30.11.1972
Sameinað þing: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

70. mál, öryggismál Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mig langar til þess að víkja að nokkrum atriðum nú í sambandi við þessa till. til þál. við fyrri umr. hennar og áður en hún fer til n., sem telja verður eðlilegt.

Það er ekki nema eðlilegt, að bæði hér á Alþ. og annars staðar komi fram hugmyndir og till. um, að ýmis atriði varnarmálanna séu endurskoðuð og athuguð, enda hefur reyndar verið svo fyrr og síðar. En ég verð þó að segja það, að í sambandi við þennan tillöguflutning finnst mér bæði gæta þess, að tillögumenn gefi sér vissar forsendur, sem hæpið er að gera ráð fyrir, að vitneskja geti legið fyrir um fyrr en að undangenginni þeirri rannsókn, sem till. beinist að, að framkvæmd verði. Og í öðru lagi finnst mér till. með sinni grg. vera í vissum atriðum nokkuð mótsagnakennd. Um þessi atriði vil ég fara nokkrum orðum og önnur atriði, sem tengjast við málefni eins og þetta, svo veigamikið sem það er á hverjum tíma.

Flm. gera grein fyrir því, að í raun og veru sé verið að viðra hér hugmyndir, sem fram hafi komið á flokksþingi Alþfl., eins og segir í grg., en bæði bar og einnig í tillöguflutningnum nú er kveðið svo á eða ályktað, að hernaðarleg þýðing Íslands felist nú að langmestu leyti í eftirliti með siglingum í og á hafinu milli Grænlands, Íslands og Færeyja. Þetta er í upphafi till., en í tölulið 2 er einnig talað um þýðingarmesta hlutann af verkefni varnarliðsins, þ.e.a.s. eftirlitshlutverkið, sem sé þýðingarmesta hlutverk varnarliðsins, og stjórn varnarsvæðanna, eins og þar stendur, en mér er nú ekki alveg ljóst, hvað við er átt. Ég efast um, að það sé hægt að gera sér grein fyrir því, hvort varnarhlutverk varnarliðsins hér á landi sé þýðingarmeira en eftirlit sama liðs, fyrr en fyrir liggur gaumgæfileg athugun á því, sem lengi hefur nú staðið til og hæstv. utanrrh. hefur síðast boðað, að muni hefjast í viðræðum við Bandaríkin upp úr áramótum. Og mér finnst, að það liggi í hlutarins eðli, að ef eftirlit með hernaðaraðgerðum eða hreyfingum hernaðartækja þjóða er eins þýðingarmikið og látið er í veðri vaka, þá sé auðvitað þýðingarmeira, að vörnin sé í lagi, sem við á að taka, þegar eftirlit gefur merki. Nú veit ég það, að flm. þessarar till. eru ekki að gera því skóna, að varnarmáttur Atlantshafsbandalagsins minnki, og gerði frsm. till. einmitt grein fyrir því, að að því leyti væri óbreytt afstaða Alþfl., og þá geri ég ráð fyrir, að þeirra hugsun sé sú, að ef eftirlitið hér á landi sé rækt með vissum og tilteknum hætti, þá ætti það að vera okkur nægjanleg vörn, vegna þess að varnarmáttur eða skjöldur Atlantshafsbandalagsins að öðru leyti, enda þótt ekki væri neinn hluti af honum staðsettur hér, mundi duga okkur til lífsbjargar, ef því væri að skipta.

