29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil víkja nokkuð að þeim umr., sem hér hafa farið fram, og vík þá fyrst að því, sem hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, sagði hér um málið. Hann var ekki í miklum vafa um það, að hann hefði efni á að segja allt ósatt, sem ég sagði, og fullyrti hér allt annað en það, sem ég hafði skýrt frá, — þó að hann hefði engin sérstök gögn í höndunum til þess að halda slíku fram. (Gripið fram í: Ég vitnaði í bréf.) En það bréf sagði ekki það, sem hv. þm. sagði. En það er kannske rétt, að ég rifji þá nokkru nánar upp, hvað gerðist í þeim efnum, sem hér er verið að skýra frá, og bendi á það, hvernig þetta mál hlaut lögum samkvæmt að bera að.

Það var nokkrum dögum áður en ég fór vestur um haf á fund, að ég kallaði fyrir mig þá aðila, sem eiga fulltrúa í verðlagsráði sjávarútvegsins. En þeir höfðu þá til meðferðar lögum samkvæmt að gera tillögur um nýtt fiskverð, og ef þeir gætu ekki komið sér saman, áttu þeir að vísa málinu til sérstakrar yfirnefndar. Þeirra verkefni skv. lögum var ekki annað en það að ákveða um fiskverð. En af því að ég var að fara í burtu, þótti mér rétt að tala við þessa aðila og spyrja þá um það, hvort hugsanlegt væri, að málið gæti á einn eða annan hátt komið til minna aðgerða í næstu viku á eftir, því að ef svo væri, þá færi ég ekki þessa för vestur. Þeir lýstu því allir yfir, að þeir væru ekki komnir lengra en svo í málinu, að þeir mundu hafa málið með höndum a.m.k. næstu viku og að þeir ætluðu að freista þess að ná samkomulags, eins og lög gera ráð fyrir, en ef málið færi til yfirnefndar. Þá vitanlega hlyti það að taka nokkurn tíma í yfirnefnd líka. Þegar þetta gerðist, urðu nokkur orðaskipti á milli okkar um ástandið í þessum efnum, og það kom að vísu skýrt fram hjá mér, að ég teldi fyrir mitt leyti engan vafa leika á því, að hað væri þörf á því, að fiskverð hækkaði. Ég býst líka við því, að það hafi flestir, sem eitthvað þekktu til þessara mála, búizt við því, að svo mundi fara, þar sem á næsta verðtímabili á undan hafði ekki verið hreyft við fiskverði. En frá hálfu þeirra aðila, sem ég ræddi við á þessum fundi, komu engar tillögur, því að þeir höfðu ekki lokið sínu verki. Þeir báðu því hvorki um einn né neinn styrk og hafa aldrei komið fram með neina beiðni um styrk í sambandi við þessi mál. Og ég skora á hv. 2. þm. Norðurl. e. að leggja hér fram nú eða síðar sönnunargögn um hað, að þessir aðilar hafi farið fram á einhvern sérstakan styrk.

