04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

32. mál, loðna til bræðslu

Frsm. minni hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, tel ég, að með þeim brtt., sem um er að ræða hjá meiri hl. n., ef þær ná fram að ganga, hafi frv. verið mjög mikið lagfært í rétta átt. Það, sem okkur greinir á, meiri hl. n. og mig og einnig hæstv. sjútvrh., er það, hvort þörf sé á því að skipa sérstaka n. til að láta í té þá upplýsingaþjónustu, sem ráð er fyrir gert í 2. gr., en þetta er það eina, sem okkur í raun og veru greinir á um. Ég tel, að þess sé ekki þörf. Ég tel, að útgerðarmenn og skipstjórnarmenn hafi aðstöðu til þess að hafa svo gott samband við land, að þeir geti á öllum tímum fengið upplýsingar um, hvar löndunaraðstaða sé. Hv. 5. þm. Sunnl. vildi meina, að það væri fleira í frv. en að veita þessa þjónustu, og er það að vísu rétt. Það er að kjósa n. og ákvæði um, eins og hann benti á, að stöðva löndun. En eins og 2. gr. verður, ef brtt. meiri hl. verður samþ., þá kemur af sjálfu sér, að löndun stöðvast, þegar aðstaða er ekki lengur til að taka við loðnu hjá tilteknum verksmiðjum, þannig að það ákvæði út af fyrir sig skiptir ekki máli. Það, sem skiptir máli, er það eitt, hvort setja á upp n. með skrifstofu hér í Reykjavík til að veita þessa þjónustu eða veita þjónustuna gegnum fjarskiptastöðvar á landi. Ég tel, að útgerðarmenn og skipstjórar hafi fulla aðstöðu til þess, á hvaða tíma sólarhringsins sem er, að fá nægilegar upplý singar um þetta efni í gegnum þessar fjarskiptastöðvar.