04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

4. mál, Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég verð að játa það, að ég heyrði ekki upphaf máls hv. 10. þm. Reykv. og vissi því ekki fyrr en allra síðast í ræðu hans, hvert hann beindi máli sínu um rn., sem seldu atvinnuleyfi. Ég verð að játa, að ég kannast ekkert við það mál, að neitt rn., sem ég þekki til, ræki slíka starfsemi, að selja atvinnuleyfi. ´I lok ræðu sinnar nefndi hann samgrn. í þessu sambandi, og verð ég að segja, að ég hef ekki gefið út neinar reglur um slíkt. Ef slíkt viðgengst í samgrn., þá er ekki nema tvennt til: annaðhvort að starfsmenn þar hafi tekið upp þennan hátt, án samráðs við ráðh., og þykir mér það næsta ólíklegt, eða þetta sé arfur frá fyrri tíð, ef hér er um staðreynd að ræða. En arfur hlýtur það að vera, ef hinn er ekki möguleikinn, því að ég hef ekki gefið út slíkar reglur og mundi ekki gera.