Það var ekki á mínu valdi að hafa nein áhrif á það, hvort þessir aðilar legðu til, að fiskverð yrði hækkað um 10% eða 15%. Samkv. lögum höfðu þeir þetta vald í sínum höndum. En við framvindu málsins kom það í ljós, að aðilar, sem standa að verðlagsráði, fiskseljendur og fiskkaupendur, vildu koma sér saman, og þegar þeir komu sér saman um að leggja til, að fiskverð hækkaði um 15%, þá stóð ekkert á mér að samþykkja það, enda var það ekki í mínu valdi að hafa neitt um það að segja. Þeir hefðu alveg eins getað ákveðið 20% verðhækkun. En þeir gátu ekki náð samkomulagi sín á milli um það að hækka fiskverð um 15%, nema einhver væri til staðar til að kaupa fiskinn á þessu nýja, hækkaða verði. Og því var það, að þeirra samkomulag, sem þeir tilkynntu mér, þegar ég kom til baka aftur, var um það, að þeir í verðlagsráðinu væru sammála um hækkun á fiskverðinu um 15%, en þetta samkomulag þeirra stæði og félli með því, að ég sem ráðh. sjávarútvegsmála staðfesti till. þeirra um greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Ég hafði sagt þeim hað áður, ekki aðeins í þetta skipti, heldur enn áður, að ég mundi meta till. þeirra hverju sinni, þegar þeir færu fram á að fá að skipta upp verðjöfnunarsjóði, því að ég samþykkti þar ekki þeirra till. blindandi. En þessir aðilar höfðu áður gert till. um það, að þeir mættu ráðstafa sjóðnum að sinni eigin vild. Þegar till. þeirra komu til mín, þær einu till., sem til mín komu um þetta, þá voru þær um það, að breyta mætti viðmiðunarverði úr verðjöfnunarsjóði þannig, að hægt yrði að ná ákveðinni fjárhæð út úr sjóðnum, sem var til muna hærri en sú, sem samkomulag varð um við mig. Svo kemur hv. 2. þm. Norðurl. e. hér og einnig hv. 5. þm. Reykn. og tala um aðför mína eða ríkisstj. að sjóðnum. Það hefur ekki verið nein sérstök till. okkar, að þetta fé yrði greitt úr sjóðnum, það er rangt. En vandinn var vitanlega fiskiðnaðarins að standa undir þeirri fiskverðshækkun, sem fiskseljendur kröfðust. Málið lá þannig fyrir, að fiskkaupendur gátu staðið við þessar kröfur varðandi einstakar tedundir. Það var ekki deilt um það, að þeir, sem keyptu þorsk, gætu borgað þessa fiskverðshækkun. En það eru margar fleiri tegundir, sem hér áttu hlut að máli og þurftu líka að fá sína verðhækkun, og því þurfti meira að koma til. Og einnig kom sú krafa fram að þessu sinni frá forsvarsmönnum frystihúsanna í landinu, að þeir þyrftu breyttan rekstrargrundvöll frá því, sem áður var, þeir þyrftu breytt skipti. Það er því með öllu rangt, að ég eða ríkisstj. höfum vísað þessum aðilum á þennan sjóð og við höfum neytt þá til þess að taka fé úr þessum sjóði. Ég efast að vísu ekkert um það, að þeim aðilum, sem eiga þennan sjóð, hætti auðvitað afskaplega gott að þurfa ekki að hreyfa við honum í einu eða neinu tilfelli, ef einhver annar vildi borga fyrir þá. En á því gat ekki leikið neinn vafi, að við hlytum að hafa okkar skoðun á því, hvort fiskiðnaðurinn í landinu gæti staðið undir að greiða það fiskverð, sem verðlagsráð sjávarútvegsins ákvæði, eða ekki. Auðvitað var það ljóst, að í þessu tilfelli var vandinn fiskkaupendanna, en ekki ríkisstj. Málið lá þannig fyrir.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, að ég hefði flutt málið þannig, að ég hefði staðið hér í því að reyna að verja þennan sjóð fyrir aðför eigendanna. Hvar ætli hann finni þetta í ræðu minni? Skyldu þetta ekki vera hans eigin orð? Ég hafði aðeins skýrt frá því, að þessir aðilar, sem höfðu komið sér saman um ákveðna hluti í verðlagsráði sjávarútvegsins, höfðu óskað eftir því, að greitt yrði meira úr sjóðnum en samkomulag varð um við okkur. Mér hefði aldrei dottið í hug, þó að þeirra till. hefði verið samþ., að kalla það einhverja aðför að sjóðnum, og satt að segja fannst mér málflutningur hv. 2. þm. Norðurl. e. bera mjög vott um það, að hann hefur alls ekki áttað sig á þeim grundvallaratriðum, sem þessi sjóður vinnur eftir, þó að hann ætti hlutdeild að því að setja þessi lög. Hann virðist halda, að greiðslur úr þessum sjóði hafi aldrei átt sér stað nema nú og í tíð núv. ríkisstj. Hann hefur ekki áttað sig á því, að viðmiðunarverðinu í þessum sjóði hefur verið breytt svo að segja við hverja einustu verðlagningu, og þá hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að breyta því hlutfalli, sem rynni í sjóðinn eða úr sjóðnum, í samræmi við lög sjóðsins. Hv. þm. reyndi auðvitað ekki heldur að neita því, sem ég las hér upp um bein lagaákvæði þessa sjóðs. Hann bara fullyrti einfaldlega, að úr þessum sjóði ætti aðeins að greiða, þegar um verðfall á afurðum væri að ræða. En ég las hér upp hluta úr 7. gr. l., þar sem alveg tvímælalaust segir, að við ákvörðun á viðmiðunarverði, sem ræður greiðslum í eða úr sjóðnum, skuli stjórn sjóðsins taka tillit til afkomu framleiðslunnar.

