18.10.1972
Neðri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í fyrstu ræðu sinni í þessum umr. minntist forsrh. á óheppilegan fréttaburð, þegar fréttamiðlar okkar hafa sagt frá því, að varðskipin hafi komið í höfn. Ég vil taka undir það, sem ráðh. segir, hvað þessi atvik snertir. Ég held næstum því, að það ætti að gera þegjandi samkomulag um, að íslenzkir fréttamiðlar segi aldrei frá ferðum varðskipanna. Ég tala ekki um þennan gamla illgirnistón, sem ég held, að blaðamenn vilji ekki viðhafa, þó að hann skjóti stundum upp kollinum, — þennan gamla tón í garð gæzlunnar, við við þekkjum vel. sem er á þá leið að tortryggja starfslið hennar í hvert skipti, sem skip hennar kemur í höfn.

Að gefnu þessu tilefni vil ég minna á, að samband milli Landhelgisgæzlunnar og ríkisstj. annars vegar og Íslenzkra fréttamiðla hins vegar hefur ekki verið nógu gott, síðan landhelgin var færð út. Það voru teknar ákvarðanir um, að blaðamenn og fréttamenn skyldu ekki fá að vera um borð í varðskipunum né flugvélunum í upphafi, og þetta vakti mikla óánægju, ekki sízt vegna þess, að það er vitað, að erlendir — aðallega brezkir - blaðamenn eru um borð í brezku togurunum og eftirlitsskipunum. Nú vil ég ekki mótmæla þessari ákvörðun ríkisstj. eða Landhelgisgæzlunnar, hvor sem tekið hefur hana. Ég get skilið, að það verður að vera takmörkunum háð, hve mörgum blaðamönnum, kvikmyndatökumönnum og ljósmyndurum er hleypt um borð í þessi fáu skip okkar og flugvélarnar. Og það bætir vissulega mjög úr skák, þegar hópi þeirra er boðið með í flugferð, eins og gert var nú síðast. En ég vil minna á, að það er mjög nauðsynlegt, að blaðamenn sjálfir fái að taka myndir af því, sem gerist, eða að Landhelgisgæzlan taki þessar myndir, en að við getum eignazt myndir, sem hægt er að koma á framfæri í fréttamiðlum í Bretlandi og viðar og geta orðið til þess að hjálpa okkar málstað. Myndin, sem er í einhverjum blöðum í dag og sýnir brezkan togara á fullri ferð, augsýnilega á eftir varðskipinu, segir sína sögu. Hún staðfestir það, sem við segjum, að þessi skip geri tilraunir til að sigla niður okkar skip.

Þar að auki held ég, að það sé mjög mikilvægt, og þá er ekki um að ræða eingöngu fréttamiðla, heldur starfsemi Landhelgisgæzlunnar sjálfrar, að tekið sé sem mest af myndum, sérstaklega úr lofti, þegar kemur til einhvers konar aðgerða eða átaka. Þarna þarf að vera samstarf milli flugvélanna og skipanna, og ég efast ekki um, að slíkt samstarf sé nú þegar fyrir hendi. En það, sem ég hef í huga, er ekki aðeins, að við getum fengið á þennan hátt myndir, sem gætu stutt málstað okkar um allan heim, heldur líka hitt, að það getur verið nauðsynlegt fyrir okkur að eiga til kvikmyndir af þeim atburðum, sem gerast, til þess að geta sýnt eftir á, hvað raunverulega kom fyrir. Það er ekki víst, að menn trúi því allir, að togararnir geti siglt niður varðskip, því að umheimurinn trúir sjálfsagt, að þetta séu stærri og meiri skip heldur en þau raunverulega eru.

Út af öðru, sem hér hefur verið rætt, þ.e. komu brezku og þýzku hjálparskipanna í íslenzkar hafnir, vil ég taka undir þá skoðun, sem þegar hefur komið sterklega fram hjá tveimur hv. þm. Ég tel, að þessi skip eigi að fá að flytja á land alla særða menn og sjúka, sem þess þurfa, en eigi ekki að fá neina frekari fyrirgreiðslu í landi. Ef það er svo, að ríkisstj. Íslands hafi enga lagaheimild til þess að hafa áhrif á þetta og koma þessu banni til framkvæmdar, vil ég skora á utanrmn., sem fer með landhelgismálin hér á þinginu, að gangast fyrir því, að samið verði frv. og lagt fyrir þingið, sem veitir ríkisstj. heimildir til þess að ráða því, hvort skip sem þessi fái olíu, vatn og aðra slíka þjónustu. Við viljum hjálpa sjúkum mönnum og særðum, en skipin, sem gera við ratsjárnar, sem gera við vélabilanir og veita þessum togurum stöðuga hjálp og leiðbeiningar, jafnvel fyrirskipanir, þau eiga ekki að fá slíka aðstoð sem þau hafa fengið í höfnum á Íslandi.