30.11.1972
Sameinað þing: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

72. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Halldór Kristjánsson:

Herra forseti. Mér finnst raunar ekki sæma að gera spott að góðum vilja til að sporna gegn áfengisneyzlu, en ekki hef ég trú á því, að það mundi miklu breyta, þó að farið væri að prenta á brennivínsflöskur, hversu mikið menn ættu að drekka úr þeim, því að þar held ég, að dugi ekki annað en — ja, ég segi yður, þér skuluð alls ekki sverja. En ég vildi segja hér fáein orð til áréttingar því, að með þessari þáltill. er hér á ferðinni mál, sem engan veginn er jafnsmátt o sumum glámskyggnum mönnum kann að virðast.

Ég hef vitað því haldið fram, að þar sem flestir þeir, sem kæmu í veizlur og boð ríkisstj., væru fullorðið fólk og þar með fullmótað, mundu þau boð ekki hafa nein úrslitaáhrif eða nein veruleg útbreiðsluáhrif áfengisnautnar. Um það út af fyrir sig ætla ég ekki að dæma, þó að ég viti raunar ekki, hvenær menn eru fullmótaðir. Hitt veit ég, að einu sinni kom fram í bæjarstjórn Reykjavíkur, — það hét bæjarstjórn þá, — till. um það, að Reykjavík hætti vínveitingum. Sú till. var ekki samþykkt, og einn af áhrifamestu ráðamönnum bæjarfélagsins hélt því fram, að eðlilegt væri, að Reykjavík hefði sama hátt á og ríkið í þeim efnum. Þetta minni ég á til að sanna með dæmi, að fordæmi ríkisins hefur áhrif og þýðingu fyrir aðrar stofnanir. Það gildir um sveitarfélögin, þar með talin Reykjavík, og það gildir um allar opinberar og hálfopinberar stofnanir og fyrirtæki.

Nú er vitað mál, að ástand í áfengismálum stendur yfirleitt í föstu hlutfalli við almenna bindindissemi. Þar sem fátt er um bindindismenn, verður áfengisbölið ægilegt. En það er því minna vont sem bindindissemi er meiri og bindindismenn fleiri. Þess vegna held ég, að aldrei verði ofmetið það starf, sem unnið hefur verið til að móta áfengislaust samkvæmíslíf og skemmtanalíf í landinu. Ég tel mig í hópi þess fólks, sem hefur stefnt að áfengíslausu samkomuhaldi og skemmtanalífi og yfirleitt algáðu mannlífi. Ég veit, að margir segja, að okkur bindindismönnum séu mislagðar hendur og við höfum farið öfugt að o.s.frv. En ég hef því miður ekki orðið var við örlagaríkt siðabótastarf gagnrýnenda okkar í þessum efnum. Og hvort sem er við að etja ofurefli eða ekki, þá vil ég þó, að mín lífsstefna verði eitthvað í áttina við það, sem Hrafn forfaðir minn sagði forðum daga: „Það skal þó ekki saman fara að mega lítið veita og láta þau illa að komast, að því er ég má.“

Þessi þáltill. er að mínu viti spurning um það, hvort eigi að beita ríkisvaldinu móti þeim, sem vinna að áfengislausu samkvæmíslífi, eða ríkisvaldið eigi að koma þeim til liðs. Og það er ekkert smámál. Ég vil ljúka máli mínu með því að árétta það, sem einn af flm. þáltill., hv. 3. þm. Reykn., Oddur Ólafsson, sagði hér, að samþykkt till. og framkvæmd hennar í verki hlýtur að verða til að breyta nokkuð almenningsálitinu um það, hvað sé sæmilegt og viðeigandi í almennum mannfagnaði, svo að ýmsir gestgjafar fái kjark til að standa fyrir viðhöfn og fagnaði áfengislaust.