Þegar lög voru sett á sínum tíma um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, benti ég mjög á, að það væri vitanlega alveg fráleitt að hugsa sér, að framkvæmd í þessum efnum gæti orðíð þannig, að alveg tiltekin greiðsla rynni í sífellu í þennan sjóð, aðeins eftir því, hvernig verðlag væri á erlendum markaði, þ.e.a.s. að alltaf rynni tiltekinn hluti, eins og menn höfðu þá gert ráð fyrir, eða 50% af verðhækkunum erlendis rynnu alltaf í sjóðinn, alveg án tillits til þess, hvernig rekstrarafkoma sjávarútvegsins væri. Þessu var líka breytt í meðförum hér á Alþ., og gildandi ákvæði voru tekin upp, því að það er vitanlega algerlega óhjákvæmilegt að taka fyllilega tillit til þess, hver er rekstraraðstaða framleiðslunnar. Væri nokkurt vit í hví að haga veðmiðunarverði þannig, að hluti af útflutningsverðinn væri tekinn af framleiðendum og lagður í sjóðinn, á sama tíma sem framleiðslan sjálf berðist í bökkum og gæti í rauninni ekki staðið undir eðlilegum rekstrarkostnaði? Þetta hefur ekki heldur verið gert. Það hefur verið farið eftir þessum ákvæðum í öll skipti, þegar viðmiðunarverð hefur verið ákveðið og fiskverð hefur verið ákveðið.

Ég hef margsinnis hér á Alþ. undirstrikað það, bæði þegar þessi lög voru sett á sínum tíma og nú við umr. um þetta mál. að það er skoðun mín, að það leiki enginn vafi á því, að það sé sjávarútvegurinn, sem eigi það fé, sem er í þessum sjóði, það séu fiskframleiðendur, þ.e. jöfnum höndum sjómenn og útvegsmenn og þeir, sem fást við fiskiðnaðinn í landinu. Þeir eiga þetta fé. En þar sem það er ákveðið í l., að það megi ekki taka fé úr sjóðnum, nema ráðh. staðfesti það, staðfesti allar breytingar á viðmiðunarverði, þá hef ég fyrir mitt leyti haft þá afstöðu, að ég get ekki samþykkt ráðstöfun á fé úr þessum sjóði, þó að það gangi að nafninu til til sjávarútvegsins, ef það eru tillitslausar greiðslur. Ég álít, að það verði að reyna að taka tillit til þess, að þeir fái aftur þetta fé, sem raunverulega lögðu það til. Það væri t.d. alveg fjarstætt að mínum dómi að haga greiðslum úr þessum sjóði þannig, eins og komið hefur til tals áður, að greiðslur úr sjóðnum færu fram í mjög ríkum mæli, t.d. á vetrarvertíðinni fyrri hluta árs, þannig að sjóðurinn eyddist upp kannske að öllu leyti og þá væru allir þeir, sem raunverulega hafa lagt í sjóðinn og starfa að yfirgnæfandi meiri hluta á öðrum árstímum, þeir sviptir þeim möguleika að fá sinn sanngjarna hluta til baka aftur af því fé, sem þeir hafa lagt í sjóðinn. En mér hefur aldrei dottið annað í hug en það, að þetta fé ætti að renna til sjávarútvegsins aftur eftir þeim reglum, sem við er miðað í l. og í rauninni þeir, sem fyrst og fremst eiga þetta fé, geta komið sér saman um.

