29.11.1972
Neðri deild: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

96. mál, sala Grenivíkur, Svæðis, Höfðabrekku og hluta af landi Borgar

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, 4 þm. í Norðurl. e., hér í hv. d. í samráði við þm. sama kjördæmis í hv. Ed. að flytja á þskj. 118 frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Grýtubakkahreppi jarðirnar Grenivík, eyðibýlið Svæði og nýbýlið Höfðabrekku.

Í Grýtubakkahreppi austan Eyjafjarðar er sjávarþorpið Grenivík. Þar hefur lengi verið nokkur útgerð, en þorpið er vaxandi í seinni tíð og þar hefur nú verið unnið undanfarin ár að hafnargerð, frystihúsbyggingu og fleiri framkvæmdum til eflingar atvinnulífi, og er þetta þorp nú mjög vaxandi í seinni tíð. Það er ósk hreppsins, þ.e.a.s. Grýtubakkahrepps, sem fram kemur í ályktun, sem einróma var gerð þar í hreppsnefndinni, að fá keypta jörðina Grenivík, sem þorpið stendur á, og er það auðvitað fyrst og fremst gert vegna þorpsins og líklegs vaxtar þess.

Hér er einnig gert ráð fyrir, að heimilt verði að selja hreppnum eyðibýlið Svæði. Á þessu eyðibýli var fyrir nokkuð löngu stofnað lítið nýbýli, sem heitir Höfðabrekka. Liggja þessi lönd að Grenivík og er þar um lítið land að ræða.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta mörg orð fyrir hönd okkar flm., en vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn. og vil mega vænta þess, að það fái góðar undirtektir í deildinni.