En þá vil ég víkja nokkrum orðum að því, sem mér finnst vera dálítið mótsagnakennt, eins og ég sagði áðan, í till. og grg. Það er fyrst og fremst það, að hér eru settar fram hugmyndir um óvopnaða eftirlitsstöð í sambandi við Atlantshafsbandalagið og hugmyndir um athugun þess, hvort við Íslendingar værum færir um að taka að okkur að reka hana. Í grg. og eins og fram kom hjá hv. frsm., þá segir hins vegar, að Ísland hafi nú á dögum aðra og að ýmsu leyti meiri hernaðarlega þýðingu heldur en áður og það sé með öllu óraunhæft, að varnarliðið hverfi frá Íslandi, án þess að eitthvað komi í staðinn, eins og þar stendur. Og siðan heldur áfram í grg.: „Ef óvopnað eftirlitsflug og annað, sem því fylgir, skiptir nú mestu máll, hljóta Íslendingar að athuga vandlega, hvort þeir geta tekið það hlutverk að sér“ En þarna er einmitt verið að staðfesta það, sem ég sagði, það er réttara að gera sér grein fyrir fyrst, hvort óvopnað eftirlítsflug og annað, sem því fylgir, skiptir nú mestu máli, eða hvort önnur tilhögun varna landsins sé ekki síður þýðingarmikil. En þessar staðhæfingar, sem fram koma í máli frsm. um hernaðarlega þýðingu landsins og hversu óraunhæft það sé, að varnarliðið hverfi frá Íslandi, án þess að eitthvað annað komi í staðinn, er framhald af upplýsingum og álitsgerðum um þýðingu Íslands nú á rímum í hernaði. Þar er fyrst og fremst vitnað til þess, að Norðurflotinn, sem svo er kallaður, hluti Rauða flotans, sé nú orðinn stærsti hluti af fjórum, sem Rauði flotinn aðallega greinist í. En Norðurflotinn er sá floti, sem staðsettur er spölkorn frá landamærum Noregs á Kólaskaga og er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að sinna hernaðarþörfum Sovétríkjanna á Norður-Atlantshafi. Allt er þetta nánar tilgreint samkv. álitsgerðum sérstakra stofnana, enskrar stofnunar annars vegar og norskrar stofnunar hins vegar. Það kemur fram í mörgum töluliðum, sem greint er, hvað talið er vera aðalhlutverk Norðurflotans. Hann á m.a. að hafa það hlutverk að rjúfa samgönguleiðir og siglingar Atlantshafsbandalagsins, m.ö.o. skera á naflastrenginn, ef svo mætti segja, lífæðina, þegar þar að kæmi eða ef til þess kæmi að veita flotastyrk við sovézkar hernaðaraðgerðir á þessu svæði, þ. á m. kannske talið Ísland, því að vissulega er Ísland á þessu svæði, og að sýna sovézkt vald og draga úr trú á ábyrgð Atlantshafsbandalagsins á öryggi aðildarríkja þess í Norður-Evrópu, og þar kemur innan sviga: Noregs, Danmerkur og Íslands.

Það er einnig vitnað til þess, að utanríkismálastofnunin í Osló hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að Sovétríkin telji nú alveg tvímælalaust, að framvarðarlína þeirra á Norður-Atlantshafí sé milli Íslands og Færeyja. Þeir segja, eins og þar stendur: „Varnarlínan svo framarlega með Noreg að baki gefur til kynna, að Rússar í flotaæfingum sinum líti í vaxandi mæli svo á, að Noregshaf sé Mare Soveticum.“ Minna má nú ekki gagn gera. Rómverjar, þegar veldi þeirra var mest að fornu, kölluðu Miðjarðarhafið Mare Nostrum, þ.e.a.s. þeir kölluðu það sitt haf. En nú er hafið kringum Ísland og austur af Íslandi og allt í kringum það orðið sovézkt haf að skoðun þeirra, sem hér er vitnað til, eða Mare Soveticum. Ég held, að við hljótum öll að gera okkur grein fyrir því, að þegar svo er ástatt, þá eru varnarmál landsins í miklu ríkari mæli heldur en nokkru sinni áður alvarleg og veigamikil, og veltur því á miklu, hvernig við stöndum að aðgerðum eða ráðagerðum um breytt fyrirkomulag eða nýtt fyrirkomulag í sambandi við varnarmálin, sem hafa verið með sérstökum hætti um 20 ára skeið. En þá geta menn líka varpað fram mörgum spurningum, og hv. frsm. vék að því, að mörgum spurningum væri ósvarað. Hvaða tilgangi á að þjóna hinn geysilegi flotastyrkur Sovétríkjanna á Norður-Atlantshafi með aðsetri á Kólaskaga? Flotinn byggður á því tímabili, sem varnarsamningur við Bandaríkin hefur gilt. Hann var ekki til á árunum upp úr 1950, en er nú orðinn stærsta flotadeildin. Það eru líka margar sagnir um það og upplýsingar, að það sé mikið lið samandregið við bækistöð þessa flota A Kólaskaga, að landgönguliðssveitir sé sífellt verið að efla þar o.s.frv. Dettur nokkrum í hug, að þessum landgönguliðssveitum sé ætlað það hlutverk að taka land í Bandaríkjum N.- Ameríku? Ég efast um, að því verði haldið fram og þær séu þar í þeim tilgangi. En hvaða hlutverk er þeim ætlað? Er þeim ætlað hlutverk í Norður-Noregi, eða er þeim ætlað hlutverk á Íslandi, eða er þeim aðeins ætlað það hlutverk, eins og hér kom fram áðan og ég vitnaði til, að sýna vald Rómverja nútíma vorra, þ.e.a.s. Sovétríkjanna, á þessu hafi þeirra, sem þeir kalla svo, sem í kringum okkur liggur? Valdbeitingin út af fyrir sig eða það að sýna valdið, sýna tennurnar, getur haft sína þýðingu, m.a. til þess að veikja samstöðu varnarríkja, hinna vestrænu lýðræðisríkja, sem töldu sig á sínum tíma knúin til þess að mynda sitt varnarbandalag vegna yfirgangs kommúnismans í Evrópu, vegna yfirgangs Sovétríkjanna, vegna þeirrar nútíma nýlendustefnu, sem þetta ríki rak. Það er nútíma nýlendustefna, sem rekin hefur verið af hálfu Sovétríkjanna í Eystrasaltsríkjunum og í mörgum öðrum Austur-Evrópuríkjum, þar sem herir þeirra hafa haft aðsetur og brotið undir sig ríki í raun og veru eða þeir hafa ráðið í skjóli þessa hers hinum pólitísku hreyfingum í þessum löndum. Þetta gerist að vísu á sama tíma sem gömlu nýlenduþjóðirnar hafa verið að gefa sínum nýlendum frelsi í svo ríkum mæli sem kunnugt er og ég þarf ekki að rifja upp fyrir mönnum.