Það er auðvitað þýðingarmest, að úr sjóðnum sé greitt, þegar um verðfall er að ræða, en að mínum dómi getur þarna margt annað komið inn í, sem verður fyllilega að taka tillit til. Og það verður einnig að taka tillit til þess, þegar um áföll verður að ræða í sjávarútveginum, t.d. svipuð þeim, sem hér er um að ræða. Ég er í þessum efnum alveg sammála formanni Sjálfstfl., sem greinilegt er nú, að hv. 2. þm. Norðurl. e. er ekki sammála, um það, sem kom fram í ræðu hans í Nd., þegar þetta mál var rætt, að hann vildi gjarnan, að við kæmum okkur saman um að lýsa því yfir, að þennan sjóð ætti ekki að nota, nema þegar um bein meiri háttar áföll væri að ræða fyrir sjávarútveginn, eins og t.d. mikinn aflabrest eða verðfall. Þetta er öryggissjóður. Hann hefur verið tekinn hreinlega með valdi. Það hafa verið tekin ákveðin verðmæti af framleiðendum með valdi og lögð til hliðar í góðu ári, þegar vel stóð á, og það ber vitanlega að nota það aftur framleiðslunni til hagsbóta, þegar illa stendur á. Ég fyrir mitt leyti geri ekki mikinn mun á því, hvort áföllin stafa af því, að verð hefur fallið nokkuð á erlendum markaði, eða hvort aflinn hefur hrapað. Það er afkoman í þessum efnum, sem ræður hér auðvitað fyrst og fremst úrslitum. Hitt er mér alveg ljóst, að það eru til ýmsir hv. þm. hér í stjórnarandstöðunni, sem í öllum greinum sperra sig sí og æ að reyna að haga öllum málum þannig, að það verði sem allra erfiðast fyrir ríkisstj. að leysa vandann, og segja svo í tilfellum eins og þessu: Þið megið ekki nota þennan sjóð, þið verðið að nota ríkissjóð. Ef þið notið ríkissjóð, þá eruð þið að eyða fé o.s.frv. — Nei, hér var vitanlega um slíka ráðstöfun að ræða á fé úr sjóðnum, sem var fullkomlega eðlileg.

Núv. ríkisstj, hefur sýnt þessum sjóði meiri skilning en fyrrv. ríkisstj. sýndi. Hún stóð fyrir því að fella till. hér á Alþ. um að verðtryggja þennan sjóð; en í tíð núv. ríkisstj. hefur hann verið verðtryggður. Hér er um smávægilega greiðslu úr sjóðnum að ræða, sem rennur örugglega til þeirra, sem sjóðinn eiga, og hér er ekki einu sinni um eins árs vaxtagreiðslu að ræða, svo að það er óþarft að tala um, að hér sé verið að skerða sjóðinn meira en gert hefur verið margsinnis áður, bæði í tíð fyrrv. ríkisstj. og núv., við fiskverðsákvörðun, En ég minnist þess, að Morgunblaðið geystist mjög hér og hélt því fram, að búið væri að éta upp allan verðjöfnunarsjóðinn, þegar ákveðnar greiðslur fóru fram með breytingum á viðmiðunarverði, þannig að ekki hélt áfram að renna í sjóðinn jafnmikið og áður hafði gert eða ekki jafnhátt hlutfall, það hélt reyndar áfram að renna enn þá hærri fjárhæð á hverjum mánuði í sjóðinn en gert hafði, en ekki jafnhátt hlutfall. Þá var það básúnað út, að þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar til þess að hækka hlut sjómanna, þýddu, að það væri verið að éta upp þennan sjóð, það væri verið að eyða honum. En auðvitað sýndi reynslan, að sjóðurinn hélt áfram að vaxa og óx alveg sérstaklega þar á eftir og náði þeirri hæð, sem hann er í nú.

