04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

32. mál, loðna til bræðslu

Frsm. minni hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að skila sérnál. á þskj. 132, en eins og fram kemur í nál. mínu var n. sammála um ákvæði 1. gr. frv., en ákvæði þessarar gr. er á þá lund, að síldar- og fiskimjölsverksmiðjur skuli taka við afla þeirra skipa, sem loðnuveiðar stunda, í þeirri röð, sem skipin koma til löndunarhafna. Menn eru sammála um, að reynslan frá síðustu loðnuvertíð hafi sýnt, að nauðsynlegt sé að lögfesta slík ákvæði. Um þetta var enginn ágreiningur innan n. Hins vegar varð n. ekki fyllilega sammála um ákvæði 2. og 3. gr frv. Meiri hl. n. hefur á þskj. 128 flutt veigamiklar breytingar efnislega við 2. gr. frv., og skal það viðurkennt, að ef brtt. n. verða samþykktar, hefur frv. verið fært mjög til betri vegar frá því, sem var, þegar það var lagt fram og rætt hér við 1. umr. Ég tel þó, að ganga hefði átt skrefi lengra og fella 2. og 3. gr. alveg niður úr frv. Byggi ég þetta á því, að ég tel, að ákvæði 1. gr. tryggi alveg eins og ég hef áður sagt, að loðnulöndun geti átt sér stað á eðlilegan hátt, á komandi vertíð, þar sem skipum er tryggt, að þau fái löndunaraðstöðu í þeirri röð, sem þau koma til löndunarhafna.

Verði brtt. meiri hl. n. samþykkt, er ekki annað eftir samkv. 2. gr. en að veita veiðiflotanum upplýsingar um, hvar löndunaraðstaða sé hverju sinni. Nú er það vitað, að bæði útgerðarmenn og í flestum tilfellum skipstjórar skipanna fylgjast náið með þessum málum, og er mjög auðvelt að koma boðum á milli aðila um þetta atriði í gegnum fjarskiptastöðvar. Ég hygg, að á flestum eða öllum hinna stærri stöðva sé vakt allan sólarhringinn og því engin hætta á, að nokkur töf verði á að koma boðum á milli, á hvaða tíma sólarhrings sem er, og megi því vel komast hjá að mínum dómi að skipa þriggja manna n. með tilheyrandi skrifstofuaðstöðu til að koma á framfæri nauðsynlegum upplýsingum varðandi móttökuskilyrði einstakra verksmiðja hverju sinni. Við það þurfa engin vandræði að skapast. Hef ég því lagt til, eins og fram kemur í nál. mínu, að 2. og 3. gr. frv. verði felldar niður.

Ég vil að endingu aðeins leiðrétta það, sem fram kom hjá frsm. meiri hl. sjútvn., hv. 5. þm. Sunnl., að allir aðilar væru sammála um frv. Það var einn aðili — og ég segi nokkuð veigamikill aðili, sem sendi mjög hörð andmæli gegn frv., og það var félag skipstjórnarmanna í Vestmannaeyjum, skipstjórnarfélagið Verðandi. Ég hélt, að hv. 5. þm. Sunnl. hefði verið um þetta kunnugt, því að ég held, að hann sé meðlimur einmitt í þessu eina félagi, sem sendi mótmæli.