04.12.1972
Efri deild: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

74. mál, vélstjóranám

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 110, gat ég ekki verið viðlátinn við afgreiðslu málsins, en ég hefði þá imprað á því, að í frvgr. stendur: „skal skólastjóri Vélskóla Íslands láta halda árlega á þessum stöðum: Reykjavík, Ísafirði, Akureyri, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum“ þessi námskeið. Mér finnst þetta mjög hart ákvæði, ef honum er gert að skyldu að gera það árlega, án þess að hafa nokkurn staf í frv. um lágmarksþátttöku, því að hér er bundinn fjárhagslegur baggi, sem við sjáum varla fyrir endann á. Gildi frv. dreg ég ekki í efa og nauðsyn þess að koma á slíkum námskeiðum. Það hefur verið mjög oft fjallað um það, bæði í samtökum útvegsmanna og hjá farmönnum og fiskimönnum, og það hnígur allt að sama brunni um nauðsyn þess að koma á námskeiðum. En ég vil bara vekja athygli á þessu, að það er dálítið hart að binda þetta með árlegri kvöð án þess að taka nokkuð fram um, hve margir þátttakendur þurfi að vera í námskeiðinu til að tryggja eðlilegan grundvöll fyrir því. Einnig hefði ég bent á, að Suðurnesin eru ekki þarna með, sem væri þó eðlilegt, fyrst er byrjað á því að telja upp ákveðna staði. En á Suðurnesjum: Keflavík, Sandgerði, Grindavík og Njarðvíkum, er stærsta útgerðarsvæðið, ef það er tekið sem ein heild. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og hugsanlegt væri, að við gætum skotíð á nefndarfundi núna milli 2. og 3. umr. Þetta er dálitið hörð kvöð fjárhagslega séð, ef frv. fer svona í gegn.