt á þessum tíma. Þar var lagt til grundvallar, að heildaraflamagnið, sem greitt yrði út á þessum tíma, væri að verðmæti 400 millj, kr., reiknað út á því verði sjávarafurða, sem gilt hafði fram að þessari verðlagningu 1. okt. Var þá reiknað með því, að miðað við þessa fjárhæð yrði greiðslan úr verðjöfnunarsjóði 88 millj. kr., en hún yrði að sjálfsögðu hærri, ef aflinn yrði meiri, en lægri, ef aflinn yrði minni. Skiptingin á þessu fé var þannig, að áætlað var að greiða 15% meðaltalsverðhækkun á fiski á magn, sem næmi 400 millj. kr., þ.e.a.s. að fiskverðshækkunin sjálf næmi þá 60 millj. En síðan var gert ráð fyrir að greiða sérstaklega til fiskiðnaðarins 28 millj. kr. til þess að lagfæra þar rekstrargrundvöllinn, og var þá við það miðað að 26 millj. rynnu til frystihúsanna, en 2 millj. til annarra fiskverkunargreina.

Það hefur nokkuð verið um það rætt, að það hafi verið hæpið að taka þessa greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, og þá væntanlega ráð fyrir því gert af þeim, sem hafa uppi þær aths., að einhver annar ætti að greiða þessa fjárhæð, t.d. ríkið. Í sambandi við það vil ég taka fram, að lögin um verðjöfnunarsjóð eru þannig, að ákveðnir aðilar ráða þar, hvort fé er greitt úr sjóðnum eða ekki. Fulltrúar fiskiðnaðarins og fiskseljenda eru með meiri hluta atkvæðamagn í stjórn verðjöfnunarsjóðs. Það verður því ekki greitt fé úr þessum sjóði að óbreyttum lögum nema með vilja þeirra. Hins vegar þarf einnig að koma til staðfesting ráðh. á greiðslum úr sjóðnum.

Nú er það svo, að það var ráð fyrir því gert í lögum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, að það fé, sem í sjóðnum væri á hverjum tíma. ætti fyrst og fremst að nota til þess að vega upp verðfall á útflutningsafurðum eftir þar til settum reglum. En þó var skýrt tekið fram í l., og það hefur síðan verið framkvæmt æ ofan í æ, sem segir í 7. gr. l., að við ákvörðun á viðmiðunarverði, sem allar greiðslur úr sjóðnum miðast við, skuli stjórn verðjöfnunarsjóðs, eins og segir orðrétt: „Skal hún þá einkum hafa hliðsjón af verðlagi þriggja undanfarinna ára, svo og af niðurstöðum verðlagsráðs sjávarútvegsins um afkomu framleiðslunnar.“

Það er þetta, sem hefur verið gert við flestar fiskverðsákvarðanir, sem gerðar hafa verið, síðan þessi lög voru sett, að miðað hefur verið við rekstraraðstöðu framleiðslunnar, þegar viðmiðunarverð hefur verið ákveðið og greiðslur úr sjóðnum ákveðnar. Nú var það svo, að í þessu tilfelli lögðu þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, það til, að viðmiðunarverði yrði breytt samkv, þessum reglum, og þá hefði ekki þurft að koma til nein lagabreyting, því að það er auðvelt að ákveða viðmiðunarverðið þannig, að um útstreymi úr sjóðnum verði að ræða. Það taldi ég hins vegar ekki rétt, og hinir stjórnskipuðu fulltrúar, sem eru í stjórn verðjöfnunarsjóðsins, töldu einnig óæskilegt að ákveða viðmiðunarverðið það hátt, enda væri það þá eins og ákveðin vísbending um, að ætlað væri að halda áfram að greiða á þennan hátt úr sjóðnum. En hér var um bráðabirgðasamkomulag að ræða, sem aðeins átti að standa þrjá mánuði, frá októberbyrjun til ársloka, og því varð að ráði og allsherjarsamkomulag gert um það á milli aðila, að gerð yrði breyting á l. með sérstöku bráðabirgðaákvæði, sem gerði ráð fyrir tiltekinni greiðslu úr sjóðnum, án þess að breytt yrði viðmiðunarverði á þann hátt, sem annars hefði þurft.

Hér er sem sagt um það að ræða, að vegna minnkandi afla og lakari, verðminni afla, voru gerðar þessar ráðstafanir til þess að hækka fiskverðið, bæta afkomu útgerðar og sjómanna og afkomu fiskvinnslunnar á þremur síðustu mánuðum ársins, sem eru jafnan þeir lökustu fyrir reksturinn, og verja til þess fé úr þessum sjóði, sem gæti orðið í kringum 88 millj. kr., en sú fjárhæð nemur varla vaxtagreiðslum úr þessum sjóði, eins og hann er nú orðinn.

Því miður hefur tekið lengri tíma hér á hv. Alþ. að fá afgreitt þetta frv., sem til er komið með þessum hætti, en æskilegt hefði verið. Þeir aðilar, sem hafa gert ráð fyrir því að fá þá fiskverðshækkun, sem hér er um að ræða, hafa þurft að biða eftir henni allan þennan tíma. Og það er út af fyrir sig heldur óskemmtilegt, enda í nokkrum tilfellum beinlínis kvartað undan því af aðilum, að þeir treysti sér ekki til að halda áfram róðrum, ef þeir fá þetta ekki greitt. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að sú n., sem fjallar um málið í hv. Ed., hraði afgreiðslu þess. Það hefur jafnan verið gert um hliðstæð mál hér á hv. Alþ., þar sem um samkomulagsmál er að ræða og jafnsjálfsagt mál og þetta.

Ég tel mig hafa skýrt meginatriði þessa frv., enda vænti ég, að það sé flestum hv. alþm. kunnugt. Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu, og leyfi ég mér að vænta þess, að hún bregðist vel við og afgreiði málið úr þessari d. hið allra fyrsta.