Ég skal ekkí hafa fleiri orð um þetta atriði, sem mér fannst vera vitnisburður um nokkra mótsagnakennd, en ég vil ekki heldur leggja of mikið í það, og þess vegna endurtek ég það, sem ég sagði áðan, að ég held, að fyrir flm. þessarar till. — og það hefur komið fram hjá hv. frsm. — sé alveg fullur skilningur á varnarmætti Atlantshafsbandalagsins eða þeirra ríkja, sem í því taka þátt.

Hæstv, utanrrh, minntist hér áðan á breytingar, sem orðið hefðu í Evrópu, sem virtust boða þíðu, bæði í sambandi við fyrirhugaða öryggismálaráðstefnu og einnig vegna úrslita kosninga í Vestur-Þýzkalandi, þar sem Willy Brandt kanzlari vann hinn glæsilega sigur. Mig langar til í því sambandi að minna á, að það var Willy Brandt öllum öðrum fremur, sem sendi hið svokallaða „Reykjavíkursignal“ frá ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins hér 1968, en meginefni og inntak þessa svokallaða „Reykjavíkursignals“ var það, að fylgt skyldi fram þeirri stefnu í Atlantshafsbandalaginu að reyna að nálgast Austur-Evrópuþjóðirnar og reyna að skapa þíðu á milli þessara aðila, en umfram allt með gagnkvæmum aðgerðum á báða bóga og hvergi einhliða aðgerðum, sem ekkert gerðu annað en veikja varnarmátt og veikja stöðu hinna vestrænu lýðræðisríkja eða tefja fyrir, að þau næðu árangri í að skapa þá þíðu, sem þessi ágæti maður og margir aðrir aðilar hafa haft forustu um. En hann var í forsæti á þessum ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn var hér í Reykjavík 1968 og lagði mikla áherzlu á, að menn gripu ekki til einhliða aðgerða, en allt, sem gert væri, yrði að byggjast á gagnkvæmum skilningi á milli austurhlutans og vesturhlutans, á því að tryggja betur en áður hefði verið frið í heiminum. Þessi stefna var miklu eldri en frá 1988, en hún var túlkuð í ályktunum fundarins hér 1968, hún var eldri hjá Atlantshafsbandalagsþjóðunum og hún hafði ekki hlotið neitt andsvar að austanverðu frá. Og ég held, að það sé rétt munað, að það sé ekki fyrr en á árinu 1970, sem hún hlýtur sitt andsvar frá Sovétríkjunum, þegar farið er að fallast á það af þeim, að það sé eðlilegt, að Bandaríkin og Kanada, þessi Ameríkuríki, séu aðilar að þeirri öryggisráðstefnu Evrópu, sem nú er verið að undirbúa, að geti orðið haldin í byrjun árs 1973.

