05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

91. mál, iðnfræðsla

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar mitt við spurningu hv, fyrirspyrjanda er á þessa leið:

Fyrir liggur ítarlegt álit frá því í júní 1971 frá n., sem skipuð var til að gera till. um nýskipan verk- og tæknimenntunar í landinu. Skv. þeim till. er gert ráð fyrir að endurskipuleggja iðnnámið allt, flytja það að öllu leyti inn í iðnskólana í áföngum og verði hið nýja iðnnám þriggja ára nám með verkskólasniði í stað fjögurra ára meistaranáms nú. Á hverju ári verði 41/2 mánuður til bóknáms, 41/2 mánuður til verknáms og þessir tveir þættir samtvinnaðir í kennslunni. Jafnframt verði tveimur mánuðum varið til starfskennslu á vinnustað, sem að jafnaði yrði á sumrin.

Því er ekki að leyna, að samstarf um rekstur iðnskóla skv. gildandi lögum hefur í ýmsum tilfellum reynzt mjög örðugt og nánast óframkvæmanlegt. Eftir hinni nýju skipan er gert ráð fyrir, að iðnskólar verði hreinir ríkisskólar og að sérstakur fulltrúi verði ráðinn í menntmrn. til þess að hafa framkvæmd iðnfræðslumála með höndum. Menntmrn. hefur fyrir löngu farið fram á heimild til þess að ráða verkfræðing í menntmrn. til þess að annast endurskipulagningu iðnnáms, en rn. hefur ekki enn fengið fjárveitingu eða samþykki svokallaðrar bremsunefndar til að bæta við þessum starfsmanni.

Í verk- og tæknimenntunarálitinu er m.a. gert ráð fyrir því, að skipaðar verði tvær meginnefndir, önnur til þess að endurskoða iðnfræðslulöggjöfina og hin til þess að semja frv. til 1. um tækniháskóla. Ég hef hef fengið Guðmund Einarsson verkfræðing til þess að taka að sér formennsku í n., sem á að endurskoða iðnfræðslulöggjöfina, og Sveinbjörn Björnsson eðlisfræðing til að gerast formaður í n. til að semja lagafrv, um tækniháskóla. Leitað hefur verið eftir tilnefningu nokkurra aðildarsamtaka og stofnana um tilnefningu manna í nefndir þessar, og er þess að vænta, að nefndirnar geti hafið störf eigi síðar en um næstu áramót. Óhjákvæmilegt er og að ráða verkfræðing eða annan sérfróðan mann til þess að vinna að iðnfræðslumálum í menntmrn.

Endurskipulagning verk- og tæknimenntunar er eitt af þýðingarmestu verkefnum, sem nú blasa við þjóðfélaginu, og riður á miklu, að þegar menn velja sér námsbraut, njóti verknámið jafnmikillar virðingar og bóknámsleiðir og að á verknámsbrautinni séu engar blindgötur, heldur geti menn stöðvazt á þeirri braut með mismunandi atvinnu eða starfsréttindi, en þeir, sem það kjósa, geti haldið áfram til æðstu mennta á þessu sviði. Þetta viðhorf er kjarninn í þeim till., sem bornar eru fram í nál. verk- og tæknimenntunarnefndar. Ríkisstj. hefur lýst sig samþykka þessu markmiði, og að eflingu og endurskipulagningu verk- og tækninámsins verður unnið með þetta fyrir augum. Eins og fyrirspyrjandi gat um, koma þar til greina ýmsar nýjar leiðir. T.d. er síður en svo sjálfgefið, að iðnskólar og verknámsskólar séu sérstakar stofnanir, heldur liggur það miklu nær nútímakennsluháttum og nútímaviðhorfi til menntunar, að sameinað sé innan sömu skólastofnana bæði verknám og hefðbundið bókegt nám. Slíkir skólar hafa hlotið á íslenzku nafnið fjölbrautaskólar, og mun, áður en langt um líður, koma fyrir Alþ. frv. að l. um heimild til að stofna slíka skóla, þar sem við á.