05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í fjölmiðlum í gær var frá því skýrt, að þá hafi n., sem hæstv. ríkisstj. skipaði á sínum tíma til þess að gera grein fyrir þeim valkostum, sem um væri að ræða varðandi lausn efnahagsmála, skilað síðari hluta álits sins. í einhverjum fjölmiðlinum var þess getið, að um viðamikil plögg væri að ræða og það hlyti að taka ríkisstj. nokkurn tíma að kynna sér þau og taka afstöðu til þeirra, m.ö.o. að velja þá leið, sem fara skyldi til þess að leysa þann efnahagsvanda, sem augljóst er, að við blasir.

Ég þarf auðvitað ekki að mínna hæstv. ríkisstj. né heldur þingheim á það, hvaða dagur er í dag, það er 5. des., og þess vegna ekki nema rúmlega tvær vikur eftir af venjulegum starfstíma hins háa Alþ. fyrir jól. Fjárlög eru ekki komin til 2. umr., og eftir þeim ályktunum, sem draga má af blaðaumræðum, virðast allvíðtækar efnahagsráðstafanir vera í uppsiglingu. Það er vitað, að helztu útflutningsatvinnuvegir landsmanna eru þegar reknir með tapi og njóta þegar styrks af opinberu fé, og það hefur verið boðað, að iðnaður landsmanna muni að öllu óbreyttu verða rekinn með tapi á næsta ári. Það hefur verið frá því skýrt, að augljóst sé, að gjaldeyrisstaða landsins muni fara mjög versnandi að öllu óbreyttu á næsta ári. Það gefur því auga leið, að um mikinn efnahagsvanda er að ræða og að ráðstafanir, sem ríkisstj. hlýtur að gera till. um, hljóta að verða allróttækar.

Ef það tekur hæstv. ríkisstj. talsverðan tíma að setja sig inn í þá valkosti, sem um er að ræða, og taka ákvörðun, þá má ráða af líkum, að það hlýtur ekki síður að taka stjórnarandstöðuna nokkurn tíma að átta sig á þeim vanda, sem hér er um að ræða, og mynda sér skoðanir á því, hvernig skynsamlegast væri við honum að bregðast. En nú er það svo, að í lýðræðisríki skiptist þing annars vegar í stjórn og hins vegar í stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaða hefur ekki síður rétt í lýðræðisþjóðfélagi heldur en ríkisstj. og stjórnarflokkar. Ég vona, að það verði því með engu móti talin óeðlileg ósk af minni hálfu, þótt ég beini þeim eindregnu tilmælum til hæstv. ríkisstj. að stjórnarandstöðuþm. verði þegar í stað gefinn kostur á því að kynna sér þau plögg, sem hér er um að ræða, til þess að þingflokkar hennar geti hafið könnun á vandanum og myndað sér skoðun á honum.

Ég skal ekki hefja hér neinar ádeilur á hæstv. ríkisstj. eða stjórnarflokka í þessu sambandi, það er ekki staður eða stund til þess, en ég kemst þó ekki hjá því að vekja athygli á því, að stjórnarandstaðan hlýtur í þessum efnum að hafa miklu verri aðstöðu en hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkarnir, því að gera má ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi allan undanfarinn mánuð verið að velta þessum vanda fyrir sér og sífellt verið að fá skýrslur frá sérfæringum sínum, eins og líka algerlega eðlilegt er, og búast má við því, að stjórnarflokkarnir hafi að meira eða minna leyti fengið að fylgjast með því, sem verið hefur á döfinni. Hins vegar hefur stjórnarandstaðan eða a.m.k. ekki minn flokkur fengið neinar teljandi upplýsingar um vandann né heldur þá valkosti, sem nú liggja fyrir, eða undirbúning þeirra. Samt er til þess ætlazt, og við munum að sjálfsögðu reyna að verða við þeirri þingræðisskyldu okkar, að við myndum okkur skoðun á vandanum og lausnum hans á aðeins tveim vikum.

Ég vona, að engum þyki það ósanngirni, þó að ég endurtaki þau eindregnu tilmæli mín til hæstv. ríkisstj., að þm. stjórnarandstöðuflokkanna verði veittur aðgangur að öllum þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir um efnahagsvandann og þá valkosti, sem valkostanefndin svokallaða hefur gert hæstv. ríkisstj. grein fyrir.