Þá spurði hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, og einnig hv. 5. þm. Reykn., Jón Árm. Héðinsson, mig um það, hvort ég vildi ekki lýsa því yfir, að áfram yrði ekki haldið á þessari braut og fé yrði ekki áfram tekið úr þessum sjóði á þennan hátt. í rauninni eru þessar spurningar hv. þm. einkennilega mikið út í bláinn. Þeim hlýtur að vera það ljóst, eins og ég hef sagt hér áður, að það er ekki hægt að taka fé úr þessum sjóði, nema til komi samþykki meiri hlutans í stjórn sjóðsins, sem eru eigendur sjóðsins, fulltrúar sjómanna, útgerðarmanna og fiskverkenda, nema þá að til komi sérstök lagabreyting á Alþ. Spurning þeirra hlýtur þá að vera sú til mín, hvort ég vilji ekki gefa yfirlýsingu um það, að Alþ. breyti ekki þessum lögum. Það er nú kannske farið fram á nokkuð mikið af mér, að ég segi til um það einu sinni fyrir allt, að Alþ. breyti ekki l., sem þessir hv. þm. hafa auðvitað fulla aðstöðu til þess að taka þátt í ekki síður en ég. (Gripið fram í: Þetta er nú frjálsleg túlkun.) Frjálsleg túlkun, þetta er bara þannig. Það eru til tveir möguleikar. Annar er sá, að meiri hl. í stjórn sjóðsins samþykki að greiða úr honum, eigendurnir sjálfir. Hinn er sá, að Alþ. geri það. Hver er þriðji möguleikinn? Vilja þessir hv. þm. minnast á hann? (MJ: Við skulum ræða um hann á eftir.) Já, ég er tilbúinn að ræða um það. Það verður afskaplega fróðlegt fyrir mig að heyra þessa þriðju leið. Mér er ekki kunnugt um, að aðrir möguleikar séu til að taka fé úr þessum sjóði.

Ég er á þeirri skoðun, að það sé að vísu mjög þýðingarmikið fyrir sjávarútveginn að geta haft sjóði eins og þennan til þess að hlaupa upp á, þegar erfiðleikar steðja að, þegar verðfall verður á erlendum mörkuðum eða annað slíkt ber að. En mér er líka vel ljóst, að sjóður af þessu tagi er mjög sérstaks eðlis, og ég hef bent á það í umr. á Alþ. áður, að ég er ósköp hræddur um, að aðrir aðilar í landinu tækju því ekki allt of vel, ef þeim væri gert að byggja upp sjóð af þessu tagi. Hér er sem sagt ákveðið með grundvallaratriðum þessara laga, að ákveðinn hluti af því verði, sem fæst fyrir útfluttar sjávarafurðir, skuli tekinn og ekki afhentur eigendum fjárins, heldur féð lagt í sjóð. Meginhugsunin er: Þarna leggjum við fé til hliðar, sem hægt er að nota síðar, þegar þörf krefur. — Ætli það væri ekki hægt að segja þetta við fleiri aðila í landinu? Ætli væri t.d. ekki hægt að segja þetta, við skulum segja við alla embættismenn í landinu, segja við þá: Það er búið að ákveða ykkur hátt kaup, það var ákveðið í góðæri. Væri ekki rétt að setja lög um það, að þið legðuð í ákveðinn sjóð 10–15% af kaupinu og það yrði fest í ákveðnum sjóði, svo að hægt væri að hlaupa upp á það og balda uppi hinum háu launagreiðslum til ykkar, þegar hallaði undan fæti hjá þjóðinni? Hvað halda hv. þm., að sagt yrði, ef till. kæmi fram um myndun á slíkum sjóði? Og ætli mætti ekki taka marga aðra fleiri. Ég hef nokkrum sinnum bent á það áður, að þessi ráðstöfun, sem vissulega er gott að geta stuðzt við, þegar sérstaklega vel gengur, er þó gerð með mjög sérstökum hætti fyrir sjávarútveginn einan, en slíkar kvaðir eru ekki Íagðar á aðra. Við höfum fundið það, bæði nú og áður, að afleiðingin verður svo þessi, að þegar búið er að leggja þetta fé til hliðar, þá eru ýmsir aðilar í þjóðfélaginu, sem aldrei mega heyra nefnt, að það verði tekið út aftur.

Hv. 5. þm. Reykn. spurði líka um það, hvort ætlunin væri að gera hér ráðstafanir til þess að færa fé á milli deilda í sjóðnum, eins og loðnuverðjöfnunardeildarinnar og annarra deilda. Þetta er ekki heimilt að gera, og ég fyrir mitt leyti mundi aldrei vilja standa að slíku. Ég tel, að það væri í rauninni herfileg misnotkun á megintilgangi þessara laga. En það yrði að sjálfsögðu að vera Alþingis að fjalla um það, þegar þar að kæmi, ef fram kæmu till. um slíkt.

