05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

67. mál, bundnar innistæður hjá Seðlabankanum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í sambandi við þessar nokkuð óvenjulegu spurningar og svör hæstv. ráðh. við þeim, en hann sagði alveg réttilega, að svörin væru fyrir hendi að mjög verulegu leyti í opinberum skýrslum, þá get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á því, að fyrsta spurningin var sérstaklega athyglisverð. Þar spurði einn af helztu forustumönnum þingflokks stærsta stjórnarflokksins hæstv. viðskrh. um það, hversu miklu næmi bundna féð í Seðlabankanum. Allir hv. þm. vita, hvað í því hugtaki felst. En þau 12 ár, sem ég gegndi starfi bankamálaráðh., var það eitt helzta sameiginlega ádeiluefni hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðh. á mig og þáv. ríkisstj. að hafa tekið að binda fé í Seðlabankanum og halda því bundnu þar. Ef hv. fyrirspyrjandi hefði spurt hæstv. ráðh., hvenær núv. ríkisstj. ætlaði að afnema bindingu fjár í Seðlabankanum, hefði ég ekki kallað það undarlega spurningu, þó að ég hefði ekki öfundað hæstv. ráðh. af að þurfa að svara henni. En ég vek athygli á því, að nú er spurt, hversu hárri upphæð þetta bundna fé nemi, eins og ekkert hafi í skorizt, eftir að í rúman áratug hefur verið hafður uppi stanzlaus áróður gegn því kerfi, sem felst í sparifjárbindingu eða innlánsbindingu í Seðlabankanum. Nú eru öll stóru 12 ára orðin gleymd og bara spurt um, hvað talan nemi nú miklu? Þetta er saga til næsta bæjar.