05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

281. mál, kennsluskylda og rannsóknarstörf prófessora

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör. Ég verð nú að segja eigi að síður, að ég er ekki miklu nær, a.m.k. ekki um fyrsta liðinn, um kennsluskylduna. Það er þó ljóst, að kennsluskyldu ákveður háskólaráð. Ég er að vísu ekki kunnugur innan veggja Háskólans, en mér er tjáð, — það verður leiðrétt, ef rangt er, — að í háskólaráði sitji a.m.k. að langmestu leyti prófessorarnir sjálfir, þannig að þarna er um það að ræða, að prófessorarnir sjálfir ákveði sína kennsluskyldu, og það er sjálfsagt hið akademíska frelsi, sem þar ræður. Hvað um það, mér sýnist, — ég tek það fram, að ef ég ekki hef skilið þetta rétt, þá æski ég þess, að hæstv. ráðh. leiðrétti hér á eftir, — mér sýnist sem sagt, að hin raunverulega kennsluskylda geti verið frá 4–6 klukkutíma á viku, annað geti verið innifalið í rannsóknarstörfum, sem ekkert eftirlit er haft með, þannig að fyrir 4–6 tíma vinnu á viku muni hinir ágætu prófessorar, — ég er ekki að lasta þá, — fá greidd ca. 62 þús. kr. mánaðarlaun. Ég vil vekja athygli manna á því, að á sama tíma og við erum að ræða um 4–6 klukkutíma vinnuviku hjá prófessorum með G2 þús. kr. mánaðarlaun, eru menn að tala um vandkvæði á því og borga framleiðslustéttum ca. 22 þús. kr. mánaðarlaun fyrir a.m.k. 160 tíma vinnu á mánuði.

Í sambandi við það, sem fram kom um kennsluskylduna og rannsóknarstörfin, er ljóst, að prófessorar skila ekki skýrslum um rannsóknarstörf. Það má vera, að þetta sé ekki einhlítt. Það getur verið, að þarna sé um undantekningu að ræða. En mér er tjáð og mér skilst, að það séu a.m.k. sumar deildir Háskólans, sem ekki skila skýrslum yfir rannsóknarstörf viðkomandi prófessora. Ég vil af þessu tilefni beina þeirri eindregnu ósk til hæstv. menntmrh., að hann láti a.m.k. þm. í té skýrslu yfir rannsóknarstörf prófessora við Háskóla Íslands. Ég a.m.k. óska þess mjög gjarnan að fá í hendur slíka skýrslu. Mér sýnist, að ef við berum saman annars vegar laun og kennsluskyldu prófessora við Háskóla Íslands með 4–6 tíma kennsluskyldu, og vinnutíma og laun barnakennara hins vegar, þá sé ég ekki betur en það þurfi 10–12 prófessora við Háskólann til þess að skila álíka vinnu og einn barnakennari við barnaskóla. Það má vel vera, að þetta sé ekki rétt mat milli starfa, — ég er ekki að fella neinn dóm um það, — en mér sýnist dæmið líta svona út.

Ég vil að síðustu óska þess við hæstv. ráðh., að ég a.m.k. fái í hendur skýrslu um rannsóknarstörf prófessora við Háskóla Íslands.