29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. var áðan að vitna í yfirlýsingu, sem ég hafði gefið í Nd., og las nokkuð upp úr henni, að sjálfsögðu réttilega. En hann hefði þurft að lesa aðeins lengra og ég ætla nú að gera það, með leyfi hæstv. forseta. Í framhaldi af því, sem hv. þm. las, sagði ég:

„Að öðru leyti vil ég bæta því við, að í mínum augum er þetta mál. sem hér liggur fyrir, tiltölulega einfalt. Það er til þess að taka af tvímæli um það, að útvegsmenn sjálfir og fiskiðnaðurinn fái leyfi til þess að nota sinn eigin sjóð til þess að leysa sín eigin vandamál um takmarkaðan tíma. Þess vegna vil ég til viðbótar þessari yfirlýsingu, sem ég gaf áðan, hafa þann fyrirvara á, að þessi sjóður er eign þessara aðila, sem að honum standa, og þess vegna verður auðvitað alltaf fyrst og fremst að hlusta á það, hvað þeir segja. Þess vegna vil ég áskilja mér allan rétt til þess að taka tillit til þeirra óska, sem kynnu að koma fram frá þessum aðilum, sem þennan sjóð eiga.“

Ég get endurtekið það hér, að ef svo kynni að fara, að óskir kæmu fram frá þessum aðilum, sem sjóðinn eiga, að leysa að einhverju leyti þann vanda, sem framundan er, með þátttöku þessa sjóðs, þá mun ég að sjálfsögðu taka tillit til þeirra óska. Ég álít, að það sé rétt og eðlilegt, að þeir ráði þessum sjóði. Eins og hér hefur verið sagt, er þetta þeirra eigið fé. Hvers vegna skyldu þeir ekki hafa síðferðilegan rétt til þess að fiska eftir því að fá að nota þennan sjóð að einhverju leyti til að mæta áföllum, sem verða kunna og verða því miður oft í þessum atvinnuvegi? Þess vegna held ég, að ég hafi orðað þetta eins og ég gerði í þessari yfirlýsingu, að ég teldi, að þetta frv. væri flutt til þess að taka af tvímæli í þessu efni, því að í raun og veru álit ég það alveg í samræmi við anda þessara laga, hvað sem bókstafnum líður, að þessir aðilar, sem eiga sjóðinn, megi nota hann í því skyni að mæta aflabresti alveg eins og t.d. verðbreytingum.

Ég verð að segja það, að mér finnst hv. þm. gera helzt til lítið úr þessum aðilum, þegar hann lætur að því liggja, að þeir hafi verið kúgaðir til þess að setja fram þessar óskir. Ég held, að þessir menn, sem þarna er um að ræða, séu ekki þess háttar menn, að þeir láti kúga sig til eins eða neins. Hitt get ég vel skilið, að þeim þyki eðlilegra, þegar á bjátar, að leita fyrst í sinn eigin sjóð, áður en þeir gera kröfu til þess, að vandræði þeirra séu leyst með tilstuðlan almannafjár, því að vissulega eiga þeir sinn rétt einmitt í þessum sjóði. Það getur alltaf orkað meira tvímælis, hvaða kröfur menn geta gert til almannafjár. Vissulega verða þær kröfur að vera velrökstuddar, og ég hef skilið þessa hv. þm. og aðra hv. stjórnarandstæðinga þannig, að ríkissjóður væri ekki of vel á vegi staddur og ekki aflögufær. En í þessu tilfelli skilst mér, að ekki hafi verið nema um tvennt að velja, annaðhvort að taka þetta fé af almannafé, úr ríkissjóði, eða úr eigin sjóði útvegsins. Ég skildi hv. þm. svo, að hann féllist algerlega á það, að fiskkaupendur, ef svo má segja, hefðu ekki haft ráð á því, eins og á stóð, að greiða þá upphæð, sem þarna félli til. Þá sé ég ekki, að sé nema um tvennt að ræða: annaðhvort komi til styrkur af almannafé eða þeim sé leyft að nota örlítið brot af af eigin sjóði.

Ég held hins vegar, að það blandist engum hugur um það, að ef um varanleg vandræði er að ræða og fyrirsjáanlegur er stórfelldur halli hjá þessum grundvallaratvinnuvegi okkar, verður sá vandi ekki leystur með því einu að ætla að sækja í þennan sjóð. Það er það, sem ég sagði með yfirlýsingu minni. Hitt er allt annað mál, að svo gæti staðið á, að útvegurinn teldi það sanngjarnt, þegar farið væri að skoða öll þessi vandamál og glíma við að leysa þau, sem við verðum auðvitað allir að taka þátt í, og ekki óeðlilegt að verja einhverjum hluta af þessum sjóði til að ná endum saman. Ég veit, að hv. þm., sem svo lengi var vörzlumaður ríkiskassans, skilur betur en margur annar, að það verður ekki allt sótt þangað, enda hefur mér skilizt, að hann hefði einhverjar áhyggjur af því, að það væri tómahljóð þar.