05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af orðum hv. 7. þm. Reykv. vil ég segja það, að ég hef gert ráðstafanir til, að formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar verði send þessi nál., og hafi þeir ekki fengið þau þegar í hendur, þá vona ég, að þau séu á næsta leiti. Þau eru þeim þó á þessu stigi send sem trúnaðarmál. Í öðru lagi vil ég segja það, að ég geri ráð fyrir því, að búið verði að ganga frá svo mörgum eintökum af þessum nál., að það verði hægt að útbýta þeim til þm. á morgun eða fimmtudag. Fleira þarf ég raunar ekki um þetta að segja.

Það er að sjálfsögðu eðlileg ósk, sem kom fram frá hv. 7. þm. Reykv., og það var aldrei ætlun stjórnarinnar að fara með þetta sem neitt feimnismál. En sannleikurinn er sá, að þarna hefur verið unnið ákaflega mikið verk, hvernig sem menn svo lita á það og dæma, og jafnvel sjálft handverkið við það er talsvert umsvifamikið. Ég held, að það sé ekki ofsagt, að starfslið hagrannsóknardeildarinnar hafi næstum því að segja lagt nótt við dag nú að undanförnu til að koma þessu frá sér. En fái formenn stjórnarandstöðuflokkanna ekki nál. í hendur nú á næstunni, vona ég, að þeir snúi sér til Jóns Sigurðssonar hagrannsóknarstjóra, og hann hefur fyrirmæli mín um að afhenda þeim þau.