Varðandi yfirlýsingu núv. hæstv. ríkisstj., sem till. snertir, og þegar hæstv. utanrrh. telur, að flm. séu að nálgast stefnu ríkisstj. í varnarmálum með flutningi þessarar till., þá svara þeir náttúrlega fyrir sig. En ég vil gjarnan af því tilefni taka það fram, að það eru einkum tvö atriði, sem vakið hafa athygli í sambandi við utanríkismálastefnu eða varnarmálastefnu núv. hæstv. ríkisstj. Annað er dvöl varnarliðsins hér á landi, og um það vil ég fyrst segja þetta, að ég hef aldrei haft aðra skoðun en að það væri eðlilegt að endurskoða stöðu varnarliðs hér á landi og með hverjum hætti því yrði bezt fyrir komið. En hitt er annað mál, að þessi yfirlýsing hefur valdið miklum ágreiningi hér innanlands, efasemdum hér innanlands og kannske misskilningi á erlendum vettvangi, m.a. vegna þess, hversu loðin þessi yfirlýsing er. Það þurfti að ræða um þessi mál mánuðum saman á s.l. þingi til þess að fá samstöðu í svörum ráðh. við því, hvað í henni fælist. En nú liggur sem betur fer það ákveðna svar fyrir, hæstv. utanrrh. hefur tekið af öll tvímæli um það, að málið verður athugað og endurskoðað og á grundvelli þeirrar endurskoðunar, niðurstöðu þeirrar endurskoðunar, verður tillögugerð byggð og ákvörðun tekin í samráði við Alþ. Ráðh. hefur jafnvel gengið svo langt að segja í sjónvarpinu, að ef niðurstöðurnar yrðu þær, að það væri talið nauðsynlegt að hafa varnarlið hér á landi, þá yrði varnarliðið áfram.

Hitt atriðið í varnarmálayfirlýsingu hæstv. núv. ríkisstj. er að mínum dómi miklu þýðingarmeira og miklu alvarlegra. Það er þar sem því er lýst yfir, að það sé ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna um afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins. Því er beinlínis lýst yfir, að það sé ágreiningur innan ríkisstj. um afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins, en núverandi skipun skuli haldast fyrst um sinn. Ágreiningurinn er svo mikill, að sumir aðilar í ríkisstj. telja eintómt hjóm og vitleysu að láta sér detta í hug að vera aðilar að þessu vestræna varnarbandalagi, en hins vegar er það vitað, að mikill meiri hl. eða kannske allir þm. og þorri fylgjenda annarra flokka í ríkisstj. telja jafnveigamikil aðild okkar að Atlantshafshandalaginu eins og áður. En ég efast um, að það yrði víða á byggðu bóli í hinum vestræna heimi, að það settist á laggirnar samsteypustjórn flokka lýsandi því yfir, að það væri ágreiningur innan flokkanna um alvarlegustu málefni viðkomandi lands, þ.e.a.s. varnarmálin, eins og ástandið er, hefur verið og var, þegar þessi yfirlýsing var gefin. Slíkar yfirlýsingar eru mjög óvarlegar að mínum dómi og til þess líklegar að varpa rýrð á álit okkar út á við og veikja öryggi landsins. Þessi yfirlýsing var þess vegna og hefur verið að mínum dómi miklu alvarlegri en hin, þó að menn vildu endurskoða varnarsamninginn og stöðu varnarliðsins hér á landi með einhverjum loðnum yfirlýsingum þar um.