Það, sem er aðalatriðið í þessum efnum, er, að verðlagsráð sjávarútvegsins á samkv. lögum að ákveða um fiskverð. Ef það hefði ekki náðst samkomulag, átti verðlagsráðið að áfrýja málinu til yfirnefndar, sem hefði þá úrskurðað um fiskverðshækkun. Verðlagsráðið kaus hina leiðina, að ná samkomulagi milli fiskseljenda og fiskkaupenda, og þessu samkomulagi náðu þeir á þann hátt að samþykkja fiskverðshækkun með því skilyrði, að þeir styddu hvor annan í stjórn verðjöfnunarsjóðsins til að fá tilteknar greiðslur úr sjóðnum til að standa undir fiskverðshækkuninni. Þannig bar málið að, og það gat í rauninni ekki borið að á neinn annan hátt, nema þá þessir aðilar hefðu flutt um það sérstaka till. að óska eftir því, að ríkið borgaði þá fiskverðshækkun, sem þeir voru að ákveða. En þá var miklu sennilegra, að það hefði orðið að vera ákvörðun í yfirnefnd, en ekki verðlagsráði sem slíku.

Hv. 5. þm. Reykn. minntist á það, að sagt hefði verið, að þessi fiskverkshækkun, sem ákveðin var í októberbyrjun, væri tvenns konar: annars vegar 10% almenn hækkun og hins vegar 5% sérstök hækkun, og hann taldi, að þeir aðilar, sem hann hefði rætt við úr verðlagsráðinu, könnuðust ekki við þetta og vissu ekki, hvaðan þetta væri komið. Mér þykir fróðlegt að heyra það, að þeir segi þetta. En þegar ég féllst á till. þeirra varðandi greiðslur úr verðjöfnunarsjóðnum, til þess að hægt væri að framkvæma þá fiskverðshækkun, sem þeir vildu knýja fram, þá setti ég eftir nánari ákvörðun frá ríkisstj. það skilyrði, að fiskverðshækkunin yrði með þessum hætti, vegna þess að hér var um mjög misjafna aðstöðu hinna einstöku framleiðslugreina að ræða, þ.e.a.s. að hér yrði um almenna 10% hækkun að ræða og hins vegar yrði um 5% hækkun að ræða, sem gengi örugglega yfir allar fisktegundir. En það lá fyrir á þessum tíma, að vissar fisktegundir, eins og bæði karfi og ufsi, hefðu ekki hækkað neitt við þessa almennu fiskverðshækkun, ef ekki hefði komið til einhver slík sérstök ákvörðun. Það fór svo í verðlagsráðinu, að þeir féllust á að taka við þessum skilyrðum og ákveða nokkra verðlagshækkun einnig á þessum fisktegundum. En eins og skiljanlegt var frá þeirra hálfu, tilkynntu þeir bara tiltekna hækkun á hinum ýmsu fisktegundum. Þannig hækkaði þorskurinn samkv. þeirra ákvörðun um 19%, en ufsi og karfi hækkuðu um 6% og aðrar fisktegundir þar á milli. Það er ósköp eðlilegt, að þeir hafi hagað þessu svona, en krafa kom fram frá hálfu ríkisstj. um, að verðlagningin yrði miðuð við þetta, við 10% almenna hækkun og 5% sérstaka hækkun.

Ég skal nú ekki orðlengja frekar um þetta. Það gefst eflaust tækifæri til þess að ræða þetta mál á eins breiðum grundvelli og hv. þm. óska eftir, þegar málið kemur hér úr n. En það mun ekki standa á mér að ræða við þessa hv. þm. um málið. Ég hef lengi haft mjög ákveðnar skoðanir á þessum sjóði, sem þarna er um að ræða, og hef það enn. En þær eru ekki bundnar við það, að greiðslur úr sjóðnum séu eingöngu og tillitslaust að öðru leyti miðaðar við verðbreytingar. Ég er á þeirri skoðun, sem fram kemur í 7. gr. laganna, að það beri einnig og verði einnig við ákvörðun viðmiðunarverðs í sjóðnum að taka tillit til rekstrarafkomu atvinnuvegarins í heild.

Ég ítreka svo það aðeins til þeirrar n., sem fær með málið að gera, að ég vænti þess, að hún afgreiði málið fljótlega, af því að það er orðið mjög brýnt, að þeir aðilar, sem bíða eftir þessum peningum, sem hér er um að ræða, geti fengið þá greidda.