29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

94. mál, orkulög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta litla frv, er tengt þeirri áætlun um sveitarafvæðingu, sem gengið var frá á síðasta ári og þá var kynnt hér á Alþ. Mig langar til að fara örfáum orðum um þessa almennu rafvæðingu sveitanna. Þegar hafizt var handa um hana, var í upphafi sett það mark að tengja öll býli samveitum, þar sem eigi væri lengri meðalfjarlægð milli bæja en 1.5 km í einni og sömu sveit. Þessum áföngum var lokið á árinu 1971, og var á árinu 1970–1971 hafizt handa um gerð áætlunar um áframhald rafvæðingarinnar og lúkningu hennar. Í málefnasamningi núv. ríkisstj. er kveðið á um, að rafvæðingu strjálbýlisins skuli ljúka á þrem árum. Iðnrn. og Orkustofnun gerðu í sameiningu till. í samræmi við þetta, og þær till. samþykkti ríkisstj. í sept. 1971, og þær voru skömmu síðar kynntar hér á hinu háa Alþ.

Í árslok 1971 var gert ráð fyrir, að um 930 býli á landinu væru utan samveitna. Þau skiptust þannig eftir kjördæmum: Reykjanes alls 6 býli, þar af 3 rafvædd frá einkamótorstöðvum og 3 órafvædd með öllu. Vesturland 138 býli, 93 rafvædd frá einkamótorsstöðvum, 10 frá einkavatnsaflsstöðvum og 35 órafvædd með öllu. Á Vestfjörðum 233 býli, 155 rafvædd frá einkamótorstöðvum, 31 frá einkavatnsaflsstöðvum og 47 órafvædd með öllu. Á Norðurlandi vestra 81 býli, 30 rafvædd frá einkamótorstöðvum, 41 frá einkavatnsaflsstöðvum og 37 órafvædd með öllu. Norðurland eystra 76 býli, þar af 20 rafvædd frá einkamótorstöðvum, 44 frá einkavatnsaflsstöðvum og 12 órafvædd. Á Austurlandi 278 býli, þar af 192 rafvædd frá einkamótorstöðvum, 45 frá einkavatnsaflsstöðvum og 41 órafvætt. Á Suðurlandi voru 118 býli utan samveitna, þar af 50 rafvædd frá einkamótorsstöðvum, 45 frá einkavatnsaflsstöðvum og 23 órafvædd með öllu.

Athugun hefur leitt í Ljós neðanskráða flokkun eftir meðalfjarlægð milli býla: Með meðalfjarlægð 1.5–2 km ca. 350 býli, 2–3 km ca. 330 býli og meira en 3 km ca. 260 býli.

Í áætluninni er, eins og ég nefndi áðan, gengið út frá því að ljúka rafvæðingu sveitanna á næstu þremur árum. þ.e.a.s. á árunum 1972–1974 að báðum meðtöldum. Er þá ráðgert að tengja öll þau býli samveitum, sem talið er fært að gera af fjárhagslegum og tæknilegum ástæðum. Framkvæmdaáætlunin var þessi miðuð við kjördæmi: Á Vesturlandi 51 býli 1972, 39 býli 1973 og 36 býli á árinu 1974. Á Vestfjörðum 69 býli á þessu ári, 41 býli á næsta ári og 38 býli á árinu 1974. Á Norðurlandi vestra 26 býli á þessu ári, 20 býli á næsta ári og 19 býli á árinu 1974. Á Norðurlandi eystra 38 býli á þessu ári, 15 býli á næsta ári og 8 býli á árinu 1974. Á Austurlandi 100 býli á þessu ári, 92 býli á næsta ári og 66 býli á árinu 1974. Og á Suðurlandi 44 býli á þessu ári, 32 býli á næsta ári og 31 býli á árinu 1974. Þegar lokið verður á þremur árum tengingu þeirra býla, sem hér er rætt um, eru enn samtals 157 býli ótengd eða hefur að svo stöddu eigi verið gefinn kostur á samtengingu. Lausleg sundurliðun sýnir, að 86 þeirra hafa mótorrafstöðvar, 27 hafa vatnsaflsstöðvar, en 49 eru alveg rafmagnslaus. Það er ljóst, að þessi býli, að undanteknum þeim, sem hafa nothæfar vatnsaflsstöðvar til framhúðar, þarf að rafvæða með mótorrafstöðvum eða með nýjum vatnsaflsstöðvum, þar sem virkjunarmöguleikar eru fyrir hendi. Nú fá bændur lán til kaupa á mótorrafstöðvum, sem nemur ca. 70% af kanpverði stöðvar. Eru lánin til 9–10 ára, afborgunarlaus 1–2 ár. en greiðast upp með jöfnum afborgunum á 8 árum og eru vextir 6%. Í þessari áætlun er lagt til, að þessi kjör verði bætt að því er snertir lánsupphæð, þ.e. að hún miðist við 100% af kaupverði stöðvar. Verð algengustu mótorrafstöðvanna er um 175 þús. kr. Heimild Orkusjóðs til lána vegna mótorrafstöðva er bundin í 71. gr. orkulaga, nr. 58 frá árinu 1967. Til þess að unnt sé að hrinda framangreindum till. í framkvæmd, er lagt fyrir Alþ. frv. það til breytinga á orkul., sem ég hef nú verið að kynna, og ég vænti þess, að það fái góðar undirtektir í hv. Ed.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1, umr. vísað til 2. umr. og til hv. iðnn.