Þessi till., sem hér er flutt og til umr., er, eins og ég sagði, til þess að viðra hugmyndir, sem fram hafa komið á flokksþingi Alþfl. Ég vil af því tilefni leyfa mér aðeins að vitna til þeirra skoðana og yfirlýsinga, sem fram komu á nýlega afstöðnum flokksráðsfundi og formannaráðstefnu Sjálfstfl. og snerta þessi mál, án þess að ég þó ætli að fara að lesa hana hér upp fyrir hv. þm., en ég vil mega vitna til nokkurra atriða úr henni, sem snerta málið, styðja þær skoðanir, sem ég hef verið að reyna að láta í ljós, og afstöðu okkar sjálfstæðismanna. Þar er m. a. sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hið jákvæða starf Atlantshafsbandalagsins í þá átt að draga úr spennu í Evrópu virðist nú vera farið að bera árangur. Kjarninn í þessari viðleitni er gagnkvæm afvopnun og minnkun herafla. Einhliða aðgerðir raska varnarmætti lýðræðisríkja og spilla þeim árangri, sem þegar hefur náðst.“

Þetta er einn þátturinn í yfirlýsingu okkar sjálfstæðismanna, og hann er í samræmi við þær skoðanir, sem fram hafa verið settar af Willy Brandt, kanzlara Vestur-Þýzkalands, sem ég minntist á áðan, og öðrum fyrirsvarsmönnum Atlantshafsríkjanna. Þær voru glöggt mótaðar á fundinum hér, sem ég vék að áðan, 1968, og eftir þann tíma. Og það er í samræmi við skoðanir margra á þeim málum, að það sé einmitt tilvera Atlantshafsbandalagsins og varnarmáttur þess, sem sé uppsprettan að þeirri þíðu, sem menn eru nú að gera sér vonir um, að geti verið fyrir hendi og eigi eftir að gera vart við sig í Evrópu. Við sögðum enn fremur — með leyfi hæstv. forseta á þessa leið:

„Flokksráðið telur, að öryggi landsins og stöðu sé stefnt í hættu með því, að ágreiningur skuli vera innan ríkisstj. um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.“

Þetta er í samræmi við það, sem ég var að reyna að gera grein fyrir áðan. Hins vegar, þegar við sjálfstæðismenn erum að reyna að gera okkur grein fyrir stöðu varnarliðsins annars vegar, varnarhlutverki þess og eftirlitshlutverki, þá eru okkar viðhorf á þessa leið, sem ég vildi mega vitna hér til, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk varnarliðsins er enn sem fyrr annars vegar fólgið í vörnum Íslands og svæðisins umhverfis landið og hins vegar að viðhalda jafnvægi og stuðla að stöðugleika á Atlantshafssvæðinu. Stóraukin umsvif og útþensla sovézka flotans hafa því aukið þýðingu landsins í varnar- og öryggiskerfi Atlantshafsbandalagsins. Ekki verða dregin skörp skil milli eftirlitshlutverks og varnarhlutverks varnarliðsins nema að undangenginni ítarlegrí könnun. Endanlegt ákvörðunarvald um það, hvernig hvoru þessara hlutverka verður síðan sinnt, hlýtur að vera í höndum Alþingis, sem ályktar á grundvelli þeirra athuguna, sem framkvæmdar eru hverju sinni.“

Þá kem ég að því, að mér finnst eðlilegt, eins og ég hef víst sagt áður, að þessi till. fari til n., utanrmn. Þá hygg ég, að framgangur málsins mundi verða sá, að í utanrmn. yrði athugun þessarar till. að verulegu leyti og óhjákvæmilega að samtengjast þeirri athugun, sem hæstv. utanrrh. hefur forgöngu um varðandi öryggis- og varnarmál okkar og mun hefja upp úr áramótum. En hæstv. utanrrh. hefur eins og hann endurtók í sinni ræðu áðan, lýst því yfir, að þegar þeirri athugun sé lokið, muni niðurstöður þeirrar athugunar og kynning á málefnunum, sem hann stöðu sinni samkv. ber að hafa forustu um, verða lagðar fyrir Alþ., og koma málin þá til meðferðar þingsins í þeirri veru. En hins vegar finnst mér, að hæstv. ríkisstj. sé búin að sitja svo lengi að völdum, að það hljóti að vera nokkrar athuganir, sem nú þegar sé búið að framkvæma, og kunnugt er, að hæstv. utanrrh. hefur talað um, að hann hafi verið að kynna sér þetta mál, og ég teldi mjög eðlilegt, að hann léti utanrmn. við fyrstu hentugleika í té upplýsingar um það, hvaða kannanir hafa þar verið framkv., og hef ég sérstaklega orðað þetta við hæstv. ráðh. í sambandi við þá fundi, sem að jafnaði eru haldnir í utanrmn. og verða sjálfsagt á næstunni, eins og venja er, en þar hafa verið haldnir fastir fundir mánaðarlega. En okkur hefur enn gefizt lítið tóm til þess að fá upplýsingar um varnarmálin sérstaklega, og ég er ekki út af fyrir sig að gagnrýna það. Það hefur verið skýrt með því, að ríkisstj. væri önnum kafin, fyrst og fremst í sambandi við meðferð landhelgismálsins. Þó tel ég, að það væri mjög æskilegt, að við fengjum jafnóðum upplýsingar um málin.

