04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

32. mál, loðna til bræðslu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta mál. enda virðist eftir síðustu orðum hv. frsm. meiri hl. n. sem málið sé útrætt og meira þurfi ekki um það að ræða, það er skiljanlegt, þegar hann er búin að gefa samþm. sínum úr Suðurlandskjördæmi svona á baukinn, vegna þess að stjórn þeirra samtaka, sem boðaði hann á sinn einkafund, hafi ekki talið verðugt að taka til greina mótmæli einna stærstu samtakanna innan sinna vébanda, skipstjórafélagsins Verðandi í Vestmannaeyjum, þá sé málið afgreitt. Hann um það, hv. þm. úr Eyjum, ef svo er. Hvað sem því líður, hef ég ekki talið rétt að fylgja mínum ágæta flokksbróður, hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni, og hans skoðunum í þessu máli. Erum við þó á margan hátt á sama máli, þótt hann skili séráliti.

Ég vil leyfa mér að þakka meiri hl. n. fyrir að verða við ábendingum mínum um nokkrar breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. frá því, að það var lagt fram í byrjun. Ég held, að rétt sé að taka það líka fram, að það sé að þakka hv, þm. Karvel Pálmasyni, að þarna náðist samkomulag, að vísu með 6 af 7 meðlimum sjútvn., og þó með fyrirvara hv. þm. Guðlaugs Gíslasonar um það, að hann muni e.t.v., ef till. hans verður felld, standa með okkur brtt. Þannig hef ég skilið hans orð.

Það, sem ég hafði við þetta frv. að athuga í byrjun, voru t.d. ákvæði um, að ráðh. ætti að skipa samkv. tilnefningu samtaka fiskseljenda einn í þá n., sem á að stjórna þessu. Það vita auðvitað allir, bæði guð og menn, að það er óframkvæmanlegt í okkar þjóðfélagi, að sjómannasamtök, sem skiptast í tvo hluta, og L.Í.Ú. geti orðið sammála um að skipa einn mann. Um það verða auðvitað að koma nánari ákvæði. Það varð úr, að þær breytingar eru komnar fram, sem getið er um í brtt. Ég fellst alveg á þær brtt., sem lagðar voru fram í n. af Karvel Pálmasyni og við, meiri hl. í n. urðum sammála um. Auk þess verð ég að segja það, að ég hef ekki trú á, að álit hv. þm. Guðlaugs Gíslasonar mundi ná tilgangi sínum, ef það yrði samþykkt. Ég veit, að bæði hann og ég erum sammála um, að það væri æskilegt, ef við gætum fengið því framgengt, að gera þetta með samkomulagi aðila. En ég hef ekki eins og er trú á, að það sé hægt, miðað við þau vandamál, sem komu upp á síðustu loðnuvertíð. Ég vil að lokum staðfesta það, sem hv. frsm. hefur sagt, þó að ég sé með fyrirvara um ýmislegt, sem frá honum hefur komið, að ég mun standa með þessum brtt. og vænti þess, að minn ágæti flokksbróðir, Guðlaugur Gíslason, geri það einnig að felldri brtt. hans.