05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

67. mál, bundnar innistæður hjá Seðlabankanum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Hve hárri upphæð nemur bundið innstæðufé í Seðlabankanum?“ Svar Seðlabankans er á þessa leið:

„Í bréfi rn., dags. 9. þ.m., er beðið um svör við spurningu um bundið innstæðufé í Seðlabankanum, svo og um endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum atvinnuveganna. Svarið við fyrri spurningunni er, að bundið innstæðufé var 4008.2 millj. kr. 1. okt. 1971, en 4583.4 millj. kr. 1. okt. 1972.“

Síðari spurningin er: „Hve hárri upphæð námu endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum atvinnuveganna 1. sept. 1971 og 1. sept. 1972, og hvernig skiptust þau milli atvinnuveganna?“ Um það segir í bréfi Seðlabankans:

„Yfirlit um flokkun endurkaupa afurðavíxla er á meðfylgjandi blaði. Er eðlilegt að líta á endurkaupin allt árið vegna mikilla sveiflna í framleiðslu. Loks skal bent á,“ segir Seðlabankinn „að fsp. alþm. er um tölur, sem Seðlabankinn birtir reglulega í Lögbirtingablaði og ársreikningum sínum.“

Þessar tölulegu upplýsingar um endurkaupalán Seðlabankans eru þannig, — ég les ekki allar þessar tölur á mismunandi árstímum, en skal grípa hér niður á nokkrum stöðum. Hinn 1. jan. 1971 námu endurkaupalánin 1743 millj. og skiptust þannig: Landbúnaður, — ég les bara heilar tölur, — 984 millj., sjávarútvegur 590 millj., iðnaður 140 millj. og önnur endurkaupalán 28 millj. Svo að ég grípi aftur niður á árinu 1971 og tek þá 1. júlí, þá var skiptingin þannig: Landbúnaður 707 millj., sjávarútvegur 1261 millj., iðnaður 174 millj. og önnur lán 3 millj. 1. jan 1972 voru endurkaupalán vegna landbúnaðar 1019 millj., vegna sjávarútvegs 796 millj., vegna iðnaðar 166 millj. og önnur lán 70 millj. Og núna 1. okt. 1972: Landbúnaður 744 millj., sjávarútvegur 1347 millj., iðnaður 167 millj. og önnur lán 90 millj. Samtals 2349 millj.

Ég vænti, að þetta séu fullnægjandi svör fyrir hv. fyrirspyrjanda.