Það er einnig okkar niðurstaða, sem ég vil leyfa mér að vitna til með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta, að leiði athuganir á þessum málum til þess, að unnt sé að tryggja varnir landsins með betri hætti en nú er, þá beri að fylgja því fram, að svo verði gert. Hér er vikið að því, að það sé eðlilegt að okkar dómi að endurskoða aðstöðuna á hverjum tíma og þeim mun fremur sem breytinga sé að vænta eða breytingar hafi gert vart við sig í heiminum. Við minnumst þess, að 1956, 28. marz, þá var ályktað hér í Alþ., að það væri rétt að láta varnarliðið fara, hverfa á brott, vegna þess að þá var skoðun þeirra þm., sem að þessu stóðu, að það væri ekki þörf á því lengur vegna svokallaðrar þíðu, sem þá átti að vera í Evrópu. Ríkisstj. var svo mynduð eftir kosningar sama ár til þess að framkvæma þessa ályktun Alþingis. Það var svo í nóv. sama ár, nokkrum mánuðum síðar, að sama ríkisstj. endurnýjaði með ákvörðun sinni í samkomulagi við Bandaríkin, að nauðsynlegt væri, að varnarliðið héldi áfram að vera á Íslandi, m.a. vegna þess hversu aðstaðan væri ótrygg og fljót að breytast frá því í marzmánuði 1956 og þar til í nóv. sama ár. Og þá má auðvitað benda á mjög alvarlega atburði, sem þá gerðust. Það var bæði ófriðurinn við Súezskurðinn, sem enginn vissi, hvað mundi geta breiðzt mikið út, þar sem landssvæðin þar í kring höfðu verið, eru og verða kannske enn, því miður, hálfgerð púðurtunna, og einnig hafði þá átt sér stað innrás Sovétherjanna í Ungverjaland, þar sem brotin var á bak frelsishreyfing þeirrar þjóðar með hervaldi. En við skulum líka muna það, að eftir „Reykjavíkursignalið“ 1968 átti sér stað innrásin í Tékkóslóvakíu, mánuði eða hálfum öðrum mánuði seinna, — ég man það ekki nákvæmlega, þannig að það skipast oft skjótt veður í lofti í þessum málum, og ber vissulega að hafa á því fulla gát og láta sér a.m.k. ekki missýnast um áætlaða þíðu, þó að ég vilji á engan hátt draga úr því, að svo sé. Við Íslendingar höfum hiklaust tjáð okkur samþykka því að vera aðilar að öryggisráðstefnu Evrópu. Það gerði fyrrv. ríkisstj., og það hefur núv. ríkisstj. einnig gert. Megináherzlan í tíð fyrrv. stjórnar, — og ég efast ekki um, að það sé eitthvað svipað ástatt nú, — var lögð á það, að ráðstefnan yrði að vera svo vel undirbúin, áður en hún hæfist, að líklegt væri, að hún mundi ekki bara vekja tálvonir, heldur væri líkleg til þess að bera einhvern árangur. Og við skulum vissulega vona, að svo verði.

Ég vil svo ljúka máli mínu, herra forseti, með því að mega vitna enn til lokamgr. í ályktun flokksráðsfundar sjálfstæðismanna, sem ég minntist á áðan, þar sem segir eftirfarandi:

„Íslendingar óska eftir friði í heiminum. Þjóðin vill tryggja og viðhalda sjálfstæði sínu og fullveldi, og þetta takmark breytist ekki. Ein helzta skylda sjálfstæðs ríkis er að veita þegnum sínum öryggi. Utanríkisstefna Íslands hefur fram til þessa haft slíkt takmark. Að þessu vilja sjálfstæðismenn vinna og telja, að aðildin að Atlantshafsbandalaginu og hlutdeild í vörnum þess og friðaráætlunum stuðli að því, að markmiði þessu verði náð.“