04.12.1972
Efri deild: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

29. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja með að lýsa stuðningi mínum við þetta frv., sem hér er til umr. Hv. 1. þm. Vestf. sagði, að hann væri búinn að mæla fyrir þessu frv. þrisvar sinnum a.m.k., og ég hef fylgzt með því. En í tveim fyrri ræðum sínum vék hann ítarlega að rökum þeim, sem liggja fyrir því, að það er ástæða og tímabært að bera fram þetta frv. Ég tek að öllu leyti undir þau sjónarmið og ástæður, sem þar hafa komið fram. Það er enginn vafi á því, að þetta mál, sem hér er til umr., hefur hina mestu þýðingu fyrir fiskiðnaðinn í landinu. Ég mun því í þeim orðum, sem ég segi hér, víkja að till., sem ég hef borið fram, eins og hv. 1. þm. Vestf. gat um, á þskj. 121.

Eins og frv. liggur nú fyrir, er gert ráð fyrir, að það verði rannsóknastofur í hverjum landsfjórðungi, en ekki tekið fram, hvar þær skuli vera. Ég hef ekki á móti því, að það sé stefnt að því, og tel raunar sjálfsagt, að það séu slíkar rannsóknastofur, sem hér er um að ræða, í hverjum landsfjórðungi. En mín till. felst í því, að framan við gr., eins og hún er í frv., komi ný mgr., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins skal starfrækja rannsóknastofu í Vestmannaeyjum og á Ísafirði“

Það eru sérstakar ástæður fyrir því, að ég tek út þessa tvo staði, Vestmannaeyjar og Ísafjörð. Hvað snertir Vestmannaeyjar, er það vegna þess, að hér er í raun og veru ekki um annað að ræða en viðurkenningu á staðreyndum. Slík rannsóknastofa, sem frv. gerir ráð fyrir, er þegar tekin til starfa í Vestmannaeyjum. Það er þess vegna eðlilegt, að það sé beint tekið fram í þessum lögum, að sú rannsóknastofa skuli starfrækt.

En hvað Ísafjörð áhrærir, þá eru ástæðurnar nokkuð aðrar, vegna þess að þar er ekki starfrækt nú rannsóknastofa, sem hér um ræðir. En hvers vegna tek ég þá Ísafjörð út, en nefni ekki í brtt. minni staði í hinum landsfjórðungunum, hliðstætt því, sem hv. flm. þessa frv. lögðu til í frv., sem þeir báru fram á síðasta Alþ? Hvers vegna tek ég ekki staðina, sem þar eru tilgreindir, upp í brtt. mína? Það er vegna þess, að það eru nokkur rök fyrir því, að það þurfi að athuga nánar, hvaða staðir þetta séu í hinum landsfjórðungunum, þar sem slík rannsóknastofa, sem hér er um að ræða, skuli koma. Hv. 1. þm. Vestf. greindi frá þessu skilmerkilega og vék að umsögnum, sem komu frá ýmsum aðilum fiskiðnaðarins, sem gleggst mega vita um þessi efni. Ég tek undir þau sjónarmið, sem liggja til grundvallar því að nefna ekki staðina í hinum landsfjórðungunum.

Ég þykist sjá, að það geti verið álitamál, hvort til á að koma slík rannsóknastofa, sem hér um ræðir, á Sauðárkróki t.d. eða á Húsavík, en þessir tveir staðir eru nefndir í frv. flm. frá síðasta þingi. Ég þykist sjá líka, að það geti orkað tvímælis eða a.m.k. ekki allir verið á það sáttir, að í Austfirðingafjórðungi skuli slík rannsóknastofa vera í Höfn í Hornafirði. Það væri hægt að hugsa sér, að einhver léti sér detta hug, að hún væri eins vel sett miðsvæðis, t.d. á Norðfirði. Þetta sýnir glögglega, að það eru rök fyrir því að flýta sér ekki of hratt um það að ákveða staði fyrir þessar rannsóknastofur í öðrum landsfjórðungum en á Vestfjörðum. En það er rétt, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, að það er sjálfsagt, að slík rannsóknastofa á Vestfjörðum komi á Ísafjörð. Hvort sem yrði, sem er nú líklegast til að byrja með, ein rannsóknastofa eða fleiri á Vestfjörðum, þá ætti hún fyrst að koma á Ísafjörð. Um þetta getur ekki verið ágreiningur og er áreiðanlega ekki ágreiningur.

Það er líka svo, að bæjaryfirvöld á Ísafirði hafa tekið þetta mál til meðferðar og leggja alveg sérstaka áherzlu á, að það verði strax ákveðið, að rannsóknastofa fyrir fiskiðnaðinn og matvælaframleiðsluna skuli vera á Ísafirði. Bæjarstjórn Ísafjarðar sækir nú um fjárveitingu á fjárl. næsta árs að upphæð 1 millj. kr. til rekstrar slíkrar rannsóknastofu. Þetta mál er hví aðkallandi og liggur ljóst fyrir hvað varðar Ísafjörð. Ég vil leyfa mér að lesa hér upp kafla úr bréfi bæjarstjórans á Ísafirði til fjvn., dags. 23. nóv. t.d., sem fjallar um beiðni um fjárveitingu til rannsóknastofu á Ísafirði. í bréfi þessu segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er augljóst, að brýn þörf er á að koma upp rannsóknastofu, sem væri komið upp hér á Ísafirði, því að vaxandi kröfur eru á erlendum fiskmörkuðum um gæði fiskafurða og hreinlæti í meðferð matvæla. Rannsóknastofu í matvælaiðnaði auk sérmenntaðs og sérþjálfaðs starfsliðs gæti einnig nýtzt við miðlun á þekkingu og upplýsingum til sjómanna og fiskvinnslustöðva, því að brýn þörf er á daglegum samskiptum sérfróðra manna í matvælaiðnaði og þeirra, sem afla hráefnis og vinna úr því. Farið er fram á 1 millj. kr. stofnframlag, og má ætla, að fiskvinnslustöðvar hér séu fúsar að láta í té hliðstæða aðstöðu og gert var í Vestmannaeyjum.“

Hér lýkur tilvilnun til bréfs bæjarstjórans á Ísafirði til fjvn. Það kemur glöggt fram, hvernig hugsað er til þessara mála af hálfu Ísfirðinga og bæjaryfirvalda. Það er óþarft fyrir mig að orðlengja frekar um þörfina á því, að komið sé upp slíkri rannsóknastofnun, sem hér er um að ræða, á Ísafirði. Rök fyrir því falla undir hin almennu rök, sem líka hafa verið færð fram af hv. 1. þm. Vestf. um þörfina fyrir slíkar stofnanir í öllum landsfjórðungum. En ég hygg, að það séu engin frambærileg rök gegn því að taka nú þegar upp í lög, að það skuli starfrækt rannsóknastofa á Ísafirði eins og í Vestmannaeyjum. Ég vil því mega vænta þess, að þessi brtt. mín eigi almennt fylgi hér í hv. d. Það er ekki verið að taka neitt frá neinum með því að ákveða rannsóknastofnun þegar í stað á Ísafirði og viðurkenna þá staðreynd, að rannsóknastofa er starfandi í Vestmannaeyjum. Það eru líka skynsamleg vinnubrögð, þegar svo stendur á, að það eigi að setja upp stofnanir af slíkri tegund, sem hér er um að ræða, í öllum landsfjórðungum að ætla sér ekki að gera það allt í einu, heldur byrja á byrjuninni og taka svo hvern stað fyrir sig, eftir því sem aðstæður leyfa og þegar það er ákveðið af þeim aðilum, sem bezt þekkja til. hvar skuli setja á stofn slíkar stofnanir.

Hv. 1. þm. Vestf. lýsti stuðningi við till. mína, en vænti þess, að hún yrði ekki til þess að tefja þetta mál. Auðvitað vænti ég þess. Ég sé enga ástæðu til þess, að tili. mín, þótt samþykkt verði, eins og ég vona tefji framkvæmd þessa máls á nokkurn hátt. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir hans undirtektir undir þetta mál. Ég þóttist raunar vita, að hann væri mér sammála um þetta efni, og ég leyfi mér að vænta þess, að hann, sem er áhrifamaður í sínum flokki, vinni þessari till. eindregið fylgi, þannig að við sameiginlega getum tryggt till